Fara í efni
16.11.2005 Fréttir

Einstaklingsmiðað nám - könnun

Foreldrar grunnskólabarna fá bréf í næstu viku með kynningu á því hvað átt er við þegar fjallað er um einstaklingsmiðað nám ásamt könnun sem þeir eru beðnir að svara. Undanfarin ár hefur
Deildu

Foreldrar grunnskólabarna fá bréf í næstu viku með kynningu á því hvað átt er við þegar fjallað er um einstaklingsmiðað nám ásamt könnun sem þeir eru beðnir að svara.

Undanfarin ár hefur umræða um einstaklingsmiðað nám eða námsaðlögun verið öflug á Íslandi og hefur Reykjavíkurborg riðið á vaðið með því að hvetja til að kennarar taki upp þessi vinnubrögð.

Einstaklingsmiðað nám felur m.a. í sér að nemendur eru gerðir ábyrgari fyrir námi sínu, þeir hafa meira val um hvað og hvernig þeir vinna og foreldrar taka meiri þátt í að meta stöðu barna sinna. Innra skipulag skólastarfsins er fjölbreyttara, meiri teymisvinna kennara og nýjasta tæknin notuð til að stuðla að gagnvirkum samskiptum foreldra og skóla.

Eyjakennarar hafa sýnt hugmyndafræðinni mikinn áhuga og verið studdir af fræðsluyfirvöldum með ráðum og dáð. Haldin hafa verið námskeið og hingað hafa komið ráðgjafar og fyrirlesarar til að leiðbeina kennurum og styðja við þá í starfi. Greinilegt er að sú vinna er að skila sér því talsvert er um að kennarar séu smátt og smátt að breyta starfsháttum sínum í átt að einstaklingsmiðuðu námi.

Menntasvið Reykjavíkur hefur gefið út svokallað matstæki sem á að styðja við grunnskólana til að meta stöðu sína hvað varðar þróun í átt til einstaklingsmiðaðs náms og aukinnar samvinnu nemenda. Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyja mun senda út bréf í næstu viku til allra foreldra grunnskólabarna í Vestmannaeyjum með matstækinu og verða foreldrar beðnir að fara yfir það og merkja við þá þætti þar sem þeir telja að við Eyjamenn séum staddir í dag. Einnig gefst foreldrum kostur á að tjá sig um það sem þeir vilja sjá í framtíðinni.

Fræðsluyfirvöld hvetja foreldra eindregið til að sýna málinu áhuga og gefa sér tíma til að fara yfir gögnin og senda síðan til baka eins og beðið er um í bréfinu.

Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar