Fara í efni
08.02.2023 Fréttir

Að verða besta útgáfan af sjálfum sér

Heilsuefling í Safnahúsi Vestmannaeyja sunnudaginn 5. febrúar kl. 13

Deildu

Hugmyndin að heilsueflingardeginum kviknaði fyrir rúmu ári síðan en vegna samkomutakmarkana þann veturinn varð ekkert úr framkvæmdinni. Rykið var hins vegar dustað af hugmyndinni undir lok síðasta árs og boltinn fór fljótt að rúlla.

Markmiðið með dagskrá af þessu tagi var að vekja fólk til umhugsunar um eigin heilsu og sýna fram á hversu margt er í boði hér í Eyjum fyrir þau sem vilja verða besta útgáfan af sjálfum sér.

Reynslan hefur sýnt að um þetta leyti eru mörg að gefast upp á „átakinu“ sem hófst í upphafi nýs árs. Því þótti okkur góður kostur að ýta aðeins við fólki og peppa það upp í frekari sjálfsrækt.

Flest þau sem samband var haft við varðandi dagskrá og kynningar tóku vel í að vera með en eins og gengur og gerist höfðu ekki öll tök á þátttöku þetta árið. Þar sem stefnan er að gera heilsueflingu af þessu tagi að árlegum viðburði verða vonandi enn fleiri með næst.

Þátttaka í dagskránni fór fram úr björtustu vonum en um eitt hundrað gestir mættu og hlýddu á fjölbreytt erindi og kynntu sér vörur og þjónustu sem er í boði hér í Eyjum.

Veðrið var aðeins að stríða okkur þannig að fyrirlesarar af fasta landinu komust ekki til okkar. Í stað þess var notast við tæknina og gekk það að mestu leyti vel þótt alltaf sé skemmtilegra að hafa fólk á staðnum.

Við sem stóðum að undirbúningi heilsueflingardagskrárinnar erum ánægð með hvernig til tókst en auðvitað má alltaf gera betur. Við erum opin fyrir nýjum hugmyndum og þótt við höfum lagt okkur fram um að hafa samband við alla þá aðila sem við vissum að byðu upp á heilsutengda þjónustu er alltaf möguleiki að einhver hafi gleymst. Ábendingar um slíkt eru vel þegnar.

Bestu þakkir til allra sem tóku þátt á einn eða annan hátt. Vonandi tekst okkur öllum að verða besta útgáfan af sjálfum okkur.