Endurbætur í Hamarsskóla
Kaffistofa Hamarsskóla fékk góða upplyftingu í sumar
Kaffistofan var upprunaleg og hafði lítið breyst frá því að Hamarsskóli var byggður fyrir áratugum síðan, og því var kominn tími á að fara í endurbætur.
Skipulagi var breytt og með því stækkaði rýmið til muna. Þetta skapar mun betri aðstöðu fyrir starfsfólkið sem þar vinnur. Nú fer afar vel um allt starfsfólk Hamarsskóla en það er mjög mikilvægt þar sem í húsnæði skólans starfar stór hópur, starfsmenn skólans, Víkurinnar og frístundar.
Nú í haust var einnig byggður skjólveggur sem myndar stóran og rúmgóðan pall sem hægt er að ganga beint út á úr kaffistofunni. Þetta er kærkomin viðbót sem mun án efa reynast vinsæl meðal starfsfólks. Pallurinn gefur starfsfólki tækifæri til að njóta kaffibollans síns úti í góðu veðri.
Pallurinn býður þó upp á mun fleiri möguleika en bara að njóta kaffitíma utandyra. Hann hentar einkar vel fyrir útikennslu á góðum dögum, óformlega fundi og samverustundir. Þetta eykur sveigjanleika í kennsluháttum og skapar nýjar og spennandi upplifanir fyrir bæði starfsfólk og nemendur. Með þessum endurbótum hefur vinnuumhverfi starfsfólks batnað verulega sem án efa stuðlar að betri starfsánægju.





