Fara í efni
11.11.2005 Fréttir

Elliðareyjamyndir í anddyri Safnahúss.

Ljósmyndasýning af myndum Ingólfs Guðjónssonar, frá Oddsstöðum (1917-1998) Ingólfur Guðjónsson fæddist á Oddsstöðum í Vestmannaeyjum 7. febrúar 1917, so
Deildu

Ljósmyndasýning af myndum Ingólfs Guðjónssonar, frá Oddsstöðum (1917-1998)

Ingólfur Guðjónsson fæddist á Oddsstöðum í Vestmannaeyjum 7. febrúar 1917, sonur Guðjóns Jónssonar (1874-1959) bónda og smiðs á Oddsstöðum og seinni konu hans Guðrúnar Grímsdóttur (1888-1981). Ingólfur var elstur fjögurra barna þeirra hjóna, en þau voru Guðlaugur, Árni og Vilborg. Guðjón eignaðist tólf börn með fyrri konu sinni Marteu Guðlaugu Pétursdóttur frá Þorlaugargerði.

Ingólfur lauk námi frá Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum og nam að því loknu prentiðn í prentsmiðjunni Eyrúnu í Eyjum. Hann starfaði síðar í Eyrúnu um árabil. Ingólfur fluttist síðar til Reykjavíkur og vann þar sem setjari við prentsmiðju Þjóðviljans allt til ársins 1960. Það ár fluttist hann aftur heim til Eyja og hóf störf við Útvegsbanka Íslands og síðar Íslandsbanka, þar sem hann starfaði allt til ársins 1987.

Ingólfur gerðist snemma félagi í Akógesfélaginu í Eyjum og var heiðursfélagi þess frá árinu 1986.

Ingólfur hóf snemma að safna bókum og átti um tíma eitt af stærstu bókasöfnum landsins í einkaeign, en hann ánafnaði Bókasafni Vestmannaeyja bækurnar er hann fluttist á Hraunbúðir árið 1987. Hann hóf snemma að læra bókband og varð virkilega flínkur bókbindari. Í safni hans eru margir gullmolarnir, bundnir inn á listilegan hátt.

Ingólfur var áhugaljósmyndari frá unga aldri og varð mjög fær á sínu sviði. Ljósmyndir hans af úteyjalífinu í Elliðaey eru skemmtilegt dæmi um færni hans. Safn hans er varðveitt á Ljósmyndasafni Vestmannaeyja.

Hann lést 16. nóvember 1998, 81 árs að aldri.

Fræðslu-og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.