Ávarp bæjarstjóra Elliða Vignissonar við opnun sýningarinnar Andlit Norðursins hér í Vestmannaeyjum. Myndirnar eru teknar af Rax, Ragnari Axelssyni ljósmyndara og prýða veggi Salthúss Ísfélagsins.
Það er sannarlega ánægjulegt fyrir okkur Eyjamenn að fá hér tækifæri á að koma að sýningu sem þessari. Sýning þessi sem ber nafið Andlit Norðursins er sú sama og Edda útgáfa með stuðningi KB banka setti upp á Austurvelli í Reykjavík sumarið 2005 og hátt í 200.000 manns sáu. Myndirnar eru úr samnefndri bók ?Andlit norðursins" sem komið hefur út á fjórum tungumálum og hlaut frábærar viðtökur bókakaupenda auk þess sem kápa bókarinnar var valin besta kápa ársins 2004 í vali prentsmiðjunnar Odda.
En Andlit norðursins er meira en bara sýning á ljósmyndum. Ragnar Axelsson er ljósmyndari á heimsmælikvarða og ánn þess að vera sérfræðingur á sviði ljósmyndunar þá fullyrði ég að fáir ef einhverjir ná með ljósmyndum sínum að opnar þennan heim sem Rax gerir, heim sem stundum virðist yfirnáttúrlegur jafnvel þó að myndefnin séu yfirleitt eins hverdagsleg og frekast getur orðið.
Eins og þið sjáið hér á veggjum salthússins þá er ?Andlit norðursins" úrval mynda sem Ragnar Axelsson hefur tekið af mönnum og dýrum á Grænlandi, Íslandi og í Færeyjum. Þær birta yfirleitt alltaf hversdaginn eins og hann kemur fyrir - grundvallaratvinnuvegina, ef svo má að orði komast og fólk við einfaldar aðstæður jafnvel frumstæðar, eða við störf í hringiðu náttúruaflanna og í óvissri sambúð við þau. Ég er einn af þessum 200.000 sem sáu sýninguna á Austurvelli í Reykjavík og verð að viðurkenna að mér finnst þessi sýning sóma sér margfalt betur hér á veggjum salthússins á mörkum hraunjaðarsins og hafnarinnar.
Rax hefur verið sagður meistari hinna dramatísku og þrungnu augnablika. Honum tekst á magnþrungin hátt að skyggnast undir yfirborð, afhjúpa og skapa samhengi sem annars væri ekki alltaf og ekki öllum ljóst, stundum finnst mér eins og hann starfi á svipaðan hátt og sálfræðingur þegar hann afhjúpar persónuleikann og veruleikann að baki hinu sjáanlega. Framandi umhverfi og einstaklingar verða kunnuglegir og það sem er kunnuglegt fyrir verður nýtt og framandi. Hversdagslegar athafnir og svipbrigði beina athygli að óblíðu umhverfi, örlögum og baráttu. Þetta tekst Rax án þess að týna sér eða okkur áhorfenum í einhverri uppskrúfaðir tilfinningasemi eins og stundum vill verða.
Þessi sýning er meira en svipmyndir af fólki á norðurslóðum, hún er tilraun til að rýna í og segja okkur eitthvað um þá sem byggja þessi ólíku nágrannalönd, Grænland, Færeyjar og Ísland. Og tekst það betur en nokkurri rannsókn. Það er mín skoðun að við Eyjamenn skiljum betur en flestir þann boðskap þessar myndir bera um samspil manns og náttúru.
Mig langar einnig við þetta tækifæri að þakka Árna Johnsen hans framlag til þessarar sýningar en það er með þessa sýningu eins og svo margt sem Árni hefur komið að, að þegar við hin erum rétt að átta okkar á möguleikunum og tækifærunum hefur Árni hefur hrint þeim í framkvæmd.
Þá vil ég einnig þakka öðrum þeim sem lagt hafa hönd á plóg og þá ekki síst Ísfélaginu.
Elliði Vignisson , bæjarstjóri í Vestmannaeyjum
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.