Verður gaman að sjá þau leiða saman hesta sína, þann klassíska, poppdrottninguna og Björn sem ekki leiðist að slá í blús eða djass þegar færi gefst. Tónleikar þeirra hefjast klukkan 13.00 og standa í hálftíma.
Himnarnir opnast svo í messunni að loknum tónleikum þar sem Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri á fyrsta orðið. Prestar Landakirkju, Guðmundur Örn Jónsson og Viðar Stefánsson, Guðni Hjálmarsson í Hvítasunnukirkjunni og sr. Denis O´Leary, prestur Kaþólsku kirkjunnar boða okkur fagnaðarerindið með bænum og þakkargjörð.
Mikill söngur verður í messunni þar sem Gissur Páll, Hera Björk og Björn koma fram ásamt Kór Landakirkju og Lofgjörðarsveit Hvítasunnukirkjunnar.
Á eftir verður samkomugestum boðið í hátíðarkaffi í Safnaðarheimilinu. Það er ekki af verri endanum, hnallþórur miklar og brauðtertur eru meðal þess sem borðin munu svigna undan.
Þar með lýkur formlegri dagskrá í tilefni af 100 ára afmæli kaupstaðarréttinda Vestmannaeyjabæjar. Eru tónleikarnir og kaffisamsætið í boði bæjarins og 100 ára afmælisnefndarinnar. Hana skipa Arnar Sigurmundsson, Stefán Jónasson og Hrefna Jónsdóttir. Þeim til aðstoðar eru Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs, Kári Bjarnason forstöðumaður Safnahúss og Ómar Garðarsson, sendill.
Þess má þó geta að ljósmyndaýningin, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt heldur áfram fram í desember og þann 1. desember verður myndarleg dagskrá í tali og tónum.