4. júní 2020

Íþróttafræðinám HR í Vestmannaeyjum

Frá og með haustinu 2020 geta nemendur stundað BSc-nám í íþróttafræði við HR í blöndu af staðarnámi og fjarnámi í Vestmannaeyjum. 

Námskeið eru kennd í fjarkennslu í gegnum fjarfundabúnað í Þekkingarsetri Vestmannaeyja en tvö verkleg námskeið eru kennd í Vestmannaeyjum. Nemendur ljúka tveimur þriggja vikna námskeiðum í Reykjavík en taka öll skrifleg próf í Þekkingarsetrinu. Kennarar frá HR koma til Eyja tvisvar sinnum á önn til að vinna með nemendum.

Nám í íþróttafræði við HR er fjölbreytt og krefjandi og undirbýr nemendur fyrir störf á fjölmörgum sviðum íþrótta, líkams- og heilsuræktar er lúta að kennslu, þjálfun og stjórnun.

Í grunnnámi í íþróttafræði kynnast nemendur undirstöðuatriðum í þjálfun og kennslu og ljúka einingum í verknámi. Þeir kynnast því jafnframt hvernig nota má niðurstöður rannsókna og nýjustu tækni til að efla þjálfun, afreksíþróttir og heilsu almennings. Í meistaranáminu er lögð áhersla á rannsóknir og tengsl við samfélag og atvinnulíf.

 

https://youtu.be/6EFnFd6I5MY