Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, þann 16. nóvember, frá árinu 1996
Að venju er mikið um að vera í skólunum á þessum degi enda haldið upp á daginn með ýmsu móti. Nemendur fræðast um Jónas Hallgrímsson og íslenska tungu með söng, gleði og fjölbreyttri verkefnavinnu.
Bæjarstjóri og fræðslufulltrúi fóru í heimsókn í skólana og kynntu sér þau fjölmörgu og frábæru verkefni sem unnin voru í tilefni dagsins. Alls staðar var líf og fjör og mikið um að vera.
Nemendur í grunnskólanum lásu og hlustuðu á ljóð og vísur eftir Jónas Hallgrímsson. Í framhaldi unnu þeir fjölbreytt og skemmtileg verkefni í tengslum við þau.
Á leikskólunum var söngur og gleði þar sem nemendur fluttu nokkur vel valin lög sem þeir voru búnir að æfa í tilefni dagsins. Þá sátu elstu nemendur fjarfund með vinaleikskóla í Þýskalandi þar sem sama sagan var lesin á íslensku og þýsku.
