Fara í efni
26.05.2016 Fréttir

Fagleg úttekt á stöðu GRV í samræmdum prófum

Á 281. fundi fræðsluráðs Vestmannaeyja þann 17. desember 2015 samþykkti ráðið að leita til óháðra aðila til að framkvæma faglega úttekt á starfi GRV með höfuðáherslu á að greina ástæður þess að nemendur í GRV mælast að jafnaði undir landsmeðaltali í samræmdum mælingum. Miðað var við að slík úttekt fari fram í ársbyrjun 2016 og að niðurstöður liggi fyrir eigi síðar en undir lok vorannar 2016. Skólaskrifstofu var falin framkvæmd málsins.

Leitað var tilboða til þriggja ráðgjafafyrirtækja um úttekt og eftir að hafa yfirfarið tilboðin samþykkti fræðsluráð að ganga til samninga við fyrirtækið Ráðrík ehf.

Lykilspurningin var sem fyrr; "Að greina ástæður þess að nemendur í GRV mælist að jafnaði undir landsmeðaltali í samræmdum mælingum"
 
 
Deildu
Tvær að ráðgjöfum Ráðríks ehf. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir og Svanfríður Jónasdóttir komu til Vestmannaeyja og voru þar í tvo daga til að afla gagna og eiga fundi með hagsmunaaðilum í Eyjum. 

Skýrslan er tilbúin og hefur þegar verið ítarlega kynnt af starfsmönnum Ráðríks ehf. fræðsluráði, bæjarstjórn, skólaskrifstofu og stjórnendum og kennurum GRV. 

Í úttektarskýrslunni eru atriði listuð upp sem geta leitt til umbóta í skólastarfi og eru þannig líkleg til að efla nemendur og árangur þeirra í starfi. Fræðsluráð hefur þegar myndað stýrihóp sem hefur það hlutverk að fylgja skýrslunni eftir.

Stýrihópinn skipa Trausti Hjaltason formaður fræðsluráðs, Hildur Sólveig Sigurðardóttir varaformaður og Sonja Andrésdóttir fulltrúi E-lista í fræðsluráði. Hópurinn mun kalla til helstu hagsmunaaðila til að eiga samtal um mögulega lausnir og frekari úrbætur.

Stýrihópurinn starfar út næsta skólaár 2016-2017 og mun fræðsluráð fjalla um störf stýrihópsins og tillögur þegar tilefni gefst til. 
 
Hægt er að nálgast umrædda skýrslu hér