- Hreinsunardagur ÍBV Knattspyrnu – 500.000 kr.
Um er að ræða hreinsunardag ÍBV í maí/júní þar sem til stendur að hreinsa allt nærumhverfi félagsins. Í ár á að bæta um betur með því að mála, sparsla og gróðursetja. Með þessu skapast góð stemning þar sem fjölskyldur koma og eiga góðan dag saman, ásamt því að leggja sitt af mörkum til umhverfisins. - Knattspyrnuskóli ÍBV – 350.000 kr.
Um er að ræða knattspyrnuskóla fyrir yngstu iðkendur ÍBV síðustu tvær vikurnar fyrir Þjóðhátíð þegar engar æfingar koma til með að eiga sér stað. Knattspyrnuskólinn fer fram utandyra á knattspyrnuvöllum bæjarins og möguleiki er á að vera innandyra ef veðurskilyrði verða ekki góð. Skólastjóri verður yfir skólanum og munu leikmenn og þjálfarar ÍBV stjórna æfingum og miðla af þekkingu sinni. Í lok skólans fá allir þátttakendur gjöf. - Töfrar og tækifæri – Listasmiðja fyrir börn 500.000 kr.
Um er að ræða námskeið í listum af ýmsu tagi, s.s. kvikmyndagerð, handritaskrif, dans, myndlist, hljómsveitarnámskeið o.s.frv. Þátttakendur munu velja sér áherslu og fá kynningu á hinum ýmsu formum lista og skapandi hugsunar. Markmið listasmiðjunnar er að opna augu barna fyrir eigin hæfileikum og skapa vettvang fyrir þau við að fást við listir. Að listamenn í Eyjum séu sýnilegir börnum og kynni þeim störf sín og hvernig þeir náðu árangri í sinni listsköpun. Stefnt er að hafa listasmiðjuna í tvær vikur, fyrir Goslokahátíð. - Golfnámskeið fyrir konur – 500.000 kr.
Meginmarkmið verkefnisins er að auka golfiðkun meðal kvenfólks í Vestmannaeyjum á öllum aldri. Boðið verður upp á opna tíma ( ókeypis ) fyrir allar konur í Vestmannaeyjum frá tímabilinu 26. maí – 6. júní. GV mun útvega alla aðstöðu og þau tæki sem þarf til þess að halda slíkt námskeið. Fyrirlestur fer fram í golfskála GV þar sem kynning verður á starfsemi GV og hvað golf getur verið heilsueflandi og jafnframt skemmtileg íþrótt óháð kyni og aldri. Kennarar og umsjónarmenn verkefnis eru eftirtaldir : Karl Haraldsson yfirkennari, Hafdís Snorradóttir formaður kvennanefndar GV, Jón Valgarð Gústafsson, Kristgeir Orri Grétarsson og Júlíus Hallgrímsson kennarar. - Námskeið fyrir konur og eldriborgara í pílu – 560.000 kr.
Starfsemi Billiard- og pílufélagsins hefur vaxið hratt undanfarin misseri en boðið er upp á aðstöðu, æfingar og keppni bæði í pílukasti og snóker. Haldið verður sérstakt námskeið fyrir konur á öllum aldri í pílukasti og landsliðsþjálfari á vegum Pílusambands Íslands fenginn til að leiðbeina. Einnig verður haldið námskeið í pílukasti fyrir eldri borgara með sama þjálfara. Þá munu félagsmenn og þau börn og ungmenni sem stundað hafa æfingar hjá félaginu fá þjálfun hjá viðkomandi þjálfara. - Útilistasýning og steinamálun Lista og- og menningarfélags Vestmannaeyja – 150.000 kr.
Lista- og menningarfélagið mun standa fyrir útilistasýningu og steinamálun í sumar og á Goslokum á Stakkagerðistúni. Félagið hefur tvisvar sinnum haldið sýningu eins og þessa. Þetta er menningarviðburður sem er skemmtilegur og gefur félaginu tækifæri til að vinna að því að fagna Goslokum með bæjarbúum og gestum. Einnig ætlar félagið að vera búið að dreifa máluðum steinum um bæinn sem bæði listamenn og börn hafa málað hjá félaginu á árinu. Gerður verður einhverskonar ratleikur fyrir börnin. - Sveitapiltsins draumur – 300.000 kr.
Sveitapiltsins draumur, vortónleikar Karlakórs Vestmannaeyja sem haldnir verða 16. maí 2025. Efnisskrá tónleikanna að þessu sinni eru hefðbundnari karlakóralög í bland við annað léttmeti. - Allra veðra von – 400.000 kr.
Á árunum 2002-2008 var árlega haldin hljómsveitakeppnin „Allra veðra von“ en þar stóð öllum hljómsveitum kostur á að taka þátt, einu skilyrðin voru að hljómsveitirnar þyrftu að vera með frumsamið efni. Endurreisn verkefnisins varð að veruleika þann 12. október síðastliðinn þar sem sex hljómsveitir tóku þátt í keppninni auk þriggja gestahljómsveita. Tilgangur keppninnar er að auka enn frekar menningarlíf Vestmannaeyja og að gefa hljómsveitum, óháð aldri og kyni, tækifæri til þess að koma sér á framfæri á stóru sviði með góðum hljóð og ljósabúnaði og fyrir stóran hóp af fólki. Keppnin mun fara fram laugardaginn 13. september í Höllinni í Vestmannaeyjum. - Tónleikar Kórs Landakirkju – 300.000 kr.
Kór Landakirkju hefur verið leiðandi í flutningi kirkjutónlistar sem og í flutningi sígildrar tónlistar í Eyjum. Það eru liðin 28 ár síðan síðasta stórverkið var flutt í Vestmannaeyjum. Nú stendur það til bóta og stefnir Kór Landakirkju á að flytja Sálumessu eftir franska tónskáldið Gabriel Fauré. Kórinn hefur fengið til liðs við sig Karlakór og Kvennakór Vestmannaeyja ásamt tveimur einsöngvurum. Meginmarkmið tónleikanna er að auðga tónlistarlífið í Eyjum og bjóða uppá sígilda tónlist sem heyrist alltof lítið af í Eyjum. Tónleikarnir verða samtvinnaðir minningarstund sem er alltaf haldinn á þessum messudegi. Þar er kveikt á kertum fyrir alla þá sem hafa verið jarðsungnir frá Landakirkju á síðastliðnu ári. Tónleikagestum verður gert kleift að kveikja á kerti til minningar um horfna ástvini. - Jólaskógur Dýravinafélags Vestmannaeyja – 350.000 kr.
Búa á til jólaskóg í desember í skóginum við Löngulá sem er við aðstöðu dýraþjónustunnar. Lýsa á skóginn upp, gera aðstöðu þar sem hægt er að setjast niður og fá sér kakó og vöfflur sem Dýravinafélagið mun selja í fjáröflunarskyni fyrir félagið. Stefnt er að því að fá jólasveina til að koma í heimsókn, útbúa lítinn ratleik um skóginn og fleira. Markmiðið er að gera skemmtilega upplifun fyrir fjölskyldur á þessum frábæra tíma, kynna um leið félagið og sýna aðstöðuna sem það hefur upp á að bjóða. - Jólahvísl – 300.000 kr.
Frá árinu 2016 hefur Hvítasunnukirkjan haldið tónleika fyrir jólin sem kallaðir eru Jólahvísl. Hugsunin með tónleikunum er að bjóða fólki ókeypis á hugljúfa tónleika sem minna alla á friðarboðskap jólanna og þar með gefa öllum tækifæri til að sækja jólatónleika óháð efnahag.
Viltu hafa áhrif?
Viltu hafa áhrif ? er styrktarsjóður menningar, lista, íþrótta og tómstunda.

Markmið sjóðsins
- Styður menningar-, lista-, íþrótta- og tómstundastarf í Vestmannaeyjum.
- Hvetur einstaklinga, félagasamtök og listahópa til að efla viðburði og verkefni.
Skilyrði
- Umsækjendur (listamenn, einstaklingar, félagasamtök) þurfa að vera skráðir í Vestmannaeyjum.
- Verkefni/viðburður skal fara fram í Vestmannaeyjum.
- Hér má sjá reglur menningarsjóðsins "Viltu hafa áhrif?"
Umsóknir
- Auglýst tvisvar á ári af bæjarráði.
- Umsóknir skilað rafrænt í gegnum Íbúagátt á vef Vestmannaeyjabæjar.
- Aðstoð við umsókn: verkefnastjóri menningarmála, sími 488-2000.
Mat á umsóknum
- Bæjarráð metur menningar- og listaverkefni.
- Fjölskyldu- og tómstundaráð metur íþrótta- og tómstundaverkefni.
- Horft er til:
- Markmiða verkefnis.
- Áhrifa á fjölbreytt menningar- og tómstundalíf.
- Raunhæfi, kostnaðaráætlunar og tíma-/verkáætlunar.
Eftir úthlutun
- Skila þarf stuttri greinargerð um ráðstöfun styrks innan árs.
- Ef greinargerð vantar, getur ráðið hafnað nýrri umsókn.
- Leiðbeiningar um gerð lokaskýrslu
Fjórtán verkefni hlutu styrk úr ,,Viltu hafa áhrif 2025?"
Verkefnin sem hljóta styrki eru fjölbreytt og spennandi. Óskar Vestmannaeyjabær öllum styrkþegum til hamingju. Meðfylgjandi er listi yfir þau verkefni sem hljóta styrk úr sjóðnum:
- Handknattleiksdeild IBV - 350.000 kr.
Styrkur fyrir flugeldabingói. Undanfarin ár hefur handknattleiksdeild ÍBV staðið fyrir flugeldabingói sem haldið er á milli jóla og nýárs. Viðburðurinn hefur verið vinsæll hjá Eyjamönnum og fengið mikið lof fyrir. - Karlakór Vestmannaeyja - 300.000 kr.
Styrkur fyrir verkefninu Jól í hjarta þar sem kórinn mun koma fram í aðdraganda jóla fyrir ýmsa aðila, m.a. stofnanir og félagasamtök. Reynt er að verða við öllum óskum sem kórnum berast án endurgjalds. - Kór Landakirkju - 300.000 kr.
Styrkur fyrir jólatónleikum kórsins. Landakirkja heldur árlega jólatónleika sem eru tvískiptir, annars vegar í safnaðarheimili Landakirkju og hins vegar í Landakirkju þar sem haldin er hátíðleg stund, m.a. með tendrun kert. Kórinn leggur mikið upp úr fjölbreyttu efnisvali fyrir tónleikana þar sem reynt er að höfða til sem flestra. Einsöngvari mun syngja nokkur lög með kórnum. - Listasmiðja náttúrunnar - 400.000 kr.
Styrkur fyrir Listasmiðju náttúrunnar sem er fyrir börn á aldrinum 6-13 ára. Þáttakendur sækja innblástur í nærumhverfi og náttúruna, fara í vettvangsrannsóknir og skissa úti. Þeir kynnast ólíkum aðferðum við listsköpun og skissuvinnu og vinna með efnivið úr náttúru Vestmannaeyja ásam því að fá kennslu í nýjungum í listsköpun frá listgreinamenntuðum kennurum. - Minningarskilti norðvestan við Eiði - 300.000 kr.
Styrkur fyrir minningarskilti. Ætlunin er að setja upp skilti til minningar um átta embættismenn sem fórust á róðrabáti þegar þeir voru á leið út í Gullfoss í embættiserendum þann 16.desember 1924. Hönnuður skiltisins er Gunnar Júlíusson og verður það staðsett norðvestan á Eiðinu. - Kvennakór Vestmannaeyja - 300.000 kr.
Styrkur fyrir fimm ára afmælistónleikum Kvennakórs Vestmannaeyja og tónleikar með Grindarvíkurdætrum. Sýna á afrakstur kórsins á liðnu söngári þar sem haldið er upp á fimm ára afmæli hans með söng og gleði. Einnig er ætlunin að bjóða Grindarvíkurdætrum að syngja með kórnum á tónleikum í kringum páskana 2025. Tónleikarnir munu heita Eldgosasystur. - Lista - og menningarfélag Vestmannaeyja - 400.000 kr.
Styrkur fyrir opnum vinnustofum í Hvíta húsinu. Þar sem félagsmenn í Lista- og menningarfélagi Vestmannaeyja vilja bjóða ungu fólki að koma á vinnustofur til að kynnast alls konar handverksgerð, myndlist og ljósmyndun. Um er að ræða t.d. vinnu með olíu á striga, vatnsliti, floating, mósaík, skartgripagerð o.fl. - Lista – og menningarfélag Vestmannaeyja - 250.000 kr.
Styrkur fyrir sýningu og kynningu á vinnustofum í Hvíta húsinu. - Við sem heima sitjum - 300.000 kr.
Styrkur fyrir viðburðinum Við sem heima sitjum. Um er að ræða skemmtun og tónleika í Eldheimum þann 23.janúar 2025 þar sem ætlunin er að skemmta og rifja upp tónlist og sögur frá gosinu 1973. - Skotveiðifélag Vestmannaeyja - 500.000 kr.
Styrkur fyrir innanhússkotfimi. Keyptur verður búnaður skotfimi innandyra en það eykur fjölbreytni og gefur tækifæri til loftskotfimi með loftskammbyssum. - Ungbarna-sundnámskeið - 150.000 kr.
Styrkur fyrir ungbarna-sundnámskeiði. Ætlunin er að halda ungbarna-sundnámskeið og kaupa til þess áhöld og tæki. Slíkt námskeið hefur marga góða kosti, m.a. efla þau alhliða þroska barna ásamt því að efla félagsleg tengsl þeirra við foreldra. - Einhugur - 400.000 kr.
Styrkur fyrir spjallfundi fyrir ungt fólk með einhverfu. Haldnir verða spjallfundir fyrir ungt fólk með einhverfu en þar gefst þeim tækifæri til að hitta aðra einstaklinga m.a. í þeim tilgangi að spjalla saman og ræða um hin ýmsu málefni. - Unglingaráð ÍBV - 300.000 kr.
Styrkur til að útbúa félagsaðstöðu fyrir iðkendur til að setjast niður og t.d. borða nesti á milli æfinga, spila ofl. Einnig að þjálfarar geti boðað flokkana sína að hittast og horfa saman á hand- og fótboltaleiki. Markmiðið er að efla félagsandann og jákvæð samskipti á milli iðkenda. Félagsaðstaðan verður útbúin sófum, sjónvarpi, stólum, borðum, borðtennisborði/fótboltaspili. Skreytt með myndum af meisturum yngri flokka í gegnum tíðina og hillur fyrir bikar yngri flokka. - Knattspyrnudeild ÍBV - 250.000 kr.
Styrkur til þess að bjóða upp á afþreyingu og hreyfingu í jólafríinu með því að halda knattspyrnuskóla fyrir stráka og stelpur á aldrinum 7 - 13 ára - milli jóla og nýars.
Alls bárust 30 umsóknir auk fjölmargra ábendinga. Bæjarráð tók ávörðun um að veita styrki fyrir átta verkefni og er heildarfjárhæð styrkja fyrir seinni úthlutun kr. 3.050.000 Í heildina hafa verið veittar kr. 8.550.000 í styrki í tengslum við verkefnið fyrir fjárhagsárið 2024 en við fyrri úthlutun var heildarstyrkupphæð kr. 5.500.000
Verkefnin sem hlutu styrki eru fjölbreytt og spennandi. Óskar Vestmannaeyjabær öllum styrkþegum til hamingju. Meðfylgjandi er listi með þeim verkefnum er hlutu styrk.
1. Útilistasýning og útitrönur - 400.000 kr.
Lista- og Menningarfélagið óskar eftir styrk til endurtaka útilistasýninguna og hafa einnig sýningu í Hvíta húsinu og opnar vinnustofur. Í fyrra vorum þau líka með handverksmarkað á neðstu hæðinni en í ár viljum við hafa handverksmarkað-gallerí í sameiginlega rýminu á 2 hæð.
2. Jólakvísl - 300.000 kr.
Frá árinu 2016 hefur Hvítasunnukirkjan haldið tónleika fyrir jólin sem þau kalla Jólahvísl. Hugsunin með tónleikunum er að bjóða fólki ókeypis á hugljúfa tónleika sem minna alla á friðarboðskap jólanna og þar með gefa öllum tækifæri til að sækja jólatónleika óháð efnahag
3. Rokkeldið - 400.000 kr.
Á árunum 2002-2008 var árlega haldin hljómsveitakeppnin „Allra veðra von“ en þar stóð öllum hljómsveitum kostur á að taka þátt, einu skilyrðin voru að hljómsveitirnar þyrftu að vera með frumsamið efni. Keppnina sóttu hljómsveitir víðsvegar af að landinu ásamt þeim hljómsveitum sem voru hér í Eyjum. Nokkrir einstaklingar sem voru í hljómsveit á þessum tíma og tóku þátt í keppninni hafa endurreist Rokkeldið svokallaða með það í huga að endurvekja keppnina „Allra veðra von“og er áætlað er að keppnin fari fram laugardaginn 12.október n.k.
4. Vortónleikar Karlakórs Vestmannaeyja 300.000 kr.
Karlakór Vestmannaeyja sem starfandi er í dag var stofnaður um miðjan apríl árið 2015. Kórinn er áhugamannakór sem hefur stækkað og blómstrað ört síðan þá. Fimmtudaginn 9.maí voru haldnir vortónleikar kórsins. Nafn viðburðarins er ,,Manstu gamla daga‘‘ og á efnisskrá tónleikanna að þessu sinni eru hefðbundnari karlakórslög en áður. Stór hluti af tilgangi kórsins er að stuðla að blómlegu menningarlífi í Vestmannaeyjum og halda á lofti þeim menningararfi sem Vestmanneysk tónlist er.
5. Fótboltaskóli 250.000 kr.
Um er að ræða Knattspyrnuskóla fyrir yngstu iðkendurna hjá félaginu síðustu 2 vikurnar fyrir Þjóðhátíð þegar engar æfingar koma til með að eiga sér stað. Þannig geta þau haft eitthvað fyrir stafni þessar tvær vikur og þannig eflt heilbrigði og háttvísi í kringum íþróttastarf. Knattspyrnuskólinn fer fram utan dyra á knattspyrnuvöllum bæjarins og möguleiki á að vera innan dyra ef veðurskilyrði verða ekki góð. Skólastjóri verður yfir skólanum og munu leikmenn og þjálfarar IBV stjórna æfingum og miðla af þekkingu sinni. Í lok skólans fá allir þáttakendur gjöf.
6. Listaverk á hvíta húsið 250.000 kr.
Lista- og menningarfélag Vestmannaeyja óskar eftir styrk til að fá Juan til að mála listaverk á húsið hjá sér líkt og gert var hjá Tígli og Pítsagerðinni. Við vonumst til að verða sýnilegri með fallega máluðu húsi
7. Pílufélag og Snókerklúbbur Vestmannaeyja 350.000 kr.
Pílufélag og Snókerklúbbur Vestmannaeyja hafa sameinað krafta sína og sameinast sem eitt félag. Sameinað félag þeirra er til húsa í kjallara Hvítasunnukirkjunnar við Vestmannabraut. Undanfarið hafa staðið yfir úrbætur á húsnæðinu og viðeigandi tækjum félagsins. Í vetur hefur Pílufélagið haldið úti æfingum fyrir börn á aldrinum 10-16 ára og hafa þær verið vel sóttar og finnur stjórnin fyrir miklum áhuga þessa aldurshóps á píluíþróttinni sem hefur vaxið gríðarlega á landsvísu undanfarin ár og er stefnan sett á að fá þjálfara frá íslenska Pílukastsambandinu (ÍPS) til að koma reglulega n.k. vetur og vera með æfingabúðir fyrir börn og fullorðna.
8. Eyjasýn - 50 ára afmæli Eyjafrétta 300.000 kr.
Eyjafréttir standa á tímamótum á þessu ári þegar 50 ár eru liðin frá því útgáfa blaðsins hófst. Fyrstu áratugina hélt blaðið Fréttir sem breyttist í Eyjafréttir en kennitalan er alltaf sú sama. Fljótlega kom upp sú hugmynd að halda afmælishátíð vegna 50 ára afmæli félagsin, þ.e. ráðstefnu þar sem farið yrði yfir stöðu héraðsfréttamiðla.