Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3179

Haldinn í fundarsal Ráðhúss,
27.09.2022 og hófst hann kl. 12:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður,
Eyþór Harðarson aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Angantýr Einarsson framkvstj.sviðs.
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 202209020 - Fjárhagsáætlun fyrir árið 2023
Á fundi sínum þann 9. september sl., samþykkti bæjarráð ákveðnar forsendur við undirbúning og vinnslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023. Meðal annars að gengið yrði út frá því að útsvarsprósenta yrði áfram sú sama, þ.e. 14,46%, framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði í samræmi við áætlun sjóðsins, sem ætti að liggja fyrir áður en áætlunargerðinni lýkur, að aðrar tekjur málaflokka, svo sem vegna gjaldskráa bæjarins, hækki í samræmi við vísitölu neysluverðs, stuðst verði við sérstaka launaáætlun við útreikning launa á næsta ári og að aðrir rekstrarliðir en laun, hækki almennt um 4%.

Jafnframt kom fram á fundinum að starfsfólk Vestmannaeyjabær hafi verið að skoða áhrif lækkunar á álagningaprósentum á tekjur bæjarsjóðs af fasteignagjöldum, en bæjarráð þurfi að ákvarða álagningarprósentu fasteignagjalda fyrir árið 2023 á þessum fundi.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir að hlutfall útsvars af tekjum einstaklinga verði óbreytt milli ára, alls 14,46%.

Þá leggur bæjarráð til að hlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði lækki á milli ára úr 0,281% og verði 0,268% á íbúðarhúsnæði (A flokki), hlutfallið verði óbreytt á opinberar stofnanir (B flokki) þ.e. 1,32% og að hlutfallið lækki úr 1,45% í 1,40% á annað húsnæði (C flokki), þ.m.t. atvinnuhúsnæði. Með þessu móti sé dregið úr áhrifum þess að hækkun fasteignamats auki álögur á íbúa og fyrirtæki í Vestmannaeyjum.

Mikilvægt er að kjörnir fulltrúar séu vakandi yfir þeim áhrifum sem hækkandi fasteignamat hefur í för með sér og í því ljósi hefur álagningarhlutfallið undanfarin ár verið lækkuð til hagsbóta fyrir íbúa og fyrirtæki í Vestmannaeyjum.
Sameiginleg áskorun FA Húsó LEB 210922.pdf
2. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Flugsamgöngur

Bæjarráð fjallaði um niðurstöðu fundar ráðsins með innviðaráðherra og upplýsingar frá Vegagerðinni um ríkisstyrkt flug. Eins og fram hefur komið áttu bæjarráð, bæjarstjóri og framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs, fund með innviðaráðherra og fulltrúum ráðuneytisins um flugsamgöngur milli lands og Eyja, þar sem fram kom að ekki verði að ríkisstyrktu flugi til Vestmannaeyja í vetur en unnið verði áfram að lausnum til að tryggja lágmarksflugsamgöngur við Vestmannaeyjar.

Niðurstaða
Mikilvægt er að bæjaryfirvöld fái upplýsingar frá innviðaráðuneytinu um útfærslu á flugi til og frá Vestmannaeyjum nú í vetur. Eins og fram kom í máli ráðherra á fundi bæjarráðs, bæjarstjóra o.fl. með innviðaráðherra 12. september sl. væri vilji til að tryggja lágmarksflug í vetur með svipuðum hætti og undanfarna vetur. Nú er farið að líða á haustið og fyrsta ferðin til Þorlákshafnar staðreynd. Herjólfur er á leið í slipp í október og nauðsynlegt að plön um flugsamgöngur liggi fyrir sem fyrst.
3. 202103172 - Vatnsleiðsla til Vestmannaeyja
Bæjarráð ræddi um nauðsyn þess að leggja nýja vatnsleiðslu til Vestmannaeyja. Um er að ræða öryggismál fyrir einstaklinga og fyrirtæki í Vestmannaeyjum. Ef leiðslan sem flytur vatn af meginlandinu til Eyja myndi bresta, þá skapast neyðarástand í Vestmannaeyjum með tilheyrandi fólksflutningum frá Eyjum. Þrátt fyrir að innviðaráðherra hafi hafnað erindi Vestmannaeyjabæjar um fjárstuðning til lagningar nýrrar vatnslagnar verða Vestmannaeyjabær og HS veitur, rekstraraðili og eigandi vatnsveitunnar, að hefja undirbúning að slíkri framkvæmd.

Niðurstaða
Bæjarráð hefur ákveðið að skipa undirbúningshóp um lagningu nýrrar vatnslagnar til Vestmannaeyja. Hópurinn er skipaður Írisi Róbertsdóttur bæjarstjóra, Eyþóri Harðarsyni, fulltrúa bæjarráðs, framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs og framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs. Aðeins er mögulegt að leggja nýja neðansjávarlögn að sumri til og ekki í boði að bíða með verkefnið ef vatnsleiðslan á að verða að veruleika árið 2024.
4. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Lögð var fram fundargerð 586. fundargerð stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga vegna fundar sem haldinn var þann 2. september sl.
586.-fundur-stj.-SASS.pdf
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:29 

Til baka Prenta