Vestmannaeyjabær hefur síðastliðin fjögur ár verið með sérstaka fjölskylduhelgi um hvítasunnuhelgina þar sem áhersla hefur verið á að skapa skilyrði fyrir fjölskylduna að eiga góðar stundir saman. Fleiri sveitarfélög, nú síðast Árborg, hafa fylgt í kjölfarið.
Hvatinn af þessari fjölskylduhelgi var Alþjóðlegur dagur fjölskyldunnar en Sameinuðu þjóðirnar tileinkuðu 15. maí sérstaklega málefnum fjölskyldunnar í fyrsta sinn 1995.
Markmiðið með degi fjölskyldunnar er að undirstrika mikilvægi fjölskyldunnar í hverju samfélagi og skapa vettvang fyrir ánægjulega samverustundir. Fjölskyldan er grunneining okkar samfélags.
Nú hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að ár hvert skuli haldinn hátíðlega dagur barnsins og hefur síðasti sunnudagur maímánaðar verið valinn fyrir þennan viðburð. Dagur barnsins á Íslandi verður nú haldinn í fyrsta sinn þann 25. maí næstkomandi. Markmiðið með því að helga börnum sérstaklega einn dag á ári er að skapa tækifæri til að minna okkur landsmenn alla á þessa mikilvægu þegna landsins, koma málefnum barna á framfæri og leyfa röddum barna að hljóma.
Markmiðið með því að helga börnum sérstaklega einn dag á ári er að skapa tækifæri til að minna okkur landsmenn alla á þessa mikilvægu þegna landsins, koma málefnum barna á framfæri og leyfa röddum barna að hljóma.
Hugmyndin með degi barnsins er að hann renni inn í þjóðarvitund á komandi árum og verði til að hvetja til samveru foreldra með börnum sínum.
Vestmannaeyjabær hefur mótað sér stefnu í skóla- og æskulýðsmálum auk stefnu í forvörnum sem leggur áherslu á öryggi og vellíðan barna. Tilgangur skóla- og æslulýðsstefnu er að samhæfa áherslur og renna styrkari stöðum undir skóla- og æskulýðsstarf í bæjarfélaginu svo börn fái notið bestu uppeldisskilyrða og menntunar og þau mótist sem ánægð, ábyrg og virkir þjóðfélagsþegnar. Stefna Vestmannaeyja í forvörnum leggur áherslu á heibrigðan lífstíl, umhyggju, samstöðu og samkennd.
Markmið alþjóðadags fjölskyldunnar og dags barnsins renna saman og undirstrika mikilvægi samverunnar, öryggis og vellíðunar. Vestmannaeyjabær mun áfram í framtíðinni leggja áherslu á mikilvægi fjölskyldunnar og mikilvægi málefna barna m.a. með dagskrá fjölskylduhelgarinnar um hvítasunnuhelgina.
Jón Pétursson framkvæmdastjóri
fjölskyldu- og fræðslusviðs