4. maí 2022

Thelma Rós Tómasdóttir

Kynning á verkefnastjóra öldrunarþjónustu hjá Vestmannaeyjabæ og verkefnum sem falla þar undir

Ég heiti Thelma Rós Tómasdóttir og er gift þriggja barna móðir. Ég er menntaður hjúkrunarfræðingur og er búin að sérhæfa mig í öldrunar- og heimahjúkrun. Ég flutti aftur heim til Eyja með fjölskylduna árið 2018 og hafði þá verið búsett í Danmörku í 13 ár.

Ég starfa sem verkefnastjóri öldrunarþjónustu hjá Vestmannaeyjabæ. Starfið er mjög fjölbreytt og vinn ég meðal annars við þróun, samhæfingu og eftirlit í málaflokki aldraðra. Einnig felur starfið í sér ráðgjöf, stuðning og miðlun upplýsinga til þjónustuþega, aðstandenda og starfsmanna. Starfið felur auk þess í sér teymisvinnu með deildarstjóra dagdvalar og deildarstjóra stuðningsþjónustunnar. Samstarf við Félag eldriborgara í Vestmannaeyjum og Heilbrigðisstofnun suðurlands er líka hluti af starfinu. Ég er tengiliður við Janusarverkefnið. Ásamt því að sinna ýmsum öðrum verkefnum.

Skrifstofan mín er að Kirkjuvegi 23 (gamli Íslandsbanki) og hægt er að hafa samband við mig í síma 488 2048 eða senda tölvupóst á thelma@vestmanneyjar.is.

Ég er búin að vera í þessu starfi í tæpt ár og á þessum tíma höfum við tekist á við ýmsar áskoranir þar sem Covid spilaði töluvert inn í. En þrátt fyrir það höfum við reynt að halda öllu gangandi með velferð þjónustuþega og hins aldraða borgara að leiðarljósi. Þrátt fyrir ýmsar takmarkanir tókst okkur meðal annars að halda marga viðburði í tengslum við verkefnið ,,út í sumarið“. Þar var eldriborgurum boðið að taka þátt í skemmtilegum viðburðum eins og gönguferð, rútuferð, söng, bíóferð, bingó, stólajóga og mörgu fleira. Þátttaka var mjög góð og mikil ánægja var með verkefnið. Janusar verkefninu var framlengt og hefur heilsueflingin verið að skila góðum árangri. Verkefnið er skipulagt sem heilsutengt forvarnarferli, heilsuefling, til tveggja ára og er skipulagið sett upp í fjórum sex mánaða þrepum. Verkefnið býður einnig upp á framhaldsþrep að tveggja ára heilsuelfingarferli loknu.

Í mars voru opnuð 5 sérhæfð dagdvalarrými fyrir einstaklinga með heilabilunarsjúkdóm og eru þessi rými til viðbótar við þau 10 almennu dagdvalarrými sem fyrir voru. Einnig höfum við á þessu ári ráðið iðjuþjálfa til starfa í dagdvölinni. Tilgangur dagdvala er að efla líkamlega virkni og félagslega þátttöku með það að markmiði að fólk geti búið lengur heima hjá sér. Sérhæfðu dagdvalarrýmin bjóða upp á allt sem almennu dagdvalarrýmin bjóða upp á, en þar að auki fá einstaklingarnir sem eru í sérhæfðu rýmunum aukalega vitsmunalega, líkamlega og félagslega þjálfun sem stjórnað er af iðjuþjálfa.

Það hefur fjölgað um eina þjónustuíbúð á þessu ári og eru þær nú orðnar átta. Þjónustuíbúðirnar eru úrræði fyrir fólk sem þarf orðið meiri aðstoð eða eftirlit. Íbúum þjónustuíbúðanna býðst að fara í dagdvöl. Starfsmaður er í húsinu á morgnana alla virka daga og aðstoðar íbúana við athafnir daglegs lífs. Í íbúðunum er öryggiskerfi sem tengir íbúana við aðstandendur gegnum öryggismiðstöðina ef upp kemur neyðarástand.

Umfang stuðningsþjónustunnar hefur aukist mikið að undanförnu og kemur bara til með að aukast næstu árin þar sem fjöldi aldraðra fer ört vaxandi. Eldri borgarar eru nú um 15,6% af heildar fjöldanum í Vestmannaeyjum en voru 10,8% árið 2019. Þetta leiðir til þess að áskoranir í öldrunarþjónustunni aukast og leita þurfi nýrra leiða til að þjónusta notendur sem best og verið er að skoða ýmsar velferðistæknilausnir. Markmið stuðningsþjónustu er að aðstoða og hæfa notendur sem þurfa aðstæðna sinna vegna á stuðningi að halda við athafnir daglegs lífs og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun.

Vestmannaeyjabær vinnur markvisst að því að bæta við og efla þau úrræði fyrir aldraða sem eru í boði til að geta fylgt stefnu stjórnvalda um að fólk búi sem lengst heima við sem bestar aðstæður. Núna er byrjuð vinna við stækkun dagdvalar og næst á dagskrá er að móta nýja stefnu í öldrunarmálum.