26.03.2020

Bæjarráð - 3123

 
 

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3123. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn með fjarfundarbúniði Microsoft Teams,

26. mars 2020 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Viðbrögð vegna veiruógnunar - 202003036

 

Bæjarstjóri greindi frá stöðu, stjórnskipulagi og viðbrögðum yfirvalda í Vestmannaeyjum vegna útbreiðslu COVID-19 í sveitarfélaginu. Fyrsta staðfesta smitið greindist 15. mars sl. og hefur í kjölfarið verið gripið til margvíslegra aðgerða til að sporna við útbreiðslu, vernda íbúa og stuðla eftir fremsta megni að því að heilbrigðiskerfið anni þeim sem í mestri þörf eru. Staðan í Vestmannaeyjum er sú að 47 eru sýktir af veirunni og 554 eru í sóttkví.

Á neyðartímum ber aðgerðastjórn almannavarna Vestmannaeyja meginábyrgð á viðbrögðum og stjórnun aðgerða. Aðgerðastjórnin vinnur í samráði við sóttvarnalækni, landlækni og almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Viðbragðsstjórn hefur verið virkjuð hjá Vestmannaeyjabæ sem fundar daglega um stöðuna og aðgerðir er snúa að rekstri og starfsemi Vestmannaeyjabæjar.

Meðal aðgerða sem gripið hefur verið til er að skerða opnunartíma margra stofnana bæjarins, loka öðrum, breyta fyrirkomulagi skólastarfs, t.d. með fjarkennslu og starfsemi bæjarins skipt upp til þess að tryggja órofna þjónustu og vernda starfsfólk. Þá voru nýlega kynntar enn hertari aðgerðir með samkomubönnum, lokunum stofnana og fyrirtækja og ýmsum fjöldatakmörkunum. Þess er gætt að kennsla til forgangshópa, þ.e. barna starfsfólks í framlínustörfum, skerðist ekki.

Vestmannaeyjabær hefur lagt áherslu á upplýsingagjöf til allra bæjarbúa, þ.m.t. erlenda einstaklinga búsetta í Vestmannaeyjum og eru tilkynningar Vestmannaeyjabæjar þýddar á pólsku og ensku. Með hjálp fjölmenningarfulltrúa Vestmannaeyjabæjar hefur verið unnt að fylgjast með stöðu og líðan erlendra íbúa í Vestmannaeyjum, sem er nokkuð góð. Fjarfundabúnaður er nýttur til allra funda starfsmanna sveitarfélagsins, þ.m.t. bæjarstjórnafunda og funda ráða og nefnda. Framkvæmdastjórar sviða eru í daglegu sambandi við forstöðumenn stofnana og áhersla á að forstöðumenn haldi góðu sambandi við starfsfólk og hugi sérstaklega að þeim sem eru veikir eða í sóttkví. Aðgerðastjórn sendir daglegar tilkynningar um stöðu mála og nýlega svaraði aðgerðastjórn spurningum bæjarbúa með rafænum hætti.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem taka þátt í aðgerðum og viðbrögðum vegna veirunnar fyrir óeigingjarnt starf á erfiðum tímum. Starfsfólk Vestmannaeyjabæjar, fólk í framlínustörfum sem og íbúar allir hafa brugðist við breyttum aðstæðum með æðruleysi, jákvæðni, skilningi og samvinnu sem auðveldar starf viðbragðsaðila til muna. Staðan breytist frá degi til dags og erfitt er að segja til um þróunina næstu daga en bæjaryfirvöld munu áfram vinna náið með aðgerðarstjórn almannavarna og grípa til viðeigandi ráðstafana skv. fyrirmælum og tilmælum hennar. Hver dagur færir okkur nær bjartari tímum og hvetur bæjarráð íbúa að halda áfram að fylgja tilmælum landlæknis til að vernda þá hópa sem eru viðkvæmir í samfélaginu. Erfiðleikarnir sem við glímum við í dag hafa jafnframt dregið það besta fram í samfélaginu en samheldni og náungakærleikur er áþreifanlegur í bæjarbragnum. Við erum öll almannavarnir.

     

2.

Aðgerðir Vestmannaeyjabæjar til handa fyrirtækjum og heimilum vegna Covid-19 - 202003103

 

Bæjarstjóri fór yfir þær efnahagsaðgerðir ríkistjórnarinnar sem snúa að sveitarfélögum. Ljóst er að stjórnvöld og aðrir opinberir aðilar þurfa að koma myndarlega að hvers konar tilslökunum, aðgerðum og framkvæmdum meðan veiran gengur yfir. Það kom fljótlega í ljós eftir að veiran greindist á Íslandi að atvinnulífið tók mikla dýfu. Það gera sér allir grein fyrir því að til þess að verja fyrirtæki og einstaklinga (heimilin) þarf hið opinbera að leggja til heilmikið fé og annars konar aðstoð. Ríkisstjórnin kynnti nýlega 230 milljarða kr. efnahagsagerðir sínar fyrir Ísland vegna veirunnar, sem fela m.a. í sér greiðslu launa til starfsfólks sem missir vinnu eða tekur á sig skert starfshlutfall, brúarlán til fyrirækja, frestun og afnám gjalda, styrkingu ferðaþjónustunnar, heimild til úttektar séreignasparnaðar, endurgreiðslu vsk. vegna framkvæmda og framkvæmdum flýtt. Sveitarfélög eru hvött til að samþykkja tilslakanir gjalda á íbúa og fyrirtæki og beita sér fyrir fjölgun starfa og annarra mótvægisaðgerða. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur unnið að gerð hugmynda og ábendinga um hvers konar aðgerðir sveitastjórnir geti gripið til.
Stjórnendur Vestmannaeyjabæjar hafa þegar hafið undirbúning að tilslökunum og öðrum aðgerðum til að létta birgðar heimila og fyrirtækja. Hægt er að grípa til nokkurra aðgerða strax, en aðrar þurfa meiri undirbúning. Lagðar voru fram eftirfarandi tillögur:

Strax:
Til að bregðast við fyrirsjáanlegum tímabundnum fjárhagserfiðleikum margra fyrirtækja og heimila í Vestmannaeyjum samþykkir bæjarráð að fresta næstu tveimur gjalddögum fasteignagjalda (fasteignaskatti, sorpeyðingargjaldi, holræsagaldi og lóðaleigu) og færa þá aftur fyrir áður auglýsta gjalddaga.
Bæjarráð samþykkir að gjalddagar fasteignagjalda 15. apríl og 15. maí n.k. koma því til greiðslu 15. desember 2020 og 15. janúar 2021. Næsti gjalddagur fasteignagjalda kemur til greiðslu 15. júní n.k.
Bæjarráð samþykkir að Vestmannaeyjabær innheimti aðeins gjöld fyrir þá þjónustu sem veitt er.

Það þýðir t.d. að ef foreldrar tilkynna að þeir sendi börn sín ekki í leikskóla á einhverju tímabili verða ekki innheimt leikskólagjöld fyrir umrætt tímabil.
Ennfremur samþykkir bæjarráð að fresta því til a.m.k. 25. apríl n.k. að senda út reikninga vegna þjónustu sem Vestmannaeyjabær hefur þegar veitt, t.d. leikskólagjöld og þjónustu leik- og grunnskóla. Með þessu gefst starfsmönnum bæjarskrifstofa færi á að öðlast betri yfirsýn yfir hvaða þjónusta er raunverulega notuð í apríl og að vinna leiðréttingar vegna þjónustu í marsmánuði sem hefur verið greitt fyrir en ekki nýtt.

Þá samþykkir bæjarráð að unnið verði að því að færa til framkvæmdir og viðhald á vegum bæjarins til þess að skapa einstaklingum störf og fyrirtækjum tekjur. Stjórnendur bæjarins hafa þegar lagt til að flýta nokkrum viðhaldsverkefnum í fjárhagsáætlunum bæjarins og ákveðið er að leita allra leiða til að færa til verkefni.

Næstu vikur og mánuði:
Skoða og undirbúa frekari framkvæmdir á árinu og að færa til framkvæmdir til þess að efla verkefnastöðu og atvinnu í Vestmannaeyjum. Þá haldi Vestmannaeyjabær áfram að leggja sig fram um að versla þjónustu og ráðgjöf í heimabyggð þegar þess er kostur. Kanna möguleika á þátttöku ríkisins við uppbyggingu innviða í Vestmannaeyjum og hvetja til þess að endurgreiðslu vsk. vegna framkvæmda og viðhaldsverkefna eigi jafnframt við um sveitarfélög.

Við gerð fjárhagsáætlunar Vestmannaeyjabær ársins 2021 verði kannað hvort unnt sé að lækka opinber gjöld fyrir veitta þjónustu sveitarfélagsins.

Leita leiða við að skapa störf í þjónustu og efla nýsköpun. Um er að ræða atvinnuátaksverkefni þar sem horft verði sérstaklega til starfstækifæra kvenna og erlendra íbúa í Vestmannaeyjum.

Ráðast verði í markaðsátak fyrir ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. Augum verði beint til innlendra ferðamanna næsta sumar.

Hvatt verði til hvers kyns nýsköpunar- og frumkvöðlastarfs með bættri aðstöðu fyrir fólk, sterkari innviðum og margvíslegri aðstoð, t.d. um vöru- og þjónustuþróun, fjármögnun verkefna og markaðsátaki.


Næstu mánuði eða ár:
Undirbúa fjárhagsáætlanir Vestmannaeyjabæjar til næstu ára þannig að framkvæmdir, hvatning og aðrar aðgerðir bæjarins taki mið af efnahagslegum bata þjóðarinnar og samkeppnishæfni. Hugsanlega kunni að koma til frekari fjárfestinga eða framkvæmda á þessum tíma.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir umræddar aðgerðir og áherslur næstu vikna og mánaða. Þá beinir bæjarráð því til fjölskyldu- og tómstundaráðs að skoða mögulegar heilsueflandi aðgerðir, þ.á.m. fræðslu og hvatningu til bæjarbúa, þar sem áhersla er lögð á þá hreyfingu og tómstundir sem íbúum stendur til boða í sveitarfélaginu margar hverjar án endurgjalds. Þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir í dag eru streituvaldandi og hafa neikvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan. Mikilvægt er að sveitarfélagið taki jafnframt þátt í viðspyrnu gegn neikvæðum heilsufarslegum afleiðingum faraldursins á samfélagið.

     

3.

Atvinnumál - 201909001

 

Atvinnumál í Vestmannaeyjum eru meðal verkefna sem viðbragðsstjórn bæjarins hefur einbeitt sér að undanfarna daga og vikur. Mikilvægt er að Vestmannaeyjabær hafi góða yfirsýn yfir stöðu atvinnumála í Vestmannaeyjum og bregðist við með þeim aðgerðum sem mögulegar eru við slíkar kringumstæður.
Bæjarstjóri og framkvæmdastjórar sviða hafa ákveðið að skipta með sér að úthringingum til fyrirtækja til þess að kanna stöðu þeirra (verkefnastöðu, starfsmannahald, uppsagnir, veikindi og sóttkví) sem og upplýsa þau um úrræði stjórnvalda og aðgerðir Vestmannaeyjabæjar. Um er að ræða fjölda fyrirtækja, en sjónum verður beint að þeim stærstu og fjölmennustu næstu daga.
Ljóst er að ástandið kemur þungt niður á fyrirtækjum, en fyrst við fyrirtæki í ferðaþjónustu. Stjórnendur Vestmannaeyjabæjar hafa átt í viðræðum við fulltrúa Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja um stöðuna í greininni og hugsanlegt markaðsátak fyrir þetta ár. Þá hafa Ferðamálasamtökin óskað eftir tilslökunum á opinberum gjöldum til handa fyrirtækjum í ferðaþjónustunni og/eða öðrum aðgerðum greininni til góða á þessum erfiðu tímum.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð hvetur stjórnendur bæjarins til þess að fylgjast áfram vel með þróun atvinnumála á næstunni og fagnar því að til standi að ráðast í markaðsátak í ferðaþjónustunni. Bæjarstjóri og framkvæmdastjóri stjórnsýlu- og fjármálasviðs hafa milligöngu um slíka samninga við Ferðamálasamtökin og felur bæjarráð bæjarstjóra að halda áfram með málið.

     

4.

Endurskoðun ráðstöfunar 5,3 % aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir - 201909060

 

Bæjarstjóri lagði fyrir umsögn Vestmannaeyjabæjar um vinnu við endurskoðun á meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð ítrekar óánægju og áhyggjur vegna vinnulags starfshópsins um endurskoðun 5,3% aflaheimildanna. Mikilvægt er að sjávarútvegsráðherra sé meðvitaður um álit Vestmannaeyjabæjar sem er einn af stærstu hagsmunaaðilum kerfisins.

     

5.

Óveður, bjargir og varaafl í Vestmannaeyjum - 202002059

 

Bæjarstjóri gerði grein fyrir bréfi til iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um nauðsyn á úrbótum á varaafli í Vestmannaeyjum. Ljóst er að úrbóta er þörf ef ekki eigi að skapast hætta á verulegu efnahagslegu tjóni komi til óveðurs eða annarra aðstæðna þar sem þörf er á varaafli.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð tekur undir álit um nauðsyn þess að hvetja til úrbóta á varaafli í Vestmannaeyjum og bréf bæjarstjóra til iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

     

6.

Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS - 201907118

 

Til upplýsinga var lögð fyrir bæjarráð fundargerð nr. 555 frá stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem haldinn var 6. mars sl.

     

7.

Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð - 200708078

 

Afgreiðsla trúnaðarmála er færð í sérstaka fundargerð.

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:32

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159