Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3129

Haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,
15.06.2020 og hófst hann kl. 16:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna S. Guðmundsdóttir varaformaður,
Helga Kristín Kolbeins aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Bæjarstjóri fór yfir stöðu Herjólfs ohf. og samskipti við framkvæmdastjóra félagsins um stöðuna og horfurnar framundan.

Niðurstaða
Bæjarráð fagnar því að verið er að bregðast við mikilli ásókn ferðamanna til Vestmannaeyja með viðbótarferðum þegar þörf er á. Sumarmánuðirnir líta nokkuð vel út þegar kemur að farþegafjölda, en áhrif Covid-19 eru langvarandi og munu hafa veruleg áhrif í haust, vetur og fram á næsta vor.
2. 201909109 - Viljayfirlýsing með tilliti til stofnunar fiskeldisstöðvar á landi í Vestmannaeyjum
Lögð voru fram til upplýsinga drög að breytingu á þegar samþykktri viljayfirlýsingu um samvinnu, samskipti og nauðsynlega samningagerð og undirbúningsvinnu í tengslum við þróunarvinnu og byggingu fiskeldis á landi í Viðlagafjöru á Heimaey. Um er að ræða ítarlegri viljayfirlýsingu og aðra staðsetningu.

Niðurstaða
Viljayfirlýsingunni er vísað til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn.
3. 201909118 - Húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar
Kynnt voru fyrir bæjarráði drög að kaupsamningi um kaup Vestmannaeyjabær á hluta húseignar Íslandsbanka við Kirkjuveg 23. Kaupsamningurinn er í samræmi við kauptilboðið sem samþykkt var í bæjarstjórn þann 11. júní sl.

Kaupsamningurinn verður undirritaður síðar í vikunni.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.

Bókun frá fulltrúa D lista
Undirrituð gerir athugasemdir við þá stjórnunarhætti og verklag sem viðhaft hefur verið við kaup bæjarins á húsnæði Íslandsbanka við Kirkjuveg.

Upplýsingar eru misvísandi og samþykkt kauptilboð sem lagt var fram í bæjarstjórn hefur ekki verið gert opinbert á vef Vestmannaeyjabæjar.

Í fyrsta lagi þá er bærinn ekki einungis að kaupa þær skrifstofur sem honum vantar fyrir starfsemi sína. Í öðru lagi þá er bærinn að kaupa húsnæði á annarri hæð sem hann hefur ekki ákveðið hvað á að gera við, annað en að veita lögmannsstofu aðgang að því.

Í kauptilboðinu kemur fram að bærinn framselji kaup á eignarhluta til sömu lögmannsstofu án þess það sjáist að öðrum hafi gefist kostur á að koma inn í þau kaup.

Húsnæðið er ekki laust til afhendingar og ekki ljóst endanlega hvenær svo verður.
Ekki liggja frammi opinber sundirliðuð verðmöt á þeim eignarhlutunum sem verið er að kaupa en fullyrt er í blaðagrein að verðið sé gott.

Undirritaðri þykir miður að gengið hafi verið að fyrrnefndum kaupum án þess að gagnsæi og jafnræði hafi verið í forgrunni við kaupin.
(sign. Helga Kristín Kolbeins)

Bókun frá E og H lista
Fulltrúar E- og H- lista vilja að fram komi að Íslandsbanki vildi ekki selja húsnæði sitt í hlutum heldur í einu lagi. Gert var tilboð í allan eignarhluta bankans og gerði Vestmannaeyjabær tilboðið með áskilnaði um að framselja hluta af húsnæðinu til Lögmannsstofu Vestmannaeyja þegar og ef tilboðinu væri tekið. Gera þurfti tilboð oftar en einu sinni og gerði Íslandsbanki gagntilboð oftar en einu sinni áður en samningar náðust.

Það var þetta samþykkta kauptilboð sem var kynnt í bæjarráði 25. maí s.l.
Það lá hins vegar alltaf ljóst fyrir að ekki væri um að ræða sölu á húsnæðinu frá Vestmannaeyjabæ til Lögmannsstofunnar heldur yrðu endanlegir kaupsamningar og afsöl gerð í tvennu lagi; við Vestmannaeyjabæ annars vegar og Lögmannsstofuna hins vegar.

Af þessum ástæðum er talað um ''framsal'' í tilboðinu sem var kynnt í bæjarráði 25. maí en ekki í endanlegum kaupsamningi sem er til kynningar í bæjarráði í dag.
Það hefur alltaf legið ljóst fyrir að bærinn er að kaupa hluta eignarinnar en ekki eignina alla til þess síðan að endurselja hluta hennar. Öllum bæjarfulltrúum var kunnugt um ástæður þess að munur er á orðalagi í kauptilboði annars vegar og kaupsamningi hins vegar, enda gerði enginn þeirra athugasemd við málið; hvorki í bæjarráði 25. maí né í bæjarstjórn 11. júní.

Því miður vilja bæjarfulltrúar minnihlutans nú eftirá freista þess að gera málið með einhverjum hætti tortryggilegt. Ýtrustu hagsmunir Vestmannaeyjabæjar hafa ráðið ferðinni í gegnum allan feril málsins og svo mun verða áfram.
(sign. Njáll Ragnarsson og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir)
Drög að kaupsamningi um Kirkjuveg 23 frá 25. maí 2020.pdf
Samþykkt tilboðs í hús Íslandsbanka.pdf
4. 202006067 - Aukið fjárframlag og viðauki vegna lagningu ljósleiðara í Vestmannaeyjum
Kynntur var nýundirritaður samningur fjarskiptasjóðs og Vestmannaeyjabæjar um ljósleiðarvæðingu í dreifbýli í Vestmannaeyjum. Þetta er í fyrsta skipti sem Vestmannaeyjabær sækir um styrk í þennan sjóð.

Niðurstaða
Bæjarráð fjallaði um nýundirritaðan samning milli fjarskiptasjóðs og Vestmannaeyjabæjar um fjárveitingu úr fjarskiptasjóði vegna lagningu ljósleiðara utan þéttbýlis í Vestmannaeyjum. Vestmannaeyjabær fékk styrk til verkefnisins að fjárhæð rúmum 18 m.kr.

Bæjarráð tók jafnframt fyrir og samþykkti viðauka við fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2020. Samkvæmt viðaukanum eykst fjárfesting vegna framkvæmda um allt að 12 m.kr. vegna fyrsta áfanga við lagningu ljósleiðara í Vestmannaeyjum.

5. 202006081 - Fasteignamat 2021
Lögð voru fram til upplýsinga gögn frá Þjóðskrá um áætlað fasteignamat í Vestmannaeyjum fyrir árið 2021. Fasteinamat hefur að meðaltali hækkað um 3,0% í Vestmannaeyjum milli ára.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar. Ákvörðun um álagningu fasteignaskatts verður tekin í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021.
Fasteignamat 2021 Þjóðskrá Íslands - eftir tegundum.pdf
Fasteignamat 2021 Þjóðskrá Íslands Vestmannaeyjar.pdf
Fasteignamat 2021 Þjóðskrá Íslands Landsmat.pdf
6. 202006076 - Málefni Safnahúss og Sagnheima, húsakost og framtíðarskipan
Bæjarráð tók fyrir minnisblað frá hluta af bakvarðahópi Safnahúss og Sagnheima, þar sem óskað er eftir að bæjarráð taki til sérstakrar umfjöllunar húsakost og framtíðarskipan þeirra safna sem heyra undir Safnahúsið og Sagnheima.

Niðurstaða
Bæjarráð hefur ákveðið að skipa sérstakan starfshóp um málefni safnanna, sérstaklega er varða húsakost, nýtingu núverandi húsakosts og framtíðarsýn í rekstri og skipulagi safnanna. Starfshópinn skipa Arnar Sigurmundsson, Sigurhanna Friðþórsdóttir, Stefán Óskar Jónasson, Kári Bjarnason og Hörður Baldvinsson. Angantýr Einarsson mun starfa með hópnum. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili lokaskýrslu í lok september 2020. Starfshópnum verður sent erindisbréf.
Málefni Safnahúss.pdf
7. 202006069 - Stafkirkjan - Árskýrsla og ársreikningur 2019
Lögð voru fram til kynningar ársskýrsla og ársreikningur Stafkirkjunnar fyrir starfsárið 2019.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
Ársskýrsla og ársreikningur Stafkirkjunnar.pdf
8. 202006032 - Átak í fráveitumálum
Lagt var fram til kynningar bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samorku um átak í fráveituframkvæmdum.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar kynninguna.
Átak í fráveitumálum - bréf Sambandsins og Samorku.pdf
9. 202004101 - Forsetakosningar 2020
Bæjarráð fjallaði um undirbúning bæjarskrifstofanna vegna forsetakosninganna 27. júní 2020. Í samráði við yfirkjörstjórn hefur verið ákveðið að kjörstaður fyrir kjósendur í Vestmannaeyjum verði í Akóges salnum við Hilmisgötu 15. Þar eru næg bílastæði og aðgengi að húsinu gott.

Samkvæmt 26. gr. kosningarlaga nr. 24/2000 skal leggja kjörskrá fram til sýnis á bæjarskrifstofum eða öðrum hentugum stað eigi síðar en 10 dögum fyrir kjördag. Bæjarskrifstofunum hefur borist kjörskrá fyrir forsetakosningarnar og er hún til sýnis í afgreiðslu bæjarskrifstofanna við Bárustíg 15.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar
10. 202002050 - Goslokanefnd 2020
Erna Georgsdóttir og Sigurhanna Friðþórsdóttir komu á fund bæjaráðs og fóru yfir skipulag og dagskrá Goslokahátíðar 2020. Hátíðin verður með breyttu sniði vegna samkomutakmarkanna. Dagská Goslokahátíðarinnar veru kynnt á næstu dögum.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og hvetur bæjarbúa til að taka þátt í hátíðinni.
11. 202006056 - Beiðni um umsögn vegna tækifærisleyfis til að halda tónleika á Stakkagerðistúni
Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um tónleikahald á Stakkagerðistúni þann 4. júlí nk., í tengslum við Goslokahátíðina 2020. Gert er ráð fyrir að tónleikarnir standi yfir frá kl. 20:30 til 23:00.

Niðurstaða
Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að farið sé að skilyrðum sýslumanns og með fyrirvara um jákvæða umsögn hlutaðeigandi eftirlitsaðila.
12. 202006022 - Beiðni um umsögn vegna tækifærisleyfis fyrir The Brothers Brewery
Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn Jóhanns Guðmundssonar fyrir hönd Brothers Brewery vegna tækifærisleyfis til að halda bjórhátíð The Brothers Brewery á bílastæðinu við Vesturveg þann 20. Júní 2020, frá kl. 15:00 til 19:00.

Niðurstaða
Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að farið sé að skilyrðum sýslumanns og með fyrirvara um jákvæða umsögn hlutaðeigandi eftirlitsaðila.

Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi hátíðarstaðarins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.
13. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Til upplýsinga var lögð fyrir bæjarráð 558. fundargerð frá stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga vegna fundar sem haldinn var þann 22. maí sl.
Fundargerð 558.-fundur-stj.-SASS.pdf
14. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð
Afgreiðsla trúnaðarmála er færð í sérstaka fundargerð.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:45 

Til baka Prenta