Stofnun dvalarheimilis aldraðra í Vestmannaeyjum á sér langa sögu. Það kom fyrst til umræðu í bæjarstjórn 1929 að þörf væri orðin fyrir dvalarheimili aldraðra eða eins og það var þá kallað, gamalmennahæli í Eyjum. Ekkert áþreifanlegt gerðist þó í þeim málum fyrr en 1948 þegar húsið Skálholt við Urðarveg var keypt, en þar hófst rekstur elliheimilis í nóvember 1950. Skálholt fór undir hraun í eldgosinu 1973 og í kjölfar eldgossins gáfu Norsk handslag til Island, American Scandinavian foundation og ýmis félagasamtök á vegum Rauða krossins Vestmannaeyingum dvalarheimilið Hraunbúðir. Húsið var afhent Vestmannaeyjabæ til eignar 22. september 1974 en fyrstu íbúarnir, samtals 10 manns, fluttu inn 5. október 1974.
Í upphafi var Hraunbúðum veitt starfsleyfi sem dvalarheimili fyrir 46 vistmenn. Öll herbergi voru í upphafi tvíbýli, sameiginlegt rými var borðstofa og föndurstofa.
Á þessum tíma var ekki starfrækt nein heimaþjónusta fyrir aldraðra hjá Vestmannaeyjabæ. Það var fyrst 1977 sem farið var að kanna möguleikann á að koma á heimilishjálp og var fyrsti starfsmaðurinn í heimilishjálp ráðinn til starfa 1. október 1980.
Árið 1977 stóð Rauði krossinn fyrir stækkun föndurstofu Hraunbúða með það að markmiði að starfsemi föndurstofunnar nýttist ekki bara heimilisfólki Hraunbúða heldur einnig öðrum eldri borgurum í Eyjum. Átti sú breyting sér stað 1980. Föndurvinnan á Hraunbúðum var á þessum tíma kostuð af Rauða krossinum og var svo fram til 1. maí 1981 en þá tók Vestmannaeyjabær við starfseminni.
1980 komu fulltrúar J.C. í Vestmannaeyjum fram með þá hugmynd að halda spilakvöld í dvalarheimilinu Hraunbúðum fyrir heimilismenn og síðar ef vel tækist til væri hægt að bjóða eldri borgurum í bænum að taka þátt í þessu félagsstarfi. Sú varð raunin og er enn í dag. Að félagsstarfinu í Hraunbúðum standa í vetur kvenfélagið Líkn, Sinawikklúbbur Vestmannaeyja, Rebekkustúkan Vilborg, ÍBV, Félag eldri borgara, kór Landakirkju, Drífandi stéttarfélag, sjálfstæðiskvennafélagið Eygló, slysavarnardeildin Eykyndill og Vestmannaeyjabær. Þessi félög og mörg fleiri tóku þátt í þessu uppbyggingarstarfi og hafa ýmis félög í bænum sýnt Hraunbúðum og heimilisfólki þess mikla ræktarsemi í áranna rás sem aldrei verður nógsamlega þökkuð.
1981 var samþykkt að koma á fót-og hársnyrtingu að Hraunbúðum fyrir eldri borgara og hefur sú starfsemi verið rekin þar síðan.
1982 kom upp sú tillaga að koma á fót dagvistun aldraðra að Hraunbúðum. Hugmyndin um dagvistun aldraðra kom aftur upp 1984 en það var árið 1987 að Hraunbúðir fengu starfsleyfi sem dvalar - og hjúkrunarheimili, auk þess að fá starfsleyfi til að reka dagvistun aldraðra, nýja og bætta þjónustu við aldraða í heimahúsum.
Árið 1994 var byggð ný álma við Hraunbúðir. Við þá breytingu var komið upp nýju eldhúsi og borðsal, hvort tveggja mun stærra en það sem fyrir var og fönduraðstaða stækkuð og breytt. Allar þessar breytingar miðuðu að því að bæta aðstöðu aldraðra bæði heimilismanna að Hraunbúðum og þeirra aldraða sem þangað sóttu ýmsa þjónustu. Við breytingar á eldri hluta hússins 1997 var fjölgað einbýlum, hjónaherbergi lagfærð, ný aðstaða fyrir vaktina og býtibúrið, sameiginleg setustofa stækkuð og aðstaða föndurstofu stórbætt. Í tengslum við stækkunina var komið á fót aðstöðu fyrir sjúkraþjálfun að Hraunbúðum með þeim tækjum sem Sjómannadagsráð Vestamannaeyja og kvenfélagið Líkn gáfu og var sú aðstaða tekin í notkun árið 2000 í umsjón sjúkraþjálfara.
Hraunbúðir eru nú tæplega 2500 fermetrar að stærð. Dvalar-og hjúkrunarheimilið Hraunbúðir er einn af stærri vinnustöðum Vestmannaeyjabæjar en þar vinna um 45 manns í 27 stöðugildum, auk verktaka sem sjá um læknis-og lyfjaþjónustu, hár-og fótsnyrtingu ásamt ferðaþjónustu.
Leiguíbúðir aldraðra í Eyjahrauni, samtals 12 íbúðir, voru byggðar af Vestmannaeyjabæ 1980 og 1985 til að veita öldruðu fólki kost á leigu og/eða söluíbúðum, þar sem íbúarnir gætu notið þjónustu í tengslum við dvalarheimilið. Þjónustan við íbúa í Eyjahrauni fólst í aðgangi að mötuneyti og sameiginlegri næturvakt sem og þeirri þjónustu sem síðar var byggð upp og komið á fót að Hraunbúðum. Íbúðirnar eru tengdar öryggiskerfi Hraunbúða þannig að starfsmenn Hraunbúða svara neyðarboðum frá öryggishnöppum í íbúðunum. Í dag er hér eingöngu um leiguíbúðir að ræða.
Hraunbúðir hafa í tímanna rás fengið æ meira vægi sem þjónustumiðstöð aldraðra í Eyjum og er þar m.a. rekin ýmis þjónusta fyrir aldraða í heimahúsum. Á Hraunbúðum er eins og áður segir föndurstofa, hárgreiðslustofa, fótsnyrting, dagvistun aldraðra og skammtímavistun. Á Hraunbúðum er einnig staðsett umsýsla félagsþjónustu aldraðra og hefur forstöðumaður hennar starfsaðstöðu í húsinu. Til félagsþjónustu aldraðra telst heimaþjónusta, heimsending matar, aðgangur að félags-og tómstundastarfi, ferðaþjónusta, félagsráðgjöf og aðgangur að fræðslu og námskeiðahaldi um réttindi aldraðra. Ljóst er að uppbygging öflugrar þjónustu við aldraða er til þess fallin að aldraðir geti lengur búið í sjálfstæðri búsetu en áður var. Uppbygging þjónustu til aldraðra í heimahúsum hefur því bein áhrif á þörf og þróun stofnanaúrræða eins og dvalar -og hjúkrunarheimila. Samhliða aukinni áherslu á að þjónusta aldraða til að geta búið sem lengst heima og við sem eðlilegastar aðstæður breytist hlutverk Hraunbúða. Ekki er lengur sama þörf fyrir þjónusturými á stofnuninni og var hér fyrir 1980. Á síðastliðnum 24 árum hafa þarfir aldraðra og áherslur í öldrunarþjónustu breyst. Í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 er áhersla lögð á að þróa og samhæfa þjónustunet aldraðra; heimilishjálp og heimahjúkrun, öldrunarlækningadeildir og stofnanavistun. Varðandi Hraunbúðir verður áfram unnið að fjölgun einbýla á stofnuninni, fjölgun hjúkrunarrýma og fækkun þjónusturýma samhliða öflugri uppbyggingu heimaþjónustu aldraðra. Við höfum á að skipa góðu og hæfu starfsfólki sem leggur metnað sinn í að veita heimilismönnum góða þjónustu. Fjölgun hjúkrunarsjúklinga gerir auknar kröfur til starfsmanna sem sinna umönnun aldraðra og auka þörfina á endurmenntun starfsmanna. Það er því mikilvægt að markvisst verði unnið að því að efla menntun heilbrigðisstétta þannig að starfsfólkinu sé gert kleift að takast á við ný verkefni í framtíðinni. Að lokum óska ég öllum sem hafa tekið þátt í uppbyggingu öldrunarþjónustu í Vestmannaeyjum til hamingju með áfangann og velfarnaðar á þessum vettvangi í framtíðinni.
Hera Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri félags-og fjölskyldusviðs Vestmannaeyjabæjar.