30. apríl 2021

Vestmannaeyjabær auglýsir sumarstörf fyrir námsmenn

Auglýst er eftir starfsfólki, 18 ára (á árinu) eða eldri, til sérstakra sumarstarfa. Um er að ræða störf sem eru sérstaklega ætluð námsmönnum. Námsmenn þurfa að vera skráðir í nám að hausti 2021 eða verið skráðir í nám á vorönn 2021. Umsóknarfrestur er til og með 18. maí nk. 

Um er að ræða störf undir sérstöku átaki stjórnvalda undir heitinu „Sókn fyrir námsmenn“, um fjölgun tímabundinna starfa fyrir námsmenn í sumar, en forsenda fyrir þátttöku ríkisins er að Vestmannaeyjabær skapi ný störf fyrir námsmenn, en ekki hefðbundin sumarstörf eða afleysingar.

Leitað er að jákvæðum, duglegum og samviskusömum einstaklingum. Vestmannaeyjabær vill stuðla að jafnrétti kynja og hvetur því alla óháð kyni að sækja um laus störf.

Almennar upplýsingar veitir Erna Georgsdóttir hjá Vestmannaeyjabæ í síma 488 2000 eða í tölvupósti: ernag@vestmannaeyjar.is

Umsóknir skulu berast rafrænt í gegnum íbúagátt Vestmannaeyjabæjar. Einstaklingar sem ekki hafa rafræn skilríki geta fengið leiðbeiningar í þjónustuveri í síma 488 2000.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningar hefur verið tekin.

Hér er hægt að lesa nánar um þau störf sem í boði eru.

1. 3D kortlagning á eyjunni með GPS

Þrívíð kort eru klárlega framtíðin í framsetningu á kortaupplýsingum. Með tilkomu þrívíðra korta opnast möguleikar á ýmiskonar sjálfvirkni eins og t.d. sjálfkeyrandi farartækjum og flygildum. Þessu til viðbótar þá verður upplifun hins venjulega notanda af þrívíðum kortum betri. Möguleikinn á að átta sig á afstöðu og aðgengi að stöðum er allt annar og betri og gæti nýst viðbragsaðilum við björgunarstörf sem dæmi. Strarsmaður mun vinna að greinargerð um hvaða tækni liggur á bakvið slík kort, vinna grunnupplýsingar úr kortagrunni og upplýsingum o.fl.

 

2. Undirbúningur að hönnun á Hamarsskóla

Viðbygging við Hamarsskóla er á áætlun, en ætlunin er m.a. að þarna verði félagsaðstaða fyrir lengda viðveru, leikskóla, tónlistarskóla auk grunnskóla. Ætlunin er að skoða þarfir þessara mismunandi hópa og rýmisþörf og reyna að samnýta það sem mögulegt er með það fyrir augum að spara húsnæði og fjármuni. Starfsmaður mun vinna með tæknideild í öflun og greiningu upplýsinga og setja upp hönnunarforsendur

 

3. Snjallvæðing á skráningu rafmagnsnotkunar skipa við Vestmannaeyjahöfn og snjallvæðing á vigtun sjávarafla

Af umhverfissjónarmiðum er höfnin að vinna í því að minnka pappírsnotkun. Verkið felst í því að búa til skráningarkerfi sem er notendavænt fyrir hafnarstarfsmenn og auðveldar úrvinnslu gagna. Í dag eru þessi gögn öll á pappír sem síðan eru skráð rafrænt í upplýsingakerfi. Starfsmaður myndi vinna að þessu verkefni í samstarfi við starfsmenn hafnarinnar.

4. Skjalavinnsla á fjölskyldu- og fræðslusviði

Lagfæring og endurskilgreining á skjalaskrá og skjalakerfi fjölskyldu- og fræðslusviðs í samstarfi við ritara og skjalastjóra. Flokkun og skilgreining á gögnum til geymslu í Héraðsskjalasafn. Greining á eldri gögnum. Undirbúningur á flutningi á skjalasafninu í nýtt húsnæði.

5. Nútímavæðing stjórnsýslu bæjarins

Óskað verður eftir námsmanni til að halda áfram átaki við gerð ferla sem birta þarf í Stjórnartíðindum og á vef bæjarins, yfirfara reglur Vestmannaeyjabæjar um starfsmannamál og uppfæra eftir þörfum, leggja grunn að hönnun og miðlun upplýsinga til handa starfsmönnum bæjarins í gegnum innri upplýsingakerfi. Markmiðið að auka upplýsingaflæði og auðvelda dagleg störf og stuðla þannig að fjölbreyttri starfsemi bæjarins.

6. Markaðs, kynningar, og samfélagsmiðlavæðing Vestmannaeyjabæjar

Byggja upp samfélagsmiðla bæjarfélagsins, vinna gagnagrunn að ljósmyndum, taka stutt viðtöl og útbúa kynningu á starfsemi sveitarfélagsins til birtingar, annast þróun og framsetningu efnis á miðlum sveitarfélagsins. Jafnframt að móta tillögur um markaðssetningu Vestmannaeyja í gegnum samfélagsmiðla í samstarfi við vefhóp bæjarfélagsins og tengja það öðru markaðsátaki sem er til staðar hjá Vestmannaeyjabæ.

7. Aðgengisfulltrúi

Sjá til þess að gerðar séu úttektir á aðgengi fatlaðs fólks þ.e. á þjónustu og starfsemi sveitarfélagsins í víðum skilningi. Ef úttekt leiðir í ljós að þörf er á útbótum gerir aðgengisfulltrúi tímasettar áætlanir um úrbætur. Hugmyndin er að safnað verði gögnum og þekkingu til að geta skilgreint starf aðgengisfulltúa í sveitarfélögum í framtíðinni.

8. Rannsókn á stöðu og líðan íbúa í Vestmannaeyjum af erlendum uppruna

Íbúum af erlendum uppruna hefur fjölgað mjög í Eyjum á undanförnum árum og eru nú um 12% íbúa sveitarfélagsins. Unnin verði rannsókn á stöðu og líðan einstaklinga sem flutt hafa til Vestmannaeyja frá árinu 2000. Markmið rannsóknarinnar er að öðlast betri skilning á viðhorfum nýbúa til búsetu í Vestmannaeyjum, þátttöku í samfélaginu og aðgengi þeirra að upplýsingum, þjónustu og réttindum sem í boði eru á vegum sveitarfélagsins. Unnið í samstarfi við fjölmenningarfulltrúa bæjarins.

9. Kveikjum neistann – efnisskráning barnabóka

Vestmannaeyjabær, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Háskóli Íslands og Samtök atvinnulífsins standa að þróunar- og rannsóknarverkefni árin 2021-2030 í Grunnskóla Vestmannaeyja með það að markmiði að efla læsi nemenda. Bókasafn Vestmannaeyja óskar eftir nemanda í Upplýsingafræði til að efnisskrá barnabækur sem ætlaðar eru yngri aldurhópum til þess að vera betur í stakk búið undir það samstarf að velja bækur sem falla að áhugasviði ólíkra barna. Markmiðið er að draga fram ólík viðfangsefni barnabókanna og gera nemendum þannig auðveldara að finna bók sem heillar – til lesturs.

10. Endurskipulagning í geymslum Safnahúss

Verið er að endurskipuleggja geymslurými Safnahúss og finna hluta af safnkostinum annan samastað. Stór hluti af safnkostinum er í geymslurými, líkt og venja er í söfnum, og er ætlunin að vinna stórátak í að sameina safnkost sem nú er á nokkrum stöðum í eina stóra og öfluga geymslu. Óskað er eftir 2-3 nemendum til að vinna með munina sem margir hverjir eru viðkvæmir. Skrá, merkja og mynda þarf hvern einasta hlut áður en hann er færður úr stað og einnig þegar ný staðsetning er fundin.

11. Að gera örnefni í Heimaey og úteyjum aðgengileg á kortasjá Landmælinga Íslands

Síðastliðið sumar var unnið að því að taka saman skrá um örnefni í Vestmannaeyjum, í samstarfi við sérstakan áhugahóp sem kallaður var saman í tilefni af verkefninu. Verkefnið var unnið í samstarfi við Landmælingar og markmiðið var að gera afrakstur verkefnisins aðgengilegan almenningi með því að QPR merkja örnefnin og setja upplýsingarnar inn á kortasjá Landmælinga. Óskað er eftir nemanda til að vinna að umræddum verkþáttum.

12. Enduruppbygging á sal Sagnheima, Náttúrugripasafns

Undanfarið ár hefur verið unnið að því að endurhanna það rými sem áður hýsti Sæheima, safn lifandi dýra en stærsti hlutinn af þeim dýrum sem þar voru eru nú komin í Sea Life og orðin hluti af safnkosti þess. Óskað er eftir nemanda til að aðstoða við að endurskipuleggja það rými sem nú er autt og leggja drög að einni eða tveimur grunnsýningum sem opni vorið 2022.

13. Þátttaka í skráningar- og rannsóknargrunni á kveðskap frá einstökum landshlutum

Undir merkjum Árnastofnunar hafa skjalasöfn víðsvegar um landið sameinast um að byggja upp öflugan safna- og rannsóknagrunn um kveðskap, ljóð og lausavísur úr héraði. Markmiðið er að ráða nemanda til að skrá inn í grunninn það kveðskaparefni sem til í Skjalasafni Vestmannaeyja. Verkefnið verður unnið í samstarfi við ritstjóra gagnagrunnsins.