21.febrúar 2020 - 22:05

Vestmannaeyjabær eignast Herjólfsbæ

Á aðalfundi Herjólfsbæjarfélagsins í gær var samþykkt að færa Vestmannaeyjabæ fasteign félagsins, Herjólfsbæ í Herjólfsdal að gjöf. Þarna var verið að fylgja eftir ákvörðun félagsins frá  2017 og samþykkt bæjarráðs sama ár. Á fundi sínum í janúar ákvað bæjarráð að ganga frá málinu. Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra var falið að ganga frá málinu og skrifuðu hún og Árni Johnsen, formaður Herjólfsbæjarfélagsins undir afsal um afhendingu Herjólfsbæjar.
Fram kom í afgreiðslu bæjarráðs í janúar sl. að ráðið þakki Herjólfsbæjarfélaginu fyrir glæsilega gjöf og fól ráðið bæjarstjóra að ganga frá málinu. Það var svo gert í gær þegar Íris bæjarstjóri og Árni fyrir hönd Herjólfsbæjarfélagsins undirituðu afsal fasteignarinnar. Í framhaldinu var samþykkt tillaga um að slíta Herjólfsbæjarfélaginu.
 
Í októbermánuði 2005 var ráðist í byggingu nýs Herjólfsbæjar í Herjólfsdal. Við smíðina var notast við áreiðanlegustu heimildir og reynt að gera hann sem líkastan upprunalega bænum. Húsið var byggt sem langhús og gripahús. Lista- og menningarfélagið Herjólfsbæjarfélagið hafði frumkvæði að smíðinni. Bygging Herjólfsbæjar var myndarlegt framtak og hefur bærinn frá upphafi sett svip á Dalinn og er orðinn eitt af einkennum hans.
 
 
Herjólfsdalur er kenndur við Herjólf, son Bárðar Bárekssonar og er hann talinn landnámsmaður Vestmannaeyja og hafi búið í Herjólfsdal. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum hefur frá upphafi 1874 verið haldin í Herjólfsdal, nema árin 1973 og 1974, þegar dalurinn var svo illa farinn eftir Vestmannaeyjagosið að hún var haldin á Breiðabakka.
Margrétar Hermanns- Auðardóttir setti fram kenningu 1980 um að byggð í Vestmannaeyjum væri eldri en áður var haldið. Elstu leifarnar í Herjólfsdal væru frá 8. eða jafnvel 7. öld og taldi hún að Ísland hefði almennt verið numið um það leyti en ekki í lok 9. aldar eins og flestir aðrir hafa talið.
 
Mikið hefur verið deilt um kenningu Margrétar en síðari tíma rannsóknir styðja kenningu hennar.
 
 

Frá undirskriftinni, Íris og Árni fremst. Fyrir aftan eru aðrir í stjórn félagsins, Halldór Sveinsson, Ágúst Halldórsson, Pétur Steingrímsson og Gísli Valtýsson.

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159