20.febrúar 2020 - 17:00

Pólsk hátíð í Safnaðarheimilinu á laugardaginn

Það hefur verið í mörg horn að líta hjá Klaudiu Beata Wróbel sem ráðin var fjölmenningarfulltrúi Vestmannaeyja í mars á síðasta ári. Hún lætur ekki deigan síga og framundan er Pólskur dagur í Safnaðarheimilinu í samvinnu við Vestmannaeyjabæ og Pólska sendiráðið á Íslandi. 
 
„Klaudia segir útlendinga í Vestmannaeyjum vera um 11 prósent bæjarbúa, um 490 og eru Pólverjar fjölmennastir, um 220. „Við stefnum á pólskan dag á laugardaginn, 22. febrúar sem verður í fyrsta skipti í Vestmannaeyjum. Pólski sendiherrann kemur með tónlistarfólk. Pólskur matur verður í boði, allt heimatilbúið og allur matur ókeypis. Það verða líka sölubásar þar sem hægt verður að kaupa pólskar vörur. Fyrirtæki hér hafa sýnt mikinn áhuga og er ég mjög þakklát fyrir það,“ segir Klaudia.
 
Öllum boðið
Hún segir þetta í fyrsta skipti sem Pólskur dagur er haldinn í Vestmannaeyjum og hefur Klaudia aflað sér upplýsinga um þjóðmenningarhátíðir í Reykjavík og Reykjanesbæ. „Við vildum hafa þetta fjölmenningarhátíð með þátttöku allra útlendinga sem búa hér. Póverjar eru fjölmennastir og því var ákveðið að byrja með pólskri hátíð. En við leggjum áherslu á að öllum er boðið, sama hver upprunninn er og við undanskiljum ekki innfædda.“
Klaudia segir ekki tilviljun að 22. febrúar varð fyrir valinu. „Daginn áður, 21. febrúar er dagur móðurmálsins og því gott tilefni til hátíðarhalda.“
 
 
Margt í boði
Dagskráin er fjölbreytt og verður Safnaðarheimilið opnað klukkan tíu á laugardagsmorguninn. „Klukkan hálf ellefu opna Gerard Pokruszynski, sendiherra Póllands og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjórinn okkar hátíðina. Á eftir kemur Jarl Sigurgeirsson, skólastjóri Tónlistarskólans fram með nemendum skólans. Krakkar af pólskum uppruna lesa pólskar þjóðsögur á báðum tungumálum, ÍBV kynnir starfsemi sína og slegið verður í spurningakeppni um Ísland og Pólland þar sem myndarlegir vinningar verða í boði.“
 
Í hádeginu verður boðið upp á pólska þjóðarrétti og tónlist í boði Sendiráðsins. Að lokinni dagskrá verður rómversk-kaþólsk messa í Landakirkju. 
„Ég vil leggja áherslu á að hátíðin er öllum opin, ekki bara Pólverja heldur alla.  Þarna gefst tækifæri til að hittast, spjalla og kynnast hvert öðru. Undirbúningur hefur staðið lengi og margir komið að verki. Það er því hægt að lofa góðri skemmtun og ég veit að ýmislegt á eftir að koma á óvart þó margt sé líkt með Íslendingum og Pólverjum,“ sagði Klaudia að endingu. 
 
 
 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159