Fundargerðir

Til baka Prenta
Fræðsluráð - 330

Haldinn í Pálsstofu safnahúsi,
20.05.2020 og hófst hann kl. 16:15
Fundinn sátu: Elís Jónsson formaður,
Arna Huld Sigurðardóttir varaformaður,
Aníta Jóhannsdóttir aðalmaður,
Silja Rós Guðjónsdóttir aðalmaður,
Ingólfur Jóhannesson aðalmaður,
Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Drífa Gunnarsdóttir starfsmaður sviðs, Anna Rós Hallgrímsdóttir starfsmaður sviðs, Bjarney Magnúsdóttir starfsmaður sviðs, Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir starfsmaður sviðs, Helga Björk Ólafsdóttir , Kolbrún Matthíasdóttir .
Fundargerð ritaði: Drífa Gunnarsdóttir, fræðslufulltrúi


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201910156 - Hamarskóli - nýbygging
Staðan á undirbúningi framkvæmda.

Niðurstaða
Framkvæmdastjóri svið fór yfir stöðu mála. Framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasvið hefur átt fundi með fulltrúum GRV, Víkurinnar, Tónlistarskólans og lengdrar viðveru ásamt fræðslufulltrúa. Markmið þess fundar var að vinna frumþarfagreiningu. Úrvinnsla af þessari frumgreiningu hefur tafist og þarf umhverfis- og framkvæmdasvið lengri tíma til að vinna úr gögnum. Ráðið þakkar kynninguna og felur framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að fylgja eftir að tímalína verði uppfærð og upplýsa ráðið á næsta fundi.
2. 202005069 - Menntarannsókn
Umræður um þátttöku í menntarannsókn.

Niðurstaða
Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálfræði við HR og Háskólann í Þrándheimi, hefur óskað eftir samstarfi við Vestmannaeyjabæ og GRV um viðamikla menntarannsókn til 12 ára.
Fræðslufulltrúi og skólastjóri GRV kynntu áherslur rannsóknarinnar og hugmyndir um fyrirkomulag og lýstu yfir áhuga á að taka þátt í rannsókninni enda einstakt tækifæri fyrir GRV og Vestmannaeyjar til að vera leiðandi í menntarannsóknum á Íslandi. Ráðið þakkar kynninguna. Mikilvægt er að leita allra leiða að sækja fram, tileinka sér og þróa leiðir sem geta styrkt, bætt líðan og getu nemenda í skólaumhverfinu. Menntarannsókn sem þessi gæti verið mikilvægt skref fyrir íslenskt menntakerfi. Ráðið lýsir yfir ánægju með áhuga skólastjóra GRV og fræðslufulltrúa að taka þátt í slíkri rannsókn og tekur undir að þetta sé einstakt tækifæri fyrir GRV og Vestmannaeyjar að vera leiðandi í menntarannsóknum á Íslandi. Ráðið felur framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að fylgja málinu eftir.
Menntarannsókn_kynning fyrir fræðsluráð.pdf
3. 201909072 - Samræmd próf 2019 - 2020
Kynning á niðurstöðum samræmdra prófa í 9. bekk.

Niðurstaða
Skólastjóri GRV fór yfir niðurstöður samræmdra prófa í 9. bekk sem fram fóru í mars sl. Nemendur þreyttu próf í íslensku, stærðfræði og ensku og var skólinn á pari við landsmeðaltal í íslensku en undir í ensku og stærðfræði. Sami árgangur var rétt yfir landsmeðaltali í íslensku og stærðfræði í 7. bekk en töluvert undir í íslensku í 4. bekk en yfir í stærðfræði. Stjórnendur og kennarar vinna að því að greina niðurstöður og vinna aðgerðaáætlun þar sem markmiðið er að efla þá þætti sem komu ekki nógu vel út þannig að nemendur verði sem best undirbúnir fyrir næsta skólastig. Ráðið þakkar kynninguna.
4. 201810155 - Sveigjanleg skólaskil
Kynning á nýjum verkferli um sveigjanleg skólaskil.

Niðurstaða
Ráðgjafateymi skólaskrifstofu hefur útbúið verkferil er varðar sveigjanleg skólaskil. Foreldrar sem óska eftir því að flýta eða seinka skólagöngu barns sækja um það til skólastjóra sem tekur ákvörðun eftir að hafa fengið umsögn frá sérfræðiþjónustu skólaskrifstofu. Ráðið þakkar kynninguna.
5. 201911003 - Hvatningarverðlaun í leik- og grunnskóla
Val á verkefnum sem hljóta verðlaun.

Niðurstaða
Markmið með hvatningarverðlaunum er að vekja athygli á því sem vel er gert í fræðslustarfi. Verðlaunin eru hugsuð sem hrós til þeirra sem sýnt hafa framúrskarandi vinnu og er einnig staðfesting á því að viðkomandi er fyrirmynd á því sviði sem viðurkenningin nær til. Alls bárust níu tilnefningar til Hvatningarverðlauna fræðsluráðs. Fræðsluráð fór yfir þær tilnefningar og valdi þrjú verkefni sem hljóta verðlaunin í ár.
Verkefnin sem hljóta verðlaun í ár eru:

Harry Potter þemaverkefni 4. bekkjar:
Snjólaug Árnadóttir, Unnur Líf Ingadóttir, Anna Lilja Sigurðardóttir hafa unnið mikið og metnaðarfullt þemaverkefni fyrir bekkina sína. Verkefnið teygði anga sína í aðra árganga í GRV og einnig út fyrir skólann. Mikil ánægja var með verkefnið hjá nemendum og foreldrum.

Út fyrir bókina:
Snjólaug Árnadóttir og Unnur Líf Ingadóttir hafa lagt mikla vinnu í að gera námið áhugavert án bókar. Markvisst er unnið af því að gera kennsluna skemmtilega og lifandi m.a. með námsefni sem tengist áhugasviði barna, gegnum leiki og spil. Jafnframt halda þær út facebook hóp þar sem þær deila verkefnum. Verkefnið hefur hlotið mikla athygli innan og utan skólans.

Tölvuinnleiðing GRV:
Guðbjörg Guðmannsdóttir hefur verið í forsvari fyrir innleiðingu og bættum tæknimálum í GRV. Forritun á öllum stigum í náminu, örnámskeið fyrir kennara og starfsfólk. Án efna hefur þessi innleiðing og vinna nýst skólanum vel í fjarkennslu síðustu misseri.

Ráðið óskar þessum aðilum innilega til hamingju og felur fræðslufulltrúa að hafa samband við þá aðila sem standa að verkefnunum. Stefnt er að því að afhenta nýlega styrki úr þróunarsjóði og hvatningarverðlaun 17. júní nk.
6. 201804158 - Sumarfjör
Kynning á Sumarfjöri 2020

Niðurstaða
Fræðslufulltrúi kynnti fyrirkomulag Sumarfjörs í ár. Boðið er upp á þrjú tveggja vikna námskeið á tímabilinu 15. júní - 24. júlí og hægt er að velja hálfan dag eða heilan. Dagskráin er fjölbreytt, m.a. er boðið upp á kynningar á íþróttum í samstarfi við íþróttafélög, farið í heimsóknir á söfn, fyrirtæki o.fl. Skráning hófst mánudaginn 18. maí og lýkur henni 5. júní. Ráðið þakkar kynninguna.
7. 200707199 - Daggæslumál
Breytingu á 7. gr. reglna um niðurgreiðslu vegna vistunar hjá dagforeldrum.

Niðurstaða
Fræðslufulltrúi lagði til að 7. grein reglna um niðurgreiðslu vegna vistunar hjá dagforeldrum verði breytt þannig að niðurgreiðslan sé greidd fyrirfram en ekki eftir á eins og nú er. Ráðið samþykkir tillögu fræðslufulltrúa og felur honum að gera umræddar breytingar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:03 

Til baka Prenta

Aðrar fundargerðir

Einnig er hægt að nálgast aðrar fundargerðir.