Laxey ehf. áformar að auka umfang framleiðslugetu úr 11.500 tonnum í 42.000 tonn á ári ásamt áformum að reisa seiðaeldisstöð í Viðlagafjöru. Megin markmið framkvæmdarinnar er að skapa aukið rými fyrir landeldi á svæðinu og efla fiskeldi sem atvinnugrein í Vestmannaeyjum.
Með breytingu á aðalskipulagi er áætlað að stækka iðnaðarsvæðið I3 í Viðlagafjöru til að auka við athafnasvæði fiskeldis sem þar er starfrækt. Stækkunin iðnaðarsvæðisins nær yfir meginhluta efnistökusvæðis sem er nyrst í Viðlagafjöru eða sem nemur 4,16 ha, úr 16,64 ha í 20,8 ha. Efnistökusvæði E-1 er fellt út og mörk við svæði Óbyggð svæðis ÓB-3 breytast lítillega.
Í gildandi Deiliskipulagi iðnaðarsvæðis í Viðlagafjöru eru skilgreindar tvær lóðir og er uppbygging á annarri þeirra, lóð 1, langt á veg komin. Tillaga að breyttu deiliskipulagi gerir ráð fyrir nýrri lóð, lóð 3, nyrst á svæðinu þar sem gert verður ráð fyrir seiðaeldisstöð allt að 15.000 m2 að gólffleti. Gert er ráð fyrir mön umhverfis lóðina að norðanverðu við Eldfellsveg og að lega vegslóða að Viðlagafjöru frá norðri breytist.
Gert er ráð fyrir að mörk milli lóða 1 og 2 í Viðlagafjöru breytist. Einnig er gert ráð fyrir að lóð nr. 1 stækki og að heildar gólfflötur mannvirkja aukist og verði allt að 66.000 m2. Á lóð 2 var áður gert ráð fyrir geymslu jarðefna en þar er nú skilgreindur byggingarreitur með heildar gólffleti mannvirkja allt að 30.000 m2.
Íbúum og öðrum hagsmunaaðilum er boðið á opið hús hjá skipulagsfulltrúa dagana 16-18 desember 2025, klukkan 10-12 eða að bóka samtal samkvæmt samkomulagi.
Skipulagsgögn má finna á útprentuðu formi í afgreiðslu í Ráðhúsi Vestmannaeyja og á Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar (Aðalskipulag mál nr. 1473/2025 og deiliskipulag mál nr. 1474/2025 ). Umsagnir skulu berast í gegnum Skipulagsgátt.
Veittur er frestur til og með 6. janúar 2026 til að skila athugasemdum vegna málsins.


