02.09.2019

Umhverfis- og skipulagsráð - 311

 
Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 311. fundur Umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja haldinn í fundarherbergi Umhverfis- og framkvæmdasviðs, 2. september 2019 og hófst hann kl. 16:05
 
 
Fundinn sátu:
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir formaður, Jónatan Guðni Jónsson aðalmaður, Drífa Þöll Arnardóttir aðalmaður, Margrét Rós Ingólfsdóttir aðalmaður, Eyþór Harðarson aðalmaður, Sigurður Smári Benónýsson starfsmaður sviðs og Ólafur Þór Snorrason framkvstj.sviðs.
 
 
Fundargerð ritaði: Sigurður Smári Benónýsson, skipulags-og byggingarfulltrúi
 
 
 
Dagskrá:
 
1. Deiliskipulag á athafnasvæði AT-1 við Græðisbraut. - 201901070
Tekin fyrir að nýju deiliskipulagstillaga á athafnasvæði AT-1. Deiliskipulagssvæðið afmarkast af Heiðarvegi til austurs, Norðursundi og aðliggjandi deiliskipulagsmörkum til norðurs, Flötum og lóðamörkum Heiðarvegar 14 og Faxastígs 36 til vesturs og Faxastíg til suðurs. Tillagna er unnin af skipulagshönnuðum Alta ehf. fyrir Vestmannaeyjabæ. Tillagan var auglýst frá 17. júlí til 28. ágúst 2019.
Fjögur bréf bárust ráðinu.
 
Niðurstaða
Í ljósi athugasemda frestar ráðið afgreiðslu erindis og felur skipulagfulltrúa að boða hagsmunaaðila til fundar við ráðið og skipulagsráðgjafa.
 
 
2. Vestmannabraut 56B. Breytt skipulag - bílgeymsla - 201906007
Að lokinni grenndarkynningu skv. 1. mgr. 43. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010 er lögð fram að nýju breytingartillaga deiliskipulags. Jón Ólafur Ólafsson Vestmannabraut 56b sækir um byggingarleyfi fyrir 38,5 m2 viðbyggingu (bílgeymslu) við austur gafl hússins. sbr. innsend gögn.
Tvö bréf bárust ráðinu.
 
Niðurstaða
Skipulagsráð samþykkir skipulagsbreytingu og byggingu bílskúrs á lóðinni.
 
Varðandi athugasemdir nágranna í bréfi dags. 27.7.2019 vill ráðið benda á að athugasemdir bréfritara varðandi fyrirhugaða byggingu að Vesturvegi 25 eiga ekki við deiliskipulagsbreytingu sem hér er til afgreiðslu.
 
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar.
 
 
3. Heimaklettur. Raforkustöð. - 201810088
Ingólfur Gissurarson f.h. ISAVIA ohf. óskar eftir leyfi fyrir raforkustöð á Heimaklett sbr. innsent bréf dags. 28.08.2019.
Isavia óskaði þann 11.07.19 eftir að staðsetja stöðina á flata sem er við topp Heimakletts, hnit T: E437059,910/N327827,583 og til vara á hnit B: E437040,107/N327810,317. Ráðið hafnaði þeirri beiðni þann 22.07.19 þar sem engin ný gögn bárust ráðinu en áður hafði ráðið samþykkt þann 31.10.2018 staðsetningu fyrir stöðina á hnit A: E437063,628/N327829,619.
Isavia óskar nú eftir sömu staðsetningu og óskað var eftir þann 11.07.19, að staðsetja stöðina á flata sem er við topp Heimakletts, hnit T: E437059,910/N327827,583 og til vara á hnit B: E437040,107/N327810,317. Frekari gögn bárust ráðinu.
 
Niðurstaða
Ráðið getur ekki heimilað umbeðna staðsetningu á raforkustöð hnit T: E437059,910/N327827,583 en heimilar tímabundið leyfi til 12 mánaða á hnit sem umbeðið var til vara hnit B: E437040,107/N327810,317, en sú staðsetning hefur engin sjónræn áhrif frá bænum.
Ráðið vill leggja ríka áherslu á vandaðan frágang og að röskun á svæðinu verði með minnsta móti. Þá skal Isavia fjarlægja aflagðan rafmagnskapal og ganga betur frá röskuðu svæði við ljósamastur og við önnur svæði sem jarðrask hefur verið vegna verksins. Allur frágangur skal vera í samráði við Umhverfis- og framkvæmdasvið. Mikilvægt er að ljúka vinnu við aðflugsljós á Heimakletti vegna öryggis í sjúkra- og farþegaflugi.
 
Samþykkt með 3 atkvæðum H- og E-lista gegn tveimur atkvæðum D-lista.
 
Fulltrúar D-lista bóka:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma framgöngu Isavia í þessu máli. Að hefja gröft á tveimur mismunandi stöðum á toppi Heimakletts án leyfis er óafsakanlegt þar sem sjónræn áhrif eru mikil. Ef Isavia telur sig ekki geta nýtt sér þá staðsetningu sem fyrst var leyfð með sem minnstum sjónrænum áhrifum, þá er vel hægt að leysa umrætt mál með minna inngripi en að setja byggingu á Heimaklett. Undirrituð telja að besta lausnin sé sú að leggja rafmagnskapal að umræddu ljósi og tryggja þannig það öryggi sem nauðsynlegt er vegna flugsamgangna.
Eyþór Harðarsson (sign)
Margrét Rós Ingólfsdóttir (sign)
 
 
4. Stórhöfði - myndavél á Lundakofann - 201908172
Íris Sif Hermannsdóttir f.h. Eyjatours sækir um leyfi til að setja upp myndavél á Lundakofann í Stórhöfða sbr. innsent bréf. Hugmynd umsækjenda er að senda út lifandi myndir af lundabyggðinni á opnu vefsvæði.
 
Niðurstaða
Ráðið getur ekki orðið við erindinu og felur starfsmönnum Umhverfis- og framkvæmdasviðs að ræða við tilheyrandi aðila og marka stefnu um uppsetningu vefmyndavéla á landsvæði sveitafélagsins.
 
 
5. Gerðisbraut 3. Umsókn um byggingarleyfi - einbýlishús - 201908217
Tekið fyrir erindi lóðarhafa Gerðisbraut 3. Birkir Ingason og Lísa Margrét Þorvaldsdóttir sækja um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi sbr. innsend gögn.
 
Niðurstaða
Skipulagsráð samþykkir með tilvísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að framlögð tillaga verði grenndarkynnt lóðarhöfum Gerðisbraut 1,2,4,5,6 og Nýjabæjarbraut 1,3,4a,6a,8a,10.
 
 
6. Garðavegur 14. Umsókn um byggingarleyfi - viðbygging - 201908070
Bragi Magnússon fh. húseigenda sækir um byggingarleyfi fyrir stækkun á móttöku til norðurs á fiskvinnslu Leo Seafood Garðavegi 14 í samræmi við innsend gögn.
 
Niðurstaða
Erindi samþykkt
 
 
7. Fífilgata 3. Umsókn um byggingarleyfi - bílgeymsla - 201908077
Magni Freyr Hauksson sækir um byggingarleyfi fyrir bílgeymslu í samræmi við innsend gögn. Fyrir liggur samþykki meðeigenda Fífilgötu 3.
 
Niðurstaða
Skipulagsráð samþykkir með tilvísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að framlögð tillaga verði grenndarkynnt lóðarhöfum Fífilgötu 2,5,8 og Vestmannabraut 5 og Heimagötu 22,24
 
 
8. Nýjabæjarbraut 7a-b. Umsókn um parhúsalóð - 201908121
Þórður Svansson fh. Trélist ehf. sækir um parhúsalóð nr. 7a-b við Nýjabæjarbraut.
 
Niðurstaða
Ráðið samþykkir að úthluta lóð. Umsækjandi skal skila fullnægjandi teikningum fyrir 1. apríl 2020.
 
 
9. Smáragata 34 - Krafa um úrbætur - 201905113
Starfsmenn Umhverfis- og framkvæmdasviðs fara yfir stöðu Smáragötu 34 og næstu skref í máli nr. 201905113 sem fór fyrir 305 fund ráðsins.
 
Niðurstaða
Ráðið ítrekar áhyggjur sínar af ástandi Smáragötu 34 þar sem kröfum sveitafélagsins um framkvæmdaáætlun og úrbætur hefur ekki verið sinnt af umráðanda hússins.
Ráðið gerir kröfu um að framkvæmdaáætlun liggi fyrir eigi síðar en 12. september, að öðrum kosti verði gripið til þess að leggja á dagsektir sbr. ákæði gr. 2.9.2 í byggingarreglugerð nr.112/2012 frá þeim degi.
 
 
10. Umhverfisviðurkenningar 2019 - 201907017
Umhverfisverðlaun Vestmannaeyja 2019 voru afhent 22. ágúst í Pálsstofu. Óskað var eftir tilnefningum frá bæjarbúum og dómnefnd frá Vestmannaeyjabæ og Rótarýklúbb Vestmannaeyja yfirfór þær tilnefningar sem komu.
Viðurkenningarhafar árið 2019 eru:
Snyrtilegasta fyrirtækið: Varmadælustöðin Hlíðarvegi 4, HS Veitur.
Snyrtilegasti Garðurinn: Vestmannabraut 51a, Guðný Óskarsdóttir.
Snyrtilegasta eignin: Stuðlaberg við Höfðaveg, Kristjana Jónsdóttir og Guðjón Ásgeir Helgason.
Vel heppnaðar endurbætur: Haukagil Hilmisgötu 3, afkomendur Ástþórs Runólfssonar frá Laufási.
Snyrtilegasta gatan: Vestmannabraut
 
Niðurstaða
Umhverfis- og skipulagsráð óskar þeim sem viðurkenningu hlutu til hamingju. 
Umhverfis- og skipulagsráð vill einnig þakka starfsmönnum þjónustumiðstöðvar Vestmannaeyjabæjar, íbúum og fyrirtækjum fyrir góða umhirðu í bænum og þá sérstaklega í miðbænum. Bærinn okkar er vel hirtur og til mikillar prýði.
 
 
11. Umhverfis Suðurland - 201808156
Umhverfis Suðurland er sameiginlegt átak sveitarfélaganna fimmtán á Suðurlandi og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem gengur út á öflugt hreinsunarátak þar sem íbúar, fyrirtæki og sveitarfélög í landshlutanum eru hvött til enn meiri flokkunar og endurvinnslu en nú er. Alþjóðlegi strandhreinsunardagurinn er sameiginlegt átak þar sem íbúar heimsins hreinsa rusl af ströndum hafsins en hann er 21. september.
 
Niðurstaða
Ráðið hvetur íbúa, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir til að taka þátt í átaksverkefninu. Svæðið við Torfmýri við golfvöll verður hreinsað. Mæting er klukkan 11.00. Að lokinni hreinsun verður grillað. Viðburður verður auglýstur á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar.
 
Auk þess hvetur ráðið heimili til að vera með í verkefninu Plastlaus september í samfloti með Grunnskóla Vestmannaeyja.
 
Einnig vill ráðið hrósa Erlu Einarsdóttur og Ágústu Huldu Árnadóttur fyrir framtak sitt en þær hafa saumað þrjú þúsund margnota innkaupapoka sem bæjarbúar hafa fengið til afnota að kostnaðarlausu. Þetta er gott dæmi um það hvað bæjarbúar geta lagt að mörkum fyrir bæjarfélagið.
 
 
12. Siðareglur kjörinna fulltrúa Vestmannaeyjabæjar - 201505010
Kynning á siðareglum kjörinna fulltrúa Vestmannaeyjabæjar.
 
Niðurstaða
Siðareglur kjörinna fulltrúa lagðar fram til kynningar fyrir fulltrúa í Umhverfis- og skipulagsráði.
 
 
 
 
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:40
 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159