Fjölskylduhelgin er nú haldin í Vestmannaeyjum í þriðja sinn um hvítasunnuna. Bæjarbúar og gestir hafa tekið dagskrá fjölskylduhelgarinnar einstaklega vel undanfarin ár og hefur verið gleðilegt að sjá hversu margar fjölskyldur hafa tekið þátt í þeim viðburðum sem boðið hefur verið upp á. Margar fjölskyldur hafa þar með eignast dýrmætar samverustundir saman. Er það von okkar að sú verði einnig raunin nú. Yfirskrift fjölskylduhelgarinnar er ?Hrósum hvert öðru" og eru allir hvattir til að nota hrósið óspart. Dagskráin er að vanda fjölbreytt og ættu allar fjölskyldur að geta fundið eitthvað skemmtilegt til að gera saman. Til viðbótar við þá viðburði sem eru á dagskránni verður gjörningur í Íþróttamiðstöðinni í tengslum við list án landamæra. Þar verður sett upp myndlistarverk eftir bæjarbúa og aðra gesti. Verkið hefur yfirskriftina ?Allir eru einstakir". Fjölskyldur eru hvattar til að taka þátt í gjörningnum.
Leikskólabörnin hafa einnig komið að listsköpun fyrir helgina og verður myndum eftir þau sem tengjast fjölskyldunni verið komið fyrir á ýmsum stöðum í bænum þar sem viðburðir fara fram.
Hvert heimili fær í hendur vegabréf og fyrir hvern dagskárlið sem fjölskyldan tekur þátt í fær hún stimpil í vegabréfið. Þeir sem skila inn vegabréfum með 5 eða fleiri staðfestum atburðum eiga möguleika á aðalvinningi en allir sem skila inn vegabréfi eiga möguleika á aukavinningum. Í aðalvinning er flugferð með Flugfélagi Íslands. Aukavinningar eru 10 sundkort. Tekið verður á móti útfylltum vegabréfum eftir helgina í þjónustuveri Ráðhúss. Skilafrestur er til 14.júní.
Góða skemmtun
Fjölskyldu- og fræðslusvið
Vestmannaeyjabæjar