Starfsmannamál

Jafnlaunastefna

Tilgangur jafnlaunastefnu Vestmannaeyjabæjar er að stuðla að jafnrétti kynjanna í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Markmiðið er að nýta hæfni, krafta og kunnáttu starfsmanna til fulls án þess að kynbundinn launamismunur eigi sér stað.

Jafnlaunastefna er samofin starfsmannastefnu og jafnréttisáætlun Vestmannaeyjabæjar. Þar segir að konum og körlum er starfa hjá Vestmannaeyjabæ skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Við úthlutun verkefna, tilfærslur í störf og uppsagnir skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Gæta skal þess að sambærileg kjör og réttindi séu í boði óháð kyni og uppruna.  Tryggja verði að bæði kynin njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar, starfsþjálfunar og annarrar starfsþróunar til að auka hæfni í starfi.

Jafnlaunakerfi Vestmannaeyjabæjar skal vera gegnsætt og á ábyrgð framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs. Jafnlaunastefna er á ábyrgð bæjarráðs sem setur fram jafnlaunamarkmið að fenginni tillögu ábyrgðarmanns. Launaákvarðanir eru í samræmi við kjarasamninga og jafnlaunakerfi Vestmannaeyjabæjar og skulu studdar málefnalegum rökum sem tryggir að sömu laun séu greidd fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf. Grunnröðun starfa byggir á starfsmatskerfinu SAMSTARF. Jafnlaunastefna þessi nær til allra starfsmanna Vestmannaeyjabæjar.

Gera skal samning við vottunaraðila sem gerir árlega úttekt á jafnlaunakerfinu og útbúa áætlun um að bregðast við ábendingum hans.

Til þess að fylgja jafnlaunastefnunni eftir skal Vestmannaeyjabær:

  • Innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85 og öðlast vottun í samræmi við lög 56/2017 um jafnlaunavottun.
  • Framkvæma árlega launagreiningu.
  • Framkvæmda árlega innri úttekt á jafnlaunakerfinu.
  • Rýna árlega jafnlaunamarkmið og virkni jafnlaunakerfisins.
  • Bregðast við frábrigðum með kerfisbundnum umbótum og eftirliti.
  • Fylgja lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta árlega af ábyrgðarmanni jafnlaunakerfis að þeim sé hlítt.
  • Kynna reglulega niðurstöður launagreininga og jafnlaunastefnu fyrir jafnréttisnefnd, bæjarráði og starfsfólki Vestmannaeyjabæjar.
  • Tryggja að allir starfsmenn sem koma að launaákvörðunum, beint eða óbeint, séu hæfir á grundvelli viðeigandi menntunar, þjálfunar og reynslu.
  • Hafa jafnlaunastefnu aðgengilega á vef Vestmannaeyjabæjar.

 

Samþykkt í bæjarráði þann 3.12.2019

Staðfest af bæjarstjórn Vestmannaeyja þann 8.12.2019