Viðbragðsstjórn Vestmannaeyjabæjar hefur fundað tvíveigis og bæjarstjóri átt fundi með fulltrúum leik-, grunn-, og tónlistarskóla, sem og öðrum hagsmunaaðilum.
Vestmannaeyjabær þarf að loka Íþróttamiðstöðinni, þ.m.t. sundlauginni og Herjólfshöllinni, meðan á hertum samkomutakmörkunum stendur. Jafnframt hefur verið ákveðið að loka endurvinnslunni og félagsmiðstöðinni á sama tímabili. Opnunartími annarra stofnana Vestmannaeyjabæjar verður óbreyttur áfram, en staðan endurmetin reglulega.
Sérreglur gilda um leik-, grunn- og tónlistarskóla, Frístund, Hraunbúðir, Heimaey hæfingarstöð og þjónustuíbúðir fyrir fatlaða.
Tilkynnt verður um fyrirkomulag skólahalds næstu vikur síðar í dag.
Því er beint til viðskiptavina Vestmannaeyjabæjar að notast við síma og tölvupóst í erindagjörðum við stofnanir bæjarins eftir fremsta megni, til að draga úr heimsóknum á stofnanirnar. Jafnframt hefur þeim tilmælum verið beint til forstöðumanna og starfsfólks. Viðskiptavinir sem nauðsynlega þurfa að heimsækja stofnanir bæjarins þurfa að hafa andlitsgrímur.
Fundir bæjarstjórnar og fagráða fara fram með fjarfundarbúnaði.
Upplýsingar um takmarkanir á starfsemi stofnana bæjarins er að finna á vef Vestmannaeyjabæjar, vestmannaeyjar.is.
Vestmannaeyjum, 2. nóvember 2020
Íris Róbersdóttir, bæjarstjóri
