Linda Óskarsdóttir, sérkennslustjóri Víkurinnar, var með afar áhugavert erindi fyrir allt starfsfólk leikskólanna og var það liður í endurmenntunaráætlun skólaþjónustu. Erindið var byggt á meistararitgerð hennar sem ber yfirskriftina „Að samtvinna móðurmál og menningu tví- og fjöltyngdra barna við starfið í leikskólanum: aðferðir og viðhorf leikskólakennara til að nýta þær í starfi.“ Ritgerðin kom út árið 2020 og hægt að nálgast hana á skemman.is
Samkvæmt því sem fram kom í erindi Lindu hafa rannsóknir sýnt fram á að aðferðir sem stuðla að virku tvítyngi gefa börnum tækifæri til að bæta færni sína á báðum tungumálum þar sem þau styðja hvort við annað, að viðurkenning á móðurmáli og menningu barns eykur sjálfstraust þess og vellíðan, sem og bætir foreldrasamstarf til muna.
Linda kynnti helstu aðferðir sem reynst hafa árangursríkar í starfi með tví- og fjöltyngdum börnum í leikskólunum. Í lokin fékk starfsfólk leikskólanna tækifæri til að ræða saman um hvaða aðferðir leikskólarnir gætu hugsað sér að nota.
