Barnaóperan Undir drekavæng, eftir þær Messíönu Tómasdóttur og Mist Þorkelsdóttur var flutt fjórum sinnum miðvikudaginn 5.október í sal Barnaskóla Vestmannaeyja fyrir öll börn í leikskólunum og 1-3ja bekk grunnskólanna. Um 400 börn sáu sýninguna og voru börnin mjög virkir þátttakendur, útbúin grímum og voru flest þeirra búin að læra nokkra texta til að syngja með söngvurunum.
Þessi sýning hefur verið í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi fyrir leik- og grunnskólabörn á höfuðborgarsvæðinu, en einnig var þeim boðið að vera með eina sýningu á bæjarhátíð á Ólafsfirði í sumar. Að koma með sýninguna til Eyja var frumraun hjá hópnum með að fara með sýninguna út á land. Leikarar og aðstandendur sýningarinnar voru mjög ánægðir með viðtökur hér í Eyjum og sérstaklega ánægð með að sjá hve ung börn komu á sýninguna, en þau voru allt niður í 18 mánaða gömul. Sýningin er aðallega hugsuð fyrir börn 2-8 ára og hafa aldrei svo ung börn verið á sýningum hjá þeim. Söngvarar í sýningunni eru Marta G. Halldórsdóttir sem leikur fiðrildið, Bergþór Pálsson sem leikur tígurinn og Örn Magnússon litli dreki sem spilar á Stóra dreka (píanóið).
Messíana, sem leikstýrir verkinu, samdi einnig óperutextann og gerði búningana, leikmyndina og brúðurnar. Mist samdi tónlistina.
Fræðslu- og menningarsvið hafði veg og vanda að komu hópsins með dyggri aðstoð starfsfólks í Barnaskólanum og vill leikskólafulltrúi fá að þakka skólastjóranum, Hjálmfríði Sveinsdóttur og Ófeigi húsverði kærlega fyrir veitta aðstoð.
Guðrún Helga Bjarnadóttir