Fundargerðir

Til baka Prenta
Fræðsluráð - 332

Haldinn í fundarsal Rauðagerðis,
06.07.2020 og hófst hann kl. 16:15
Fundinn sátu: Elís Jónsson formaður,
Arna Huld Sigurðardóttir varaformaður,
Ingólfur Jóhannesson aðalmaður,
Rannveig Ísfjörð 2. varamaður,
Andrea Guðjóns Jónasdóttir 1. varamaður,
Drífa Gunnarsdóttir starfsmaður sviðs, Anna Rós Hallgrímsdóttir starfsmaður sviðs, Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir starfsmaður sviðs.
Fundargerð ritaði: Drífa Gunnarsdóttir, fræðslufulltrúi
Herdís Rós Njálsdóttir mætti sem áheyrnarfulltrúi kennara GRV.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201304035 - Skóladagatal. Samræmd dagatöl skóla og frístundavers.
Sameiginlegt skóladagatal GRV, leikskóla og frístundavers lagt fyrir til samþykktar.

Niðurstaða
Ekki er hægt að gefa upp sumarlokun leikskólanna að svo stöddu þar sem nýtt fyrirkomuleg er á henni sem þarf að komast reynsla á. Tekin verður ákvörðun um sumarlokun sumarið 2021 um haustið 2020. Leikskólarnir verða lokaðir 31. júlí og svo 24. ágúst, 16. október, 4. janúar, 22. febrúar og 6. apríl vegna kjarabundinna starfsdaga. Þetta er nýtt fyrirkomulag starfsdaga leikskólanna sem verður á næsta skólaári til reynslu. Foreldrar/forráðamenn geta sótt um leikskólavistun milli jóla- og nýárs en leikskólagjöldin lækka hjá þeim sem ekki nýta þá daga. Þessi breyting er til að nýta betur stafsdaga og auka faglegt starf. Starfsfólk leikskólanna mun sinna fyrirframskilgreindum verkefnum vegna þessara daga.

Áætlað er að gæsluvöllurinn Strönd verði opinn meðan sumarlokun leikskólanna stendur yfir.

Í GRV hefja grunnskólakennarar störf 17. ágúst en starfsdagar eru 17.-24. ágúst. Skólasetning verður 25. ágúst, starfsdagur 16. október, vetrarleyfi 19.-20. október. Litlu jól verða seinni partinn 17. desember og því hefst jólaleyfi 18. desember og stendur til 3. janúar. Starfsdagur er 4. janúar. Vetrarleyfisdagar eru 18.-19. febrúar og starfsdagur 22. febrúar. Páskafrí er 29. mars-5. apríl og starfdagur er 6. apríl. Skólaslit eru 7. júní (verða seinni partinn 4. júní. Starfsdagar eru skráðir 8.-10. júní en færast fram um einn dag þar sem skólaslitin verða á föstudeginum.

Frístundaverið, sem verður staðsett í Hamarsskóla frá hausti, verður opið virka daga skólaársins skv. dagatali 12:30-16:30. Heilsdagsdagar eru fyrir nemendur sem eru að fara í 1. bekk frá 11.-14. ágúst. Heilsdagsdagar fyrir öll börn í Frístund eru 17.-24. ágúst, 15. október, 18.-29. október, 18. desember, 21.-23. desember, 28.-30. desember, 22. febrúar, 29.-31. mars og 7.-8. júní. Starfsdagar eru 10. ágúst, 16. október, 4. janúar og 6. apríl.

Sameiginlegt skóladagatal 2020-2021_drög.pdf
2. 202006003 - Teymiskennsla í GRV
Kynning á fyrirkomulagi teymiskennslunnar og farið yfir hvernig gekk í vetur.

Niðurstaða
Fyrirkomulag teymiskennslunnar í 5. bekk var með þeim hætti að nemendum var skipt í tvo hópa og voru fjórir umsjónarkennarar, tveir með ábyrgð á hvorum hópi fyrir sig. Þeir kenndu öll fög nema lotur og íþróttir og nutu handleiðslu Ingvars Sigurgeirssonar. Álag á umsjórnarkennara var mun minna með þessu fyrirkomulagi þar sem þeir gátu skipt verkefnum milli sín eftir styrkleikum, lært hver af öðrum og notið samvinnu og stuðnings, ekki síst varðandi erfið mál. Þá varð námsmat samræmdara, vinnubrögð fjölbreyttari og hægt að vinna eftir áætlun þótt einn kennara vantaði. Með þessu fyrirkomulagi náðu kennarar að fylgjast betur með samskiptum í skólastofunni, þeir gátu skipt nemendum í smærri hópa og þannig mætt ólíkum þörfum þeirra. Næsta vetur verður teymiskennsla í 5. og 6. bekk og í stærðfræði og íslensku í 7. bekk.
Ráðið þakkar skólastjóra GRV kynninguna.
3. 202005069 - Menntarannsókn
Farið yfir stöðu máls og næstu skref.

Niðurstaða
Bæjarstjóri og skólastjóri hafa sent menntamálaráðherra bréf þar sem óskað er eftir því að GRV fái að starfa sem þróunarskóli skv. 44. gr. laga nr. 91/2008 og jafnframt er óskað eftir aðkomu ráðuneytis að menntarannsókninni, þ.m.t. fjárhagslegum stuðningi til að stofna og reka, í samstarfi við Vestmannaeyjabæ, menntasetur í Vestmannaeyjum. Slíkt setur mun m.a. hafa það hlutverk að styðja við og halda utan um umrædda menntarannsókn sem og aðra afleidda rannsóknarþætti sem koma upp í tengslum við hana. Beðið er eftir svari frá ráðherra og staðan tekin þegar það hefur borist.
Bréf til ráðuneytis vegna menntarannsóknar.pdf
4. 201411027 - Framtíðarsýn og áherslur í menntamálum.
Staðan á vinnu við gerð nýrrar framtíðarsýnar.

Niðurstaða
Búið er að skipa í faghóp sem hefur það hlutverk að vinna að nýrri framtíðarsýn í menntamálum. Hópurinn hélt einn fund í mars þar sem farið yfir skipulagið framundan en það hefur riðlast vegna aðstæðna og því mun ekki takast að skila drögum að framtíðarsýn í september og ljúka störfum í nóvember eins og bókað var á 326. fundi fræðsluráðs. Drög skilist því í janúar og mun faghópurinn ljúka störfum í mars.
5. 201304072 - Leikskóla og daggæslumál.
Staða leik- og daggæslumála.

Niðurstaða
Kristín Halldórsdóttir og Sandra Gísladóttir munu hætta með daggæsluna Krílakjallarann þann 13. júlí nk. og mun þá ein dagmóðir vera starfandi í Eyjum í haust. Öll 12 mánaða börn og eldri, þ.e. börn sem fædd eru frá áramótum 2019 til september fá vistun á leikskólum í haust og ljóst er að það er pláss fyrir fleiri börn á báðum leikskólum og fá því börn fædd á bilinu október-desember vistunarboð um leið og þau ná 12 mánaða aldri. Í ljósi stöðunnar sem er komin upp felur ráðið fræðslufulltrúa að reyna að tryggja að eitt dagforeldri sé starfandi í sveitarfélaginu með því að greiða mismunagreiðslu fyrir tvö börn til starfandi dagforeldra fram að áramótum.
6. 201504054 - Skimanir. Skimun í leik- og grunnskólum Vestmannaeyja. Athuganir. Rannsóknir.
Niðurstöður úr Hljóm-2 skimunarprófi sem lagt var fyrir nemendur Víkurinnar.

Niðurstaða
Fræðslufulltrúi kynnti niðurstöður úr Hljóm-2 skimunarprófi sem lagt var fyrir nemendur á Víkinni sl. haust. HLJÓM-2 er aldursbundin skimun sem er lögð fyrir til að meta hljóðkerfis- og málmeðvitund barna í elsta árgangi leikskólans í því skyni að greina þau börn sem eru í áhættu fyrir síðari lestrarerfiðleika. Slök hljóðkerfis- og málvitund er talin aðalorsök lestrarvanda hjá 88% barna (9 af hverjum 10 börnum). Skimunin var lögð fyrir alla nemendur Víkurinnar, 58 talsins, og voru 17% nemenda sem náðu góðri færni, 60% náðu meðalfærni, 12% voru með slaka færni og 10% með mjög slaka færni. Þau börn sem fengu slaka færni, mjög slaka færni eða votu í meðalfærni með lágan heildarstigafjölda (tvítyngd börn) fengu þjálfun á deild sem og auka málvörvun hjá sérkennara 1-2 í viku. Í lok janúar var skimunarprófið lagt aftur fyrir þá nemendur sem voru í áhættuhópi, alls 16 nemendur, og sýndu þeir allir framfarir og 7 það miklar framfarir að þeir þurftu ekki áframhaldandi auka þjálfun. Þessar niðurstöður sýna það að snemmtæk íhlutun er afar mikilvæg á leikskólaárum svo draga megi úr mögulegum lestrarvanda hjá börnum þegar í grunnskóla er komið.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:15 

Til baka Prenta