Fara í efni
06.06.2016 Fréttir

Fasteignaþróun í miðbæ Vestmannaeyjabæjar

Fyrir liggur vilji eigenda Strandvegs 26 (Ísfélagshúsið) til að fella húsið sem og vilji Vestmannaeyjabæjar til að hefja þar sem fyrst uppbyggingu á ný. Leitast verður við að nýtt hús á reitnum muni styrkja enn frekar miðbæinn með blandaðri starfsemi.
Deildu
Fyrir liggur vilji eigenda Strandvegs 26 (Ísfélagshúsið) til að fella húsið sem stendur á 2.522 fermetra lóð í miðbænum. Til staðar er vilji Vestmannaeyjabæjar til að hefja þar sem fyrst uppbyggingu á ný.
 

Hugmyndin er að viðhalda að mestu leyti útlínum núverandi byggingar og ásýnd hennar við Bárustíg. Leitast verður við að nýtt hús á reitnum muni styrkja enn frekar miðbæinn með blandaðri starfsemi. Af hálfu sveitarfélagsins kemur til greina að fjármagna sex íbúðir fyrir fatlaða á þessum reit. Þess vegna leitar Vestmannaeyjabær nú að samstarfsaðilum í verkefnið.
 

Núverandi hús er á þremur hæðum og eru hæðartakmörk 14,65 metrar. Hugsanlegt flatarmál hverrar hæðar nýrrar byggingar getur orðið allt að 1.400 fermetrar. Deiliskipulag fyrir hafnarsvæði og Strandveg (umfjöllun um hús Ísfélagsins er á blaðsíðu 35) frá skipulagsstofnun Alta, samþykkt 2015, má kynna sér á vefsvæði skipulagsmála sveitarfélagsins

 

Áhugasömum er bent á að hafa samband við Sigurð Smára Benónýson, byggingafulltrúa (Umhverfis- og framkvæmdasvið Vestmannabæjar að Skildingavegi 5, sími 488-2530), fyrir 1. júlí. n.k. með pósti á netfangið bygg@vestmannaeyjar.is.

 

Bókun Umhverfis- og skipulagsráðs frá 23. maí s.l. um málið er í heild sinni svohljóðandi:

Nú liggur fyrir vilji eigenda Strandvegs 26 (Ísfélagshúsið) til að fella húsið. Eigandi hússins er Ísfélag Vestmannaeyja. Vestmannaeyjabær hefur átt viðræður við stjórnendur fyrirtækisins um hvort að mögulegt sé að halda hluta af húsinu enda gegni það mikilvægu hlutverki í ásýnd miðbæjarins. Eigendur hafa talið að húsið sé of illa farið til slíkt sé raunhæfur kostur.


Skipulagsfulltrúi fór yfir ákvæði byggingareits í deiliskipulagi, þar sem grunnhugmyndin er að viðhalda að mestu leyti núverandi útlínum byggingarinnar en nýta innsvæðið undir bílastæði.

Ráðið telur brýnt að viðkomandi byggingareitur verði nýttur sem allra fyrst og hvetur til þess að leitað verði eftir samstarfi við áhugasama aðila um að fara í sameiginlega þróun fasteignar á þeim byggingareit sem verður til þegar viðkomandi hús víkur. Í því samhengi ber að skoða sérstaklega hvort að hluti af byggingareitnum gæti nýst undir þær íbúðir sem nú er stefnt að því að byggja fyrir fatlaða og ráð er gert fyrir í fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár.

Ráðið beinir því til þeirra sem um málið koma til með að fjalla að áhersla verði lögð á að viðhalda þeim kennileitum sem hvað mest eru áberandi á byggingareitnum. Er þá sérstaklega vísað til bogans sem snýr að Strandvegi, auk þess sem leitast verði við að húsið nýtist til að efla enn frekar þann sterka miðbæ sem byggður hefur verið upp á undanförnum árum.

(Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs í heild sinni)

 

Teikningar af núverandi Ísfélagshúsi má finna á kortavef Vestmannaeyjabæjar:

1. hæð, grunnmynd.

2. hæð, grunnmynd.

3. hæð, grunnmynd.

Útlit byggingar í suður og vestur.

 

Annað efni:

Staðurinn á Já360°

Byggingarreitur og staðsetning

Auglýsing sem birt var í Eyjafréttum

 
 
Málefni þetta hefur verið auglýst í Eyjafréttum, Sjónvarpsdagskrá Vestmannaeyja og í Fréttablaðinu.