Sýnd í sal Barnaskóla Vestmannaeyja í dag miðvikudag 5. október - Innlegg í listrænt uppeldi -
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyja hefur unnið að því að fá Barnaóperuna "Undir drekavæng" hingað til sýningar fyrir leik- og grunnskólabörn á aldrinum 1 - 8 ára. Hér fyrir neðan má lesa fyrirlestur Messíönu Tómasdóttur, en hún er löngu landsþekkt fyrir grímu- brúðu - og leikmyndagerð sínar. Hún hefur gert leikmyndir við fjölda sýninga hjá atvinnuleikhúsunum, eigin leikhúsi og víðar. Leikskólafulltrúi hefur annast undirbúning að komu verksins hingað í samráði við skólastofnanir.
Fyrirlestur sem Messíana flutti á málþingi Barnamenningarsjóðs, Gerðubergi 5. mars 2005 sl. sem undirritaður sat.
Barnaóperan Undir drekavæng, sem Strengjaleikhúsið sýnir þessa dagana hér í Gerðubergi er ætluð börnum frá 2-8 ára. Leikskólum á stór-Reykjavíkursvæðinu og grunnskólum í Reykjavík hefur verið boðið að koma á óperuna og þeim sent efni til undirbúnings: Fuglagrímur fjögurra íslenskra fugla til að setja saman og skreyta, en börnin bera grímurnar á sýningunni og taka þátt í henni sem hrafnar, heiðlóur, æðarfuglar og lundar, þeim er sendur hljómdiskur með hljóðum þessara fugla og fjórum lögum sem börnin syngja á sýningunni, sagan að baki óperunni og prentaðir textar söngvanna auk litmyndar af persónunum. Svörun hefur verið mjög góð frá leikskólunum en það er eins og boðleiðir til sumra grunnskólanna séu tepptar einhvers staðar. Ég hef orðið vör við þetta áður í sambandi við fyrri barnaóperur mínar og fólk í öðrum barnaleikhúsum hefur sömu sögu að segja, að leikskólarnir bregðist fljótt og vel við, en að það sé erfiðara að ná eyrum grunnskólanna. Fræðsluskrifstofan hefur haft milligöngu um barnaleikhúsmessu fyrir grunnskóla og leikskóla, þar sem allar sýningar í boði voru kynntar, en þar var einnig áberandi, hvað næting fyrir hönd leikskólanna var góð, en fyrir grunnskólana mun síðri. Nú verður barnaleikhúsmessa haldin öðru sinni í Borgarleikhúsinu næstkomandi haust og þá er vonandi að þessar boðleiðir verði galopnar og skólarnir sendi allir fulltrúa sína á staðinn. Kannski er lausnin sú, að skólarnir velji einn af starfsmönnum sínum sem barnamenningarfulltrúa. Ég varpa þeirri hugmynd hér með fram.
En aftur til barnaóperunnar. Í þetta sinn, sem á fyrri óperur Strengjaleikhússins, koma börnin vel undirbúin og tilbúin að taka við því sem er miðlað og eins að taka virkan og skapandi þátt í þessari samverustund flytjenda og áheyrenda. Það skiptir geysilega miklu máli, að auk þess að vera skemmtileg, uppbyggjandi og virka andlega hvetjandi, veki barnasýning sköpunarkrafta úr læðingi. Dæmisagan að baki þarf að höfða til þess góða í barninu, til sjálfsvitundar þess og styrkja
heilbrigða samstöðu þess með sjálfu sér og öðrum. Þegar barnið finnur í sjálfu sér eigið hugrekki og góðmennsku, þá veit það að það á sjálft sig að, og að maður sjálfur er vissulega betri bandamaður en enginn. Og það er verulega gott veganesti.
Við undirbúning á fyrri barnaóperum Strengjaleikhússins hef ég átt frjóa samvinnu við Námsgagnastofnun um útgáfu námsefnis tengdu óperunum, en sem lifir síðan sjálfstæðu lífi að sýningum loknum. Þetta hafa verið óperutextar, þar með talin áður útgefin ljóð, tónlistar- og myndmenntaefni og annað námsefni. Ég met mikils þessa samvinnu við Námsgagnastofnun sem ég hef grun um að hafi skilað sér í aukinni listsköpun í skólum.
Og enn að barnaóperunni. Ég er alls ekki sammála þeim sem vilja leysa upp landamæri milli listar og afþreyingar. Afþreying er oft innihaldslítil og í mörgum tilfellum beinlínis skaðleg. Það verður að segjast eins og er, að klassísk tónlist og nútímatónlist gefa fólki allt aðrar víddir í tilveruna en popptónlistin. Klassíkin og nútímatónlistin koma frá og höfða til hjartaróta og heilastöðva, og vekja þannig bæði umhugsun og djúpar tilfinningar, á meðan áhrif popptónlistarinnar eru
frekar grunn og yfirborðsleg. Sú samkennd, samlíðun og kærleikur sem við upplifum í æðri tónlist er mun sjaldnar til staðar í popptónlistinni, þar vísar tilfinningaleg skírskotun nánast eingöngu til þess persónulega. Þegar litlu börnin hlusta á tónlist Mistar Þorkelsdóttur í barnaóperunni Undir Drekavæng, þá hafa þau enga fordóma og meðtaka byrjun óperunnar, þar sem þau eru í háfleygum dúett boðin velkomin á óperu, sem gjörsamlega sjálfsögðum hlut. Og ég ætla að biðja söngvarana
úr Undir Drekavæng, Mörtu G. Halldórsdóttur, Fjólu fiðrildi, og Bergþór Pálsson, Tígurinn, að leyfa okkur að heyra þennan dúett. Örn Magnússon, litli Dreki. spilar á píanóið.
söngur og leikur
Þannig, án fordóma, tóku unglingarnir líka unglingaóperunni Dokaðu við. Kjartan Ólafsson hafði þar samið tónlistina við ljóð eftir Thedóru Thoroddsen, Þorstein frá Hamri og Pétur Gunnarsson. Algjör hlustun og unglingarnir viðurkenndu fúslega, að þau hefðu skemmt sér.
Poppmenningin höfðar sem sagt aðallega til þess sjálfhverfa og auðvitað eru börn og unglingar sjálfhverf - en hlutverk þeirra sem koma að barnauppeldi og barnamenningu hlýtur m.a. að vera það að víkka sjóndeildarhring barnanna - að styðja þau til víðsýni og þroska og ég trúi ekki að það verði gert með poppmenningu eingöngu. Ég veit að þessi skilgreining á undir högg að sækja, hún er ekki samkvæmt tíðarandanum. Þeir sem semja og setja upp poppsöngleiki fyrir börn fá t.d. frekar styrki frá ríkinu, en þeir sem setja upp barnaóperur.
Raunverulegt listauppeldi bæði styrkir börnin og mýkir þau. Það losar úr læðingi og fullnægir djúpri sköpunarþrá sem býr með öllum mönnum. Öll börn eiga innra með sér guðlegan sköpunarkraft. Og því fyrr sem losnar um hann og því stöðugar sem stuðlað er að útrás hans, því meiri von er um fullnægðar manneskjur sem skapa betri heim.
Og enn og aftur til óperunnar: Litli Tígurinn, sem hafði minnkað úr mannsstærð niður í hanskastærð, vakti algjöra samkennd hjá einum af alminnstu frumsýningargestunum, þegar hann kom fyrst í ljós. Barnið heilsaði honum með mjóu og hlýju halló. Í þessari litlu vinarkveðju fólst samlíðun með þeim sem minna mega sín, og það var eins og bak við þetta eina orð fælist mikil uppörvun: vertu ekki hræddur, vertu bara duglegur þó þú sért lítill.
Og hann var duglegur. Hann bjargaði blóminu sem hann bjó í, frá því að vera tínt í vönd. Að vísu þótti litla Tígrinum mjög niðurlægjandi að vera tekinn fyrir randaflugu þegar hann var að verja blómið. En hann bjargaði blóminu sínu og þar með hluta af jörðinni og allri náttúrunni og þannig fann hann styrk sinn og ákvað þegar hann varð stór aftur, því hann varð stór aftur, að standa með þeim smáu og vernda náttúruna.
Það skiptir máli hverju við miðlum til barna. Dægurmenningin ýmist blasir við eða glymur í eyrum hvert sem er farið. Við þurfum að gefa börnunum menningarlegt mótvægi, styrkja sjálfsvitund þeirra og mýkt með list sem dýpkar og víkkar sjóndeildarhringinn. Við þurfum að veita þeim andlega hvatningu og útrás fyrir sköpunarkraftinn með þvi að stórauka
kennslu í listgreinum í grunnskólanum og hafa þar starfandi barnamenningarfulltrúa, sem eru á tánum til að finna lista- og menningartækifæri fyrir börnin að taka þátt í og njóta.
Messíana Tómasdóttir
Andrés Sigurvinsson framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs Vestmannaeyja.