31. mars 2021

Starfsfólki Hraunbúða tryggð áframhaldandi störf

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, undirritaði í gær samkomulag við heilbrigðisráðuneytið um störf og réttarstöðu starfsfólks við yfirfærslu dvalar- og hjúkrunarheimilisins Hraunbúða til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. 

Með samkomulaginu er einum mikilvægasta áfanga um yfirfærslu stofnunarinnar til ríkisins náð.

Í samningnum er gert ráð fyrir að öllu starfsfólki Hraunbúða verði boðin áframhaldandi störf og á sömu kjörum þegar Heilbrigðisstofnun Suðurlands tekur við rekstri heimilisins þann 1. maí nk. Starfsfólkið mun jafnframt halda áunnum réttindum sínum. Gerðir verða nýir ráðningarsamningar sem munu endurspegla þessa ákvörðun að höfðu samráði við viðkomandi stéttarfélög.

Með þessu hefur allri óvissu um störf og réttindi starfsfólks við yfirfærsluna verið eytt. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur Vestmannaeyjabær sótt fast að heilbrigðisráðuneytinu um að svokölluð aðilaskiptalög gildi um störf og réttindi starfsfólks við yfirfærsluna. Vestmannaeyjabær er enn þeirrar skoðunar að lögin hefðu átt að gilda, en samkomulagið sem hér um ræðir tryggir starfsfólki sambærileg réttindi og kveðið er á um í lögunum. Það er sérstaklega ánægjulegt að sá áfangi sé nú í höfn.