10.maí 2019 - 13:11

100 ára afmæli Vestmannaeyjakaupstaðar – Kvikmyndahátíð

Það er víða leitað fanga á Kvikmyndahátíð sem Vestmannaeyjabær stendur fyrir dagana áttunda til tólfta maí nk. Hátíðin var sett með móttöku í Kviku kl. 17.OO  miðvikudaginn áttunda maí og stuttmyndum af Vestmannaeyjum frá upphafi síðustu aldar þegar Vestmannaeyjabær sem við þekkjum í dag er að verða til. Á þessari fimm daga kvikmyndahátíð verður margt á boðstólnum eins og sjá hér að neðan. Ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

 
Föstudaginn 10. maí 2019, kl. 17:30

 

Eden, frumsýning á íslenskri kvikmynd í kvöld

 

 

 

Í kvöld klukkan 17.30 býður Vestmannaeyjabær í tilefni Kvikmyndahátíðar á frumsýningu á nýrri íslenskri kvikmynd, Eden sem kynnt er sem villt blanda af spennu og kómík. Hún segir frá parinu Lóu og Óliver sem framfleytir sér með fíkniefnasölu en þráir ekkert heitar en að elta drauma sína. Þegar þau lenda upp á kant við undirheimaöflin ákveða þau að taka málin í sínar hendur og hefst þá barátta upp á líf og dauða.

 

Leikstjóri og höfundur er Bolvíkingurinn Snævar Sölvi Sölvason. Eden er önnur mynd Snævars Sölva sem ratar í kvikmyndahúsin en fyrri myndin er gamanmyndin Albatross sem kom út árið 2015. Albatross fjallaði um líf og störf golfvallarstarfsmanna í Bolungarvík og var að öllu leyti tekin upp í Bolungavík.

Með aðalhlutverk fara Telma Huld Jóhannesdóttir, sem hefur getið sér gott orð á leiksviði og í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á borð við Illsku, Webcam og Rétti, og Hansel Eagle og Ævar Örn Jóhannsson sem fór með aðalhlutverkið í gamanmyndinni Albatross sem kom út árið 2015.

Kvikmyndatónlist samdi Magnús Jóhann Ragnarsson og lagasmíðar eru í höndum Þormóðs Eiríkssonar. Framleiðendur eru Flugbeittur Kuti og Kvikmyndafélag Íslands (Kisi) en Sena sér um dreifingu á Íslandi.

Stiklur má sjá á. https://www.youtube.com/watch?v=VkZdlrdrf7k

 

 

 

 

 

Sunnudaginn 12. maí 2019, kl. 16:00 til 17:30

Síðasti bærinn í dalnum. Myndin er byggð á samnefndri sögu Lofts Guðmundssonar rithöfundar og kennara í Vestmannaeyjum. Sýnd verður endurbætt útgáfa í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands.

Margir sem komnir eru vel yfir miðjan aldur eiga góðar minningar frá því þeir sáu Síðasta bæinn í dalnum sem frumsýnd var 11. mars 1950. Það var Óskar Gíslason sem gerði myndina eftir sögu Lofts Guðmundssonar, rithöfundar og kennara í Vestmannaeyjum.  Efniviður myndarinnar er í anda gömlu þjóðsagnanna, sígilt ævintýri um baráttu góðs og ills. Í sveit einni hafa allir bændur flust á brott vegna ofsókna trölls og tröllskessu.

Bóndi einn situr þó sem fastast með fjölskyldu sinni þar sem amman á bænum á töfrahring sem verndar íbúana frá öllu illu. Tröllin reyna að stela hringnum af henni og þá fer af stað atburðarás þar sem ýmsar vættir koma við sögu, meðal annars álfadrottning og dvergur sem getur gert sig ósýnilegan.

 

Síðasti bærinn í dalnum hefur elst vel og verður sýnt ný og endbætt útgáfa af myndinni. Söguþráðurinn gæti verið sóttur í Hringadróttinssögu eða Krúnuleikana, Game of Thronnes.  Átökin eru þau sömu. Er tilvalið fyrir þá eldri að skreppa í Bíóið og rifja upp gömlu góðu dagana og fyrir unga fólkið og krakka að kíkja á íslenska sagnahefð sem þarna er í fyrsta skipti færð upp á hvíta tjaldið.

 

Vestmannaeyjabær býður á allar þessar sýningar í tilefni aldarafmælis kaupstaðarins. 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159