25. febrúar 2021

Af hverju Ísland? – Nýtt hlaðvarp

Klaudia Beata Wróbel, fjölmenningarfulltrúi Vestmannaeyjabæjar og Drífa Þöll Arnardóttir starfsmaður Bókasafns Vestmannaeyja eru byrjaðar að taka upp nýtt hlaðvarp/podcast sem heitir Af hverju Ísland?

Hlaðvarp er tiltölulega nýr miðill sem nýtur sífellt meiri vinsælda. Hlaðvarpið Af hverju Ísland? beinir sjónum sínum að Íslendingum af erlendum uppruna og þeim mannauði sem þeim fylgir.

Þær stöllur taka viðtöl við fólk sem af einhverjum ástæðum hafa tekið þá ákvörðun að flytja til Íslands og ræða um hvaðan þau koma, hvers vegna þau komu, hvernig gekk að aðlagast íslensku samfélagi og læra tungumálið svo eitthvað sé nefnt. Fyrstu viðmælendurnir er fólk sem býr hér í Eyjum og það segir okkur sína sögu. Þegar frá líður munu vonandi aðilar annars staðar að af landinu koma í þáttinn.

Hugmyndin að hlaðvarpinu kom í kjölfar myndbanda sem Klaudia og Drífa tóku upp fyrir jólin og birtu á samfélagsmiðlum. Þar tóku þær viðtöl við 4 einstaklinga af 4 mismunandi þjóðernum um jólasiði í upprunalandi þeirra. Myndbandsupptökurnar tókust mjög vel og fóru víða, það varð til þess að Drífa og Klaudia vildu halda áfram að kynna Íslendinga fyrir því góða fólki sem vill koma til Íslands og gera það að heimalandi sínu.

Markmiðið með hlaðvarpinu er að innfæddir Íslendingar kynnist sögu hóps sem oft er jaðarsettur í íslensku samfélagi og þannig að vinna gegn fordómum.

Fysti þátturinn fór í loftið 24. febrúar og munu bætast við nýjir þættir á tveggja vikna fresti.

Hlaðvarpið er að finna á helstu podcast-veitum eins og Spotify, apple podcasts og google podcasts. Hlaðvarpið er einnig með facebook síðu: Af hverju Ísland? podcast og Instagram síðu: Af hverju Ísland?

Einnig er hægt að hlusta á vefnum hér eða á Youtube.

Afhverju_Island_logo-jpg-002-