Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn Vestmannaeyja - 1563

Haldinn í Einarsstofu safnahúsi,
17.09.2020 og hófst hann kl. 18:00
Fundinn sátu: Elís Jónsson forseti,
Njáll Ragnarsson aðalmaður,
Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður,
Trausti Hjaltason aðalmaður,
Helga Kristín Kolbeins aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir aðalmaður,
Jóna S. Guðmundsdóttir aðalmaður,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201006074 - Kosning í ráð, nefndir og stjórnir skv. 44. gr. bæjarmálasamþykktar Vestmannaeyjabæjar.

Niðurstaða
Samkvæmt 2. tl. B-liðar 44. gr. samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar, kýs bæjarstjórn fimm aðalmenn og fimm varamenn í fræðsluráð. Gerðar eru þær breytingar á fræðsluráði nú, að Arna Huld Sigurðardóttir verður formaður og Elís Jónsson varaformaður.

Samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.
2. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Heilmiklar áskoranir hafa verið í samgöngumálum Vestmannaeyja undanfarnar vikur. Eins og fram hefur komið er fjárhagsstaða Herjólfs mjög erfið, sem stafar af minni sértekjum vegna fækkunar ferðamanna og lægri fjárveitingum úr ríkissjóði en áætlanir gera ráð fyrir. Þá hefur jafnframt komið fram að forsvarsmenn Flugfélagsins Ernis ákváðu einhliða að hætta áætlunarflugi til og frá Vestmannaeyjum frá 5. september sl.

Samgöngur á sjó
Samgöngumál hafa verið til umræðu á flestum fundum bæjarráðs og bæjarstjórnar. Þar að auki hafa allir bæjarfulltrúar ýmist tekið þátt í fundum eða verið upplýstir um framvindu viðræðna við ríkið og stjórn Herjólfs ohf.

Á þriðjudaginn var, barst bæjarstjóra bréf frá forstjóra Vegagerðarinnar, þar sem fram kemur að forsendubrestur sé á þjónustusamningi um rekstur Herjólfs ohf., sem rakinn er til umframmönnunar ferjunnar miðað við forsendur samningsins. Er í bréfinu jafnframt óskað eftir viðræðum við Vestmannaeyjabæ um endurskoðun samningsins og þess farið á leit að bæjaryfirvöld tilnefni fulltrúa til viðræðna við Vegagerðina um endurskoðun á ákvæðum samningsins. Er jafnframt vísað til minnisblaðs frá Landslögum um túlkun á þjónustusamningi við Vestmannaeyjabæ um ferjusiglingar sem Vegagerðin byggir bréf sitt á. Þar kemur m.a. fram að þrátt fyrir að breytta öryggismönnun, sem eðlilega leiðir til hækkunar eða lækkunar á samningsverði, eigi sér stað, séu samningsgreiðslur háðar samþykki Alþingis og fjárheimildum í fjárlögum og öðrum fyrirvörum sem leiða til þess að fjárhæðir þeirra séu óskuldbindandi. Vegagerðinni sé skylt að leita eftir breytingum á samningnum með vísan til breyttra forsendna.

Flugsamgöngur
Að beiðni fulltrúa Flugfélagsins Ernis áttu bæjarstjóri og framkvæmdastjóri stjórnsýslu og fjármálasviðs fund með sölu- og markaðsstjóra flugfélagsins þann 25. ágúst sl. Á þeim fundi lýsti sölu- og markaðsstjóri áhuga á að fjölga flugferðum á vegum félagsins til og frá Vestmannaeyjum og sendi hann í framhaldi drög að tillögu þar um. Bæjarstjóri var jákvæð gagnvart tillögum sölu- og markaðsstjórans, en sagðist vilja ræða málið við fulltrúa bæjarráðs áður en lengra yrði haldið. Forsvarsmenn Ernis voru upplýstir um það þann 31. ágúst sl., að bæjarráð myndi ræða málið óformlega daginn eftir, þann 1. september sl. sem bæjarráð gerði. Síðdegis þann dag barst annað símtal frá sölu- og markaðsstjóra flugfélagsins þar sem kvað við annan tón. Vildi hann upplýsa bæjarstjóra um að félagið hefði tekið þá ákvörðun einhliða, að hætta öllu flugi til og frá Vestmannaeyjum frá 5. september 2020. Umrætt símtal var um klukkustund áður en fréttir birtust í fjölmiðlum um að flugfélagið hefði ákveðið að hætta flugi til og frá Vestmannaeyjum.
Bæjarfulltrúar hafa látið í ljós vonbrigði með ákvörðun flugfélagsins og að enginn fyrirvari hafi verið á málinu, né viðræður um hvort hægt væri að finna flöt á að halda áfram áætlunarflugi í Vestmannaeyjum.
Frá því að ákvörðun flugfélagsins kom fram hefur bæjarstjóri rætt við samgönguráðherra og vegamálastjóra um stöðu flugsamgangna til og frá Vestmannaeyjum og mögulegar leiðir til að koma á áætlunarflugi að nýju. Þá hefur bæjarstjóri átt fundi með öðrum flugfélögum sem annast rekstur innanlandsflugs.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Trausti Hjaltason, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Njáll Ragnarsson og Elís Jónsson.

Samgönguyfirvöld, þ.e. samgönguráðuneyti og Vegagerðin, hafa vitað af þeirri erfiðu rekstrarstöðu sem Herjólfur ohf. hefur staðið frammi fyrir í marga mánuði og hafa bæjaryfirvöld beðið óþreyjufull svara um framhaldið. Þessi gríðarlega töf á greiðslum hefur haft alvarleg áhrif fyrir félagið. Það fjármagn sem ekki hefur verið greitt vegna, m.a. öryggismönnunar, vega þar mjög þungt. Dráttur á svörum samgönguyfirvalda hefur ekki hjálpað til við að eyða óvissu um framhaldið. Auk þess hafa áhrif af Covid19 valdið því að sértekjur hafa dregist mikið saman.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja telur þó mikilvægt að skýra ákveðna þætti samningsins sem deilt hefur verið um og þá þætti sem tryggja sem best hagsmuni Vestmannaeyjabæjar, þar á meðal að mikilvægt sé að lengja samningstímann til að gefa rekstrarfélaginu möguleika á að ná stöðugleika á ný í kjölfar þessa óvenjulega og ófyrirsjáanlega rekstrarárs.

Bæjarstjórn leggur þunga áherslu á að útistandandi skuldir Vegagerðarinnar við Herjólf ohf., sem hverfa ekki þrátt fyrir skipun þessa starfshóps, þurfi að gera upp hið fyrsta. Mikilvægt er að sú þjónusta sem tryggð hefur verið í siglingum milli lands og Eyja í dag skerðist ekki, m.a. hvað varðar ferðatíðni og tímaramma ferðaáætlunar, enda er um þjóðveg samfélagsins að ræða og einu samgönguleið sveitarfélagsins að svo stöddu. Æskilegast er að samgönguleiðin sé í höndum heimamanna sem þekkja best þjónustuþörfina á hverjum tíma.

Að ósk Vegagerðarinnar um tilnefningu í starfshóp um endurskoðun samningsákvæða þjónustusamnings um ferjusiglingar, skipar bæjarstjórn Vestmannaeyja þau Arnar Pétursson, Guðlaug Friðþórsson, Pál Þór Guðmundsson, úr stjórn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf., og Kristínu Edwald, lögmann. Bæjarráð mun vinna náið með starfshópnum og bæjarstjórn verður upplýst reglulega um gang mála. Starfshópurinn getur kallað þá aðila til ráðgjafar sem hópurinn telur þörf á.

Samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Tillaga frá fulltrúum D lista
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að fulltrúar Vestmannaeyjabæjar í samningahópnum leiti m.a. ráðgjafar hjá fyrri samninganefnd Vestmannaeyjabæjar og forsvarsmönnum hennar sem leiddu upphaflega samningagerð Vestmannaeyjabæjar við íslenska ríkið. Þeir aðilar þekkja inntak og forsendur samningsins allra best og hagsmunir félagsins eru þannig best tryggðir.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign)

Tillagan var felld með 4 atkvæðum E og H lista gegn 3 atkvæðum D lista.

Njáll Ragnarsson gerði grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi hætti:
Í hópnum sem nú hefur verið skipaður er einn fulltrúi sem sat í ráðgjafarhópnum á sínum tíma.
Njáll Ragnarsson (sign)

Bókun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins skilja ekki hvað liggur að baki því að meirihluti bæjarstjórnar sé andvígur því að leitað sé ráða hjá þeim sem sömdu upphaflega samninga. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja ítreka mikilvægi þess að haldið verði áfram þeirri ferðatíðni sem búið var að ná fram, sjö ferðum á dag, enda kostnaður við þá ferð afar lítill. Mikilvægt er að ferðafrelsi íbúanna og áframhaldandi öflug þjónusta við samfélagið sé áfram til grundvallar samningagerðinni.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign)

Bókun frá fulltrúum E og H lista
Í fyrri tillögu er verið að leggja til að starfshópur velji sér ráðgjafa eftir þörfum og því ekki okkar að skipta okkur af þeirra vali á ráðgjöf.
Elís Jónsson (sign)
Njáll Ragnarsson (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)
Bréf samgönguráðuneytisins til Vestmannaeyjabæjar.pdf
14 09 2020 Minnisblað til Vegagerðarinnar vegna Herjólfs lokagerð.pdf
Minnisblað frá LEX um þjónustusamning um Herjólf.pdf
3. 201906047 - Breytingar á bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar
Á bæjarstjórnarfundi þann 11. júní sl., voru lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn, drög að endurskoðaðri bæjarmálasamþykkt, sem starfshópur skipaður kjörnum fulltrúum Vestmannaeyjabæjar, vann á vormánuðum.
Samkvæmt 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, ber sveitarstjórnum að hafa tvær umræður, með a.m.k. einnar viku millibili, um samþykktir og aðrar reglur sem skv. lögum eiga að hljóta staðfestingu ráðherra, þ.m.t. bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar.

Að lokinni fyrri umræðu í bæjarstjórn voru drögin send samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og óskað eftir athugasemdum. Gagnlegar ábendingar um breytingarnar á samþykktinni bárust frá ráðuneytinu, m.a. um gerð viðauka við samþykktina vegna fullnaðarafgreiðslna fagráða og einstakar greinar. Tekið hefur verið tillit til ábendinganna og liggja nú fyrir drög að viðaukum og breytingar á einstökum greinum samþykktarinnar. Hefur ráðuneytið samþykkt drögin fyrir sitt leyti, en að lokinni samþykkt bæjarstjórnar verður bæjarmálasamþykktin send sveitarstjórnarráðherra til staðfestingar.

Drög að endurskoðaðri bæjarmálasamþykkt er hér lögð fram til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Íris Róbertsdóttir, Helga Kristín Kolbeins, Njáll Ragnarsson, Elís Jónsson, Trausti Hjaltason og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir.

Breytingartillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að fallið verði frá áformum um fjölgun bæjarfulltrúa úr 7 í 9 og fjöldi bæjarfulltrúa haldist óbreyttur.

Rökstuðningur:
Í íslensku samfélagi ríkir efnahagsleg óvissa og yfirvofandi kreppa vegna áhrifa af heimsfaraldri Covid19. Óábyrgt er á sama tíma að taka ákvörðun um að auka rekstrarkostnað Vestmannaeyjabæjar á þriðja tug milljóna á næsta kjörtímabili með fjölgun bæjarfulltrúa.

Engin lagaleg skylda er fyrir því að fjölga bæjarfulltrúum. Með óbreyttum fjölda uppfyllir Vestmannaeyjabær lagalegar skyldur sínar um fjölda fulltrúa.

Hvorki H- né E-listi sem mynda meirihluta bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar hafði fjölgun bæjarfulltrúa sem stefnumál fyrir kosningar. Umfang og eðli slíkrar ákvörðunar er veigamikið og hlýtur að eiga erindi við íbúa. Því gengur þessi ákvörðun gegn markmiði hennar um aukið lýðræði þar sem kjósendum var aldrei gert það ljóst að þessi stóra stefnubreyting stæði til.

Sé vilji meirihlutans sannarlega að auka lýðræði er einfalt að gera það strax á næsta fundi bæjarstjórnar og þyrfti því meirihluti H- og E-lista ekki að bíða fram yfir næstu kosningar. Það getur meirihlutinn gert með því að bæjarfulltrúar taki ekki sæti í ráðum og nefndum bæjarins líkt og Sjálfstæðisflokkurinn gerir. Með slíku fyrirkomulag er tryggð betri valddreifing og fleiri raddir samfélagsins fá að koma að ákvörðunartöku án þess að það feli í sér aukinn kostnað fyrir sveitarfélagið.

Fulltrúar meirihlutans hafa gjarnan kvartað undan óhóflegri lengd bæjarstjórnarfunda þegar verið er að rökræða um málefni sem flokkana greinir á um. Fjölgun bæjarfulltrúa um 2, úr 7 í 9, gæti þar með aukið lengd bæjarstjórnarfunda um tæp 30% þar sem eðli málsins samkvæmt verða fleiri einstaklingar sem hafa málfrelsi á fundum. Slíkt er hvorki til þess fallið að auka skilvirkni starfa bæjarstjórnar eða gera störf bæjarfulltrúa eftirsóknarverðari.

Í rökum sínum með fjölgun bæjarfulltrúa var talað um að fleiri bæjarfulltrúar séu hvati að fjölgun framboða og komi í veg fyrir kerfi fárra en stórra flokka. Í því samhengi má benda á að í síðustu bæjarstjórnarkosningum þegar líkt og í dag voru 7 bæjarfulltrúar i bæjarstjórn bauð sig fram áður óþekkt framboð sem hlaut yfir 34% atkvæða.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign)

Tillagan var felld með 4 atkvæðum E og H lista, gegn 3 atkvæðum D lista.

Bókun frá fulltrúum D lista
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þykir miður að tillagan hafi verið felld þrátt fyrir rökstuðning gegn fjölgun bæjarfulltrúa. Bæjarbúar hafa ekki opinberlega kallað eftir þeim breytingum sem hér er verið að ákveða og því óljóst hverra hagsmuna er hér verið að gæta.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign)

Bókun frá fulltrúum E og H lista
Með fjölgun bæjarfulltrúa er gefin réttari mynd af vilja kjósenda sem hefur í för með sér aukið lýðræði. Tillagan er í samræmi við þá lýðræðislegu hugsun sem býr að baki sveitarstjórnarstiginu og þeim reglum um kosningar til sveitarstjórna, að kjörnir fulltrúar endurspegli vilja íbúanna. Með fjölgun þeirra eru tryggð sjónarmið stærri hóps kjósenda. Slíkt skiptir máli við stefnumótun og pólitíska ákvarðanatöku. Fjölgun bæjarfulltrúa gefur minni framboðum meiri möguleika á að ná kjöri.
Háværustu mótrök fulltrúa minnihlutans snúa að auknum kostnaði fyrir sveitarfélagið vegna fjölgunar bæjarfulltrúa úr 7 í 9 á næsta kjörtímabili 2022-2026. Með því gefur minnihlutinn sér að auka þurfi kostnað vegna fjölgunar. Það er ekki rétt. Það eru engin línuleg tengsl milli fjölda bæjarfulltrúa og aukins kostnaðar. Það er val. Með einföldum hætti má lækka þóknun fyrir störf í bæjarstjórn. Bæjarstjórn ákveður sjálf þóknun til handa bæjarfulltrúum. Kveðið er á um slíka ákvörðun í sveitarstjórnarlögum. Þóknun til bæjarfulltrúa í Vestmannaeyjum er t.a.m. í hærra lagi samanborið við mörg sveitarfélög á landinu. Með því að lækka laun bæjarfulltrúa um u.þ.b. 40 þús. kr. á mánuði, úr 185 þús. kr. í 143 þús kr. er hægt að fjölga bæjarfulltrúum án aukins kostnaðar fyrir skattgreiðendur í Vestmannaeyjum.
Hvað varðar þau sjónarmið fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að það auki lýðræði að tilnefna og handvelja í nefndir og ráð aðra fulltrúa en þá sem kjósendur hafa valið, geta varla talist lýðræðisleg. Kjósendur hafa kosið fulltrúa sína í formlegum sveitarstjórnarkosningum og eðlilegt að ætla að þeir skipti með sér verkum í fagráðum sveitafélagsins, líkt og kjörnir alþingismenn sitja í nefndum þingsins.
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Njáll Ragnarsson (sign)
Elís Jónsson (sign)

Tillaga frá fulltrúa D lista
Lagt er til að fresta afgreiðslu málsins og tíminn nýttur til að undirbúa íbúakosningu um málið þar sem íbúum Vestmannaeyjabæjar verður gefinn kostur á að leggja fram skoðun sína um málið.
Trausti Hjaltason (sign)

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum E og H lista gegn 3 atkvæðum D lista.

Bókun frá fulltrúa E lista
Ég tel ekki þörf á því að fresta afgreiðslu málsins með þessum hætti. Nær væri að halda íbúafund á næstu mánuðum og eftir hann er hægur leikur að gera breytingar á bæjarmálasamþykktinni telji bæjarfulltrúar ástæðu til þess.
Njáll Ragnarsson (sign)

Bókun frá fulltrúa D lista
Það eru augljóst að bæjarfulltrúar meirihlutans hafa engan áhuga á að leyfa bæjarbúum að hafa skoðun á þessari stefnumótandi ákvörðun þegar þeir fella tillögu um að leggja ákvörðunina í íbúakosningu. Orð meirihlutans um aukið lýðræði eru því ekkert nema orðin tóm.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)

Endurskoðuð bæjarmálasamþykkt var samþykkt með 4 atkvæðum E og H lista gegn 3 atkvæðum D lista.

Bókun frá fulltrúa D lista
Það er bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins þungt að geta ekki samþykkt nýja bæjarmálasamþykkt en fulltrúar flokksins hafa lagt á sig mikla vinnu við endurskoðun samþykktarinnar og komið með fjölda gagnlegra ábendinga. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta hins vegar með engu móti samþykkt 1. Grein samþykktarinnar um fjölgun bæjarfulltrúa þar sem slíkt eykur kostnað sveitarfélagsins um tugi milljóna á tímum þegar aðhalds og ráðvendni í rekstri hefur sjaldan ef nokkurn tímann verið jafn þörf. Engin tillaga hefur komið fram af hálfu meirihlutans um að lækka laun bæjarfulltrúa. Framboð H- og E-lista gerðu kjósendum sínum það aldrei kunnugt að þetta stóra stefnumál væri á dagskrá þeirra og hljóta kjósendur þeirra því að upplifa sig svikna. Loforð flokkanna um meira gegnsæi við ákvörðunartökur og aukið samráð við íbúa virðist því hafa verið hjómið eitt.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Bæjarmálasamþykkt - drög að endurskoðun til seinni umræðu í bæjarstjórn-lokadrög.pdf
4. 201808173 - Dagskrá bæjarstjórnafunda

Niðurstaða
Dagsetning bæjarstjórnarfunda frá september 2020 til og með janúar 2021, er eftirfarandi:

Fimmtudagur 17. september 2020. Fyrsti fundur eftir sumarleyfi bæjarstjórnar
Fimmtudagur 15. október 2020.
Fimmtudagur 5. nóvember 2020. Fyrri umræða um fjárhagsáætlun
Fimmtudagur 3. desember 2020. Seinni umræða um fjárhagsáætlun
Fimmtudagur 28. janúar 2021. Fyrsti fundur á nýju ári

Breytingartillaga frá fulltrúa D lista
Gerð er tillaga um að hafa október fundinn þann 14. október í stað 15. október.

Dagskráðin verður því eftirfarandi:
Fimmtudagur 17. september 2020. Fyrsti fundur eftir sumarleyfi bæjarstjórnar
Miðvikudagur 14. október 2020.
Fimmtudagur 5. nóvember 2020. Fyrri umræða um fjárhagsáætlun
Fimmtudagur 3. desember 2020. Seinni umræða um fjárhagsáætlun
Fimmtudagur 28. janúar 2021. Fyrsti fundur á nýju ári

Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.
Fundargerðir til staðfestingar
5. 202007004F - Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja - 253
Liðir 1-4 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-4 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
6. 202007005F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3132
Liðir 1-12 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-12 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
7. 202007007F - Fjölskyldu- og tómstundaráð - 248
Liðir 1-3 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-3 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
8. 202007008F - Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja - 254
Liður 3, 6 mánaða rekstraryfirlit Vestmannaeyjahafnar, liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.

Liðir 1-2 og 4-6 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Við umræðu um lið 3, 6 mánaða rekstraryfirlit Vestmannaeyjahafnar, tóku til máls: Trausti Hjaltason og Íris Róbertsdóttir

Bókun frá fulltrúum D lista
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna skynsamlegri ákvörðun ráðsins um frestun á ráðningu hafnarstjóra og ítreka fyrri bókanir sínar um að fallið verði frá því að setja þetta kostnaðarmikla stöðugildi á laggirnar alfarið.
Trausti Hjaltason (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign)

Liður 3 samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Liðir 1-2 og 4-6 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
9. 202007012F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3133
Liður 1 liggur fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liður 1 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.
10. 202008001F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 330
Liðir 1-9 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-9 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
11. 202008002F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3134
Liðir 1-7 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-7 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
12. 202008004F - Fræðsluráð - 333
Liðir 1-5 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-5 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
13. 202008006F - Fjölskyldu- og tómstundaráð - 249
Liðir 1-2 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-2 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
14. 202008008F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 331
Liður 1, Deiliskipulag á athafnasvæði AT-1 við Græðisbraut, liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.

Liðir 2-7 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Við umræðu um lið 1, Deiliskipulag á athafnasvæði AT-1 við Græðisbraut, tóku til máls: Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Njáll Ragnarsson og Íris Róbertsdóttir.

Bókun frá fulltrúum D lista
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í ráðinu og telja að umrætt skipulag þjóni ekki heildarhagsmunum samfélagsins heldur séu hagsmunir ákveðinna aðila innan svæðisins vegnir þyngra en annarra. Slíkt er óásættanlegt. Verið er að skipuleggja óvenju mikið og óhóflegt byggingarmagn á ákveðnu svæði innan skipulagsins sem er ekki svæðinu til framdráttar. Með þessu skipulagi er einungis verið að auka við þær deilur sem upp hafa risið á svæðinu en ekki verið að stilla til friðar enda hafa borist alvarlegar athugasemdir fasteignaeigenda á svæðinu við deiliskipulagið sem um ræðir. Hér er því enn og aftur verið að fara gegn kosningaloforðum en meðal loforða H-listans var að leysa skipulagsmál í breiðari sátt við íbúa, en það virðist bara eiga við ákveðna íbúa.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign)
Trausti Hjaltason (sign)

Bókun frá fulltrúum E og H lista
Meirihluti E- og H-lista tekur undir niðurstöðu ráðsins og telur mikilvægt að rótgróin fyrirtæki hafi svigrúm til að stækka innan sinna lóðarmarka. Með nýju deiliskipulagi er verið að vinna í að þétta byggð eins og gildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir.
Minnihluti d-lista hefur ítrekað lagt til að fyrirtæki á svæðinu flytji starfsemi sína á nýtt deiliskipulag, sem er á vinnslustigi og staðsett við flugvöllinn, vilja þau stækka. Fulltrúum minnihlutans finnst greinilega mjög eðlilegt að rótgróin fyrirtæki flytji starfsemi sína annað ef þau vilja stækka í stað þess að sína því skilning að þessir eigendur vilji stækka innan sinna lóðarmarka.
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Njáll Ragnarsson (sign)
Elís Jónsson (sign)

Liður 1 samþykktur með 4 atkvæðum H og E lista gegn gegn 3 atvæðum D lista.

Bókun frá fulltrúa E lista
Í því máli sem nú hefur hlotið afgreiðslu bæjarstjórnar hafa öll skilyrði fyrir uppbyggingu aðila á svæðinu verið uppfyllt. Gagnrök í málinu vísa ekki í lög eða reglugerðir og geta þar af leiðandi ekki komið í veg fyrir uppbyggingu á þeim byggingareitum sem um ræðir. Málsmeðferð ráðsins í málinu hefur frá upphafi verið fagleg, ítrekað hefur verið rætt við hagsmunaaðila á svæðinu til að leita allra leiða til að ljúka málinu í sátt. Því miður hefur það ekki tekist. Það er mín einlæga skoðun að bærinn þurfi í hvívetna að tryggja atvinnulífinu tækifæri til þess að vaxa og dafna.
Njáll Ragnarsson (sign)

Liðir 2-7 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
15. 202008009F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3135
Liður 1 liggur fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liður 1 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.
16. 202009002F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3136
Liður 7, Málefni Hraunbúða, liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.
Bæjarstjóri greindi frá fundi sem hún átti ásamt embættismönnum bæjarins með forstjóra og fulltrúum Sjúkratrygginga Íslands um uppsögn á samningi Vestmannaeyjabæjar og stofnunarinnar, um rekstur Hraunbúða.

Liður 8, Verklagsreglur um ráðningar hjá Vestmannaeyjabæ, liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.

Liðir 1-6 og 9-14 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Við umræðu um lið 7, Málefni Hraunbúða, tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Trausti Hjaltason og Njáll Ragnarsson.

Sameiginleg bókun bæjarstjórnar
Bæjarstjórn lýsir áhyggjum sínum af skeytingarleysi ríkisins hvað rekstur hjúkrunarheimila í landinu varðar. Mörg sveitarfélög munu ekki framlengja rekstrarsamninga sínum við ríkið vegna lágra daggjalda sem standa engan veginn undir rekstri heimilanna samkvæmt kröfulýsingu Sjúkratrygginga. Bæjarstjórn tók þá erfiðu ákvörðun að segja upp núverandi samningi um rekstur Hraunbúða í sumar.
Lítið kom fram á fyrsta fundi Vestmannaeyjabæjar með Sjúkratryggingum Íslands um það með hvaða hætti Sjúkratryggingar, fyrir hönd ríkisins, sæju fyrir sér yfirfærsluna og rekstur Hraunbúða í framtíðinni. Bæjarstjórn leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að tryggja óbreytta þjónustu við heimilisfólk Hraunbúða og þeirra sem sækja þangað þjónustu, og að tryggja starfsfólki Hraunbúða áframhaldandi störf sbr. lög þar um, við yfirfærslu stofnunarinnar til ríkisins. Næsti fundur Vestmannaeyjabæjar með forstjóra og fulltrúum Sjúkratrygginga Íslands átti að vera á morgun, en hefur verið frestað að beiðni forstjóra Sjúkratrygginga Íslands.
Elís Jónsson (sign)
Njáll Ragnarsson (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Jóna Sigríður Guðmunsdóttir (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign)

Liður 7 var samþykktur með 7 samhljóða atkvæðum.

Fallið var frá óskum um viðræðum um lið 8.

Liðir 1-6 og 8-14 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl.  

Til baka Prenta