Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3148

Haldinn Í gegnum fjarfundabúnað,
03.03.2021 og hófst hann kl. 16:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna S. Guðmundsdóttir varaformaður,
Helga Kristín Kolbeins aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 202012042 - Stafræn smiðja (fablab) í Vestmannaeyjum
Bæjarráð fjallaði um drög að samningi um rekstur stafrænnar smiðju á fundi sínum þann 17. febrúar sl. Jafnframt fundaði bæjarstjórn um málið þann 25. febrúar sl., þar sem ákveðið var að fela bæjarráði framgang málsins og ljúka við gerð samnings um rekstur smiðjunnar í ljósi þess að ekki liggur fyrir endanlegt eintak af samningi þar sem ráðuneytin eiga eftir ljúka ákveðnum þáttum.

Lögð voru fyrir bæjarráð drög að samningi um rekstur stafrænnar smiðju og viljayfirlýsing um samstarf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Þekkingarseturs Vestmannaeyja og Vestmannaeyjabæjar um starfrækslu stafrænnar smiðju.

Bæjarráð ræddi einnig stærð og þörf á aðstöðu stafrænnar smiðju á 3. hæð Fiskiðjunnar.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir efni og fyrirkomulag samnings og samstarfsyfirlýsingar aðila um rekstur stafrænnar smiðju í Vestmannaeyjum. Jafnframt felur bæjarráð bæjarstjóra að fylgja málinu eftir gagnvart samningsaðilum og undirrita samninginn og yfirlýsinguna f.h. Vestmannaeyjabæjar.

Bæjarráð samþykkir að koma starfsemi stafrænnar smiðju fyrir í aðstöðu á bilinu 120-150 fermetrum á þriðju hæð Fiskiðjunnar og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs að fylgja málinu eftir í starfshópi um húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar.
Samningur um Fab lab Vestmannaeyjar 2021-2023 ARN.pdf
Drög að samstarfsyfirlýsingu um rekstur fablab í Vestmannaeyjum.pdf
2. 202006239 - Tekjur og útgjöld Vestmannaeyjabæjar
Til þess að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins voru árið 2020 gerðar lagabreytingar sem fólu í sér frestun gjalddaga staðgreiðslu og tryggingagjalds. Var launagreiðendum þannig heimilt að fresta umræddum greiðslum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið ákvað að tryggja sveitarfélögum greiðslur sem frestað var, í ljósi fjárhagslegra áhrifa faraldursins á sveitarfélög. Var það gert með tveimur aukagreiðslum á árinu 2020.

Hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið lagt til við Fjársýslu ríkisins að ofgreiðslan verði dregin frá greiðslu Fjársýslunnar til sveitarfélaga með þremur afborgunum í uppgjörum um miðjan mars, apríl og maí.

Samtals nemur leiðréttingin 41,6 m.kr. í tilviki Vestmannaeyjabæjar.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og tekur undir eftirfarandi bókun Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 26. febrúar sl:

Stjórn sambandsins gerir þá skýlausu kröfu að uppgjöri staðgreiðslu til sveitarfélaga fylgi nákvæm sundurliðun á uppruna tekna og að fyrirsjáanleiki greiðslna verði mun meiri en nú er.
3. 201801078 - Jafnlaunavottun
Seint á síðasta ári voru samþykkt ný lög nr. 150/2020,um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Með lögunum féllu úr gildi lög 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs lagði fyrir bæjarráð drög að jafnlaunastefnu Vestmannaeyja þar sem tekið er tillit til umræddra lagabreytinga. Engar aðrar breytingar voru gerða á fyrirliggjandi jafnlaunastefnu sem samþykkt var af bæjarráði 3. desember 2019 og staðfest af bæjarstjórn 8. desember sama ár.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir tillögu að lagfærðum lagatilvísunum í jafnlaunastefnu Vestmannaeyja.
JS01 Jafnlaunastefnu samþykkt í bæjarráði 3. mars 2021.pdf
4. 201904142 - Umsagnir frá Alþingi - bæjarráð
Þann 22. febrúar sl., sendi nefndasvið Alþingis Vestmannaeyjabær beiðni um umsögn um frumvarp til laga um stjórnskipunarlög (kosningaaldur), 378. mál. 188. mál. Umsagnarfrestur er 15. mars nk.

Jafnframt sendi nefndasvið Alþingis þann 25. febrúar sl. Vestmannaeyjabæ, beiðni um umsögn um tillögu til þingsályktunar um minnisvarða um eldgosin í Surtsey og Heimaey, 179. mál. Umsagnarfrestur er 11. mars nk.

Loks sendi nefndasvið Alþingis þann 23. febrúar sl. Vestmannaeyjabæ, beiðni um umsögn um tillögu til þingsályktunar um þyrlupall á Heimaey, 144. mál. Umsagnarfrestur er 9. mars nk.

Niðurstaða
Bæjarráð ræddi frumvarp til laga um Stjórnskipunarlaög (þ.e. kosningaaldur). Bæjarráð tekur jákvætt í efni frumvarpsins og felur Helgu Kristínu Kolbeins að gera drög að umsögn bæjarráðs sem send verður nefndasviði Alþingis í framhaldinu.

Framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs var falið að senda jákvæða umsögn um tillögu um þingsályktun um minnisvarða um eldgosin í Surtsey og Heimaey.

Þá fól bæjarráð framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að senda jákvæða umsögn um tillögu til þingsályktunar um þyrlupall á Heimaey. Vestmannaeyjabær hefur áður sent inn umsögn vegna þingsályktunar um þyrlupall og mun senda hana aftur.
Beiðni um umsögn um þingsályktunartillögu um þyrlupall á Heimaey.pdf
Beiðni um umsögn um tillögu til þingsályktunar um minnisvarða um eldgosin í Surtsey og Heimaey.pdf
Beiðni um umsögn um stjórnskipunarlög (kosningaaldur).pdf
5. 202011081 - Fulltrúar landshlutasamtaka í stafrænt ráð sveitarfélaga
Bæjarráð ræddi á fundi sínum þann 21. desember sl., þátttöku í verkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtaka og sveitarfélaga um stafrænt samfélagið.
Stafrænt ráð sem skipað var á síðasta ári lagði fram þrjár tillögur:
1. Að stofnað verði miðlægt tækniteymi Sambands íslenskra sveitarfélaga (árlegur kostnaður 45 m.kr.) sem sinni innleiðingu rafrænna lausna, gagnauppbyggingu og tengingu gagna gagnvart öllum sveitarfélögum landsins.
2. Að hvert sveitarfélag greiði 200.000 kr. fasta fjárhæð og fasta krónutölu að auki fyrir hvern íbúa. Umræddar fjárhæðir þurfa að nema alls 45 m.kr. Lögð var fram tillaga að kostnaðarskiptingu og nemur fjárhæð Vestmannaeyjabæjar á bilinu 700-800 þús. kr. á ári.
3. Að sveitarfélög notist við formlegt samþykktarferli við val á forgangsverkefnum.

Í afgreiðslu bæjarráðs þann 21. desember var bæjarráð jákvætt gagnvart því að skoða þátttöku Vestmannaeyjabæjar í stofnun tækniteymis Sambands íslenskra sveitarfélaga um stafræna þróun skv. tillögu um kostnaðarþátttöku sveitarfélaganna fyrir árið 2021.

Fulltrúar stafræns samfélags hafa ítrekað mikilvægi þátttöku Vestmannaeyjabæjar.

Niðurstaða
Vestmannaeyjabær samþykkir þátttöku í verkefninu með þeim hætti sem líst hefur verið að ofan. Framlagið rúmast innan fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021.

Bæjarráð fagnar framtakinu og telur það mikilvægt og þarft verkefni.
Staða samstarfs sveitarfélaga í stafrænni þróun í febrúar 2021.pdf
6. 201904018 - Fundargerðir Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga
Lögð var fram fundargerð 61. fundar stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, sem haldinn var þann 8. febrúar sl.
stjórn-Samtaka-sjávarútvegssveitarfélaga-61..pdf
7. 202002051 - Málefni Hraunbúða
Bæjarstjóri greindi frá fundi, sem boðaður var með sólahringsfyrirvara, sem fulltrúar Vestmannaeyjabæjar og lögmaður áttu með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins og forstjóra Sjúkratrygginga Íslands fyrr í dag. Á fundinum var fulltrúum Vestmannaeyjabæjar tilkynnt að HSU myndi taka við rekstri Hraunbúða 1. apríl. Bæjarstjóri mun óska eftir að eiga fund með forstjóra HSU á morgun, fimmtudag, tiI að ræða framhaldið.

Bæjarráð ræddi einnig fréttaflutning af fundi Velferðarnefndar Alþingis frá 1. mars sl. Í fréttaflutningnum kom fram að svo virðist sé að fjármagn sem ætlað sé að nota í hjúkrunarheimili sé notað í óskyldan rekstur sveitarfélaga.

Niðurstaða
Nú liggur fyrir að Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) muni taka við rekstri Hraunbúða. Bæjarráð mun leggja þunga áherslu á að yfirfærslan gangi vel fyrir sig og að þjónustan verði ekki skert og hagsmunir heimilsfólks og starfsfólks séu í forgrunni við yfirfærsluna.

Bókun bæjarráðs
Í fréttaflutningi af fundi velferðarnefndar Alþingis þann 1. mars 2021 kom fram að svo virðist sem að fjármagn, sem ætlað sé að nota í hjúkrunarheimili, sé notað í óskyldan rekstur sveitarfélaga. Má ætla að þau ummæli séu komin frá Sjúkratryggingum Íslands sem er vísað til í fréttinni sem er höfð eftir formanni nefndarinnar. Vegna þessa telur bæjarráð Vestmannaeyja rétt að frábiðja sér slík ummæli enda algjörlega fráleit og úr lausi lofti gripin. Engir fjármunir hafa verið færðir til í bókhaldi vegna þessa og allt það fjármagn sem hefur komið frá íslenska ríkinu hefur farið til reksturs Hraunbúða og svo verulega meira til eins og hefur ítrekað komið fram í fréttum. Hérna er einfaldlega verið að fara með rangt mál og fela vanmátt íslenska ríkisins og Sjúkratrygginga Íslands til þess að takast á við það verkefni að taka yfir rekstur hjúkrunarheimilanna eins og þeim ber skylda til.
Njáll Ragnarsson (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Helga Kristín Kolbeins (sign.)
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:45 

Til baka Prenta