Kynningar- og samráðsfundur verkefnisins
Föstudaginn 27. janúar hélt Lýðheilsustöð kynningar- og samráðsfund á Hótel Nordica með fulltrúum þátttakandi sveitarfélögum í verkefninu ?Allt hefur áhrif einkum við sjálf". Vestmannaeyjabær er þátttakandi í verkefninu ásamt 24 öðrum sveitarfélögum. Markmið verkefnisins er að stuðla að heilbrigðum lífsháttum barna og fjölskyldna þeirra með áherslu á aukna hreyfingu og bætt mataræði.
Í stýrihópi verkefnisins hér í Eyjum eru fulltrúar allra leik- og grunnskóla, heilsugæslu, félagsþjónustu ásamt íþrótta- og æskulýðsfulltrúa sem er tengiliður verkefnisins við Lýðheilsustöð. Tveir fulltrúar úr stýrihóp þær Ólöf A. Elíasdóttir íþrótta- og æskulýðsfulltrúi og Anna Lilja Sigurðardóttir kennari í Hamarsskóla ásamt fulltrúum nemenda þeim Braga Magnússyni formanni nemendafélags Barnaskólans og Söru Sjöfn Grettisdóttur formanni nemendafélags Hamarsskóla fóru sem fulltrúar Vestmannaeyjabæjar á fundinn.
Kynntar voru niðurstöður úr grunnkönnunum árið 2005 þ.e. stöðumat við upphaf verkefnis. Einnig var unnið í hópavinnu þar sem þekking og reynsla þátttakenda var nýtt til hugmyndavinnu fyrir verkefnið. Í hópavinnu unga fólksins var lögð áhersla á sjónarmið unglinga. Eftir hópavinnuna kynnti hver hópur sínar niðurstöður og var mjög áhugavert að hlusta á tillögur unglinganna. Unglingarnir létu í ljós ánægju með það tækifæri sem þeim var gefið með þátttöku í þessari vinnu og sögðust þau bæði hafa haft gagn og gaman af vinnunni. Lýðheilsustöð mun taka saman allar niðurstöður hópanna og senda stýrihóp hvers sveitarfélags.
Niðurstöður úr grunnkönnunum árið 2005 kynntu Laufey Steingrímsdóttir og Stefán Hrafn Jónsson rannsóknarsviði Lýðheilsustöðvar. Fjórar mismunandi kannanir voru lagðar fyrir árið 2005.
Niðurstöður þessara kannana verða leiðbeinandi fyrir starfið í sveitarfélögunum. Það var skoðað hvar unnið er gott staf og á hvaða sviðum þarf að gera betur.
- Könnun á aðbúnaði í grunnskólum, stefnu skólanna og þáttum sem lúta að skólaumhverfi og tengslum við foreldrastarf var send til allra grunnskólastjóra á landinu.
- Könnun á aðbúnaði í og leikskólum, stefnu skólanna og þáttum sem lúta að skólaumhverfi og tengslum við foreldrastarf var send til allra leikskólastjóra á landinu
- Könnun á högum og lífsháttum barna Spurningalistar voru lagðir fyrir nemendur í 6. 8. og 10. bekk í þátttakandi sveitarfélögum. Nemendur voru spurðir um eigin líðan, hreyfingu, tómstundir og mataræði.
- Könnun á viðhorfum foreldra og mati þeirra á lífsháttum og líðan barna sinna. Foreldrar 11 ára barna af öllu landinu svöruðu því.
Samantekt úr niðurstöðum :
Margt gott einkennir lífshætti 11 -15 ára íslenskra nemenda í þátttökuskólunum.
- Flest börn borða morgunverð alla skóladaga, sérstaklega í yngri hópnum.
- Gosdrykkjaneysla grunnskólanema hefur greinilega minnkað frá árinu 1992. Íslenskir grunnskólanemar drekka ekki oftar gos en gengur og gerist í Evrópulöndum.
- Nánast helmingur grunnskólanema hreyfir sig a.m.k. klukkustund á dag, 5 daga vikunnar eða oftar.
- Nánast enginn grunnskóli er með sælgæti eða gosdrykki í boði fyrir nemendur.
- Matur og drykkur í leikskólum virðist almennt vera í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar, en síður í grunnskólum.
- Tiltölulega fáir grunnskólar (25%) hafa sykraða svaladrykki í morgunhléi.
Ekki er þó allt jafn ákjósanlegt:
- Miklar kyrrsetur margra barna og unglinga við tölvu og sjónvarpssjá eru áhyggjuefni.
- Stór hluti barna og unglinga stundar mjög litla líkamlega hreyfingu.
- Það fjölgar í hópi þeirra sem hreyfa sig lítið þegar komið er í elstu bekk grunnskóla.
- Í mörgum leikskólum mætti tryggja betur að öll börn fái hreyfingu, m.a. með þátttöku starfsfólks í hreyfileikjum barna.
- Áberandi lítið af grænmeti og ávöxtum er í grunnskólum. Neysla grænmetis og ávaxta er áberandi lítil meðal íslenskra barna og unglinga.
- Aðeins lítill hluti nemenda í efstu bekkjum grunnskóla borðar heita máltíð í skólanum.
- Mataræði nemenda í eldri bekkjum er almennt mun lakara en þeirra yngri.
Næstu skref í verkefninu hér í Eyjum er að bjóða foreldrum, starfsfólki skóla og leikskóla upp á þrjá mismunandi fyrirlestra um næringu, geðrækt og hreyfingu. Fyrirlestrarnir eru í boði Lýðheilsustöðvar, hver fyrirlestur tekur 20 mín í lokin verða umræður og fyrirspurnir.
Ólöf A. Elíasdóttir íþrótta- og æskulýðsfulltrúi.