20.08.2019

Bæjarráð - 3106

 
 Bæjarráð Vestmannaeyja - 3106. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

20. ágúst 2019 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður, Elís Jónsson varamaður, Helga Kristín Kolbeins varamaður og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Breytingar á bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar - 201906047

 

Bæjaráð átti þann 12. ágúst sl., vinnufund með Sesselju Árnadóttur, stjórnsýsluendurskoðanda Vestmannaeyjabæjar, þar sem farið var yfir þær ábendingar sem hún hafði gert við bæjarmálsamþykktina, sem síðast var breytt 2014. Ákveðið var á þeim fundi að vinna áfram að breytingunum og jafnframt að fara í frekari breytingar á bæjarmálasamþykktinni, þ.e. að fara í gegnum allar greinar hennar.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja að fara í endurskoðun á bæjarmálsamþykktinni í samræmi við tillögur bæjarráðs um vinnulag.

     

2.

Umræða um samgöngumál - 201212068

 

Bæjarráð hefur áður lýst áhyggjum sínum af stöðu flugsamgangna til Vestmannaeyja í vetur og af stöðu innanlandsflugs almennt. Öflugt innanlandsflug er ein forsenda fyrir dreifðri byggð í landinu og nú er orðið ljóst að ekki er aðeins verið að fækka flugferðum til Vestmannaeyja heldur einnig annarra áfangastaða á landinu.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð hvetur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fjármálaráðherra til að tryggja svokallaða skosku leið sem er niðurgreiðsla á flugfargjöldum fyrir fólk sem býr fjarri höfuðborginni. Góðar flugsamgöngur eru nauðsynlegar til að tryggja aðgang íbúa landsbyggðarinnar að nauðsynlegri og sérhæfðri þjónustu sem aðeins er í boði á höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægt er að skoska leiðin verði innleidd eigi síðar en í ársbyrjun 2020 líkt og kveðið er á um í samgönguáætlun. Til þess að flugið verði að raunhæfum valkosti þarf að koma til umtalsverð lækkun á flugfargjöldum og er skoska leiðin ein leið til þess.

     

3.

Grænbók um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á íslandi - 201908041

 

Þann 26. júlí sl. birtist í samráðsgátt stjórnvalda, til umsagnar, Grænbók um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi. Frestur til athugasemda var til og með 16. ágúst sl.

Í inngangi að málinu kemur fram að "í september 2018 skipaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra verkefnisstjórn til að vinna að mótun flugstefnu fyrir Ísland en slík stefna hefur ekki verið mótuð áður með heildstæðum hætti. Mikil og aukin umsvif flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi hér á landi á undanförnum árum hafa kallað á slíka stefnumörkun en samræmd stefna í málefnum flugs og flugtengdrar starfsemi styður við stefnumörkun samgönguáætlunar. Í samgönguáætlun felst grundvallarstefnumótun ríkisins í öllum greinum samgangna, sbr. nánar ákvæði laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008."

Markmið með gerð flugstefnu er að skapa umhverfi sem viðheldur grunni fyrir flugrekstur og flugtengda starfsemi á Íslandi, hvort sem er núverandi eða nýja starfsemi, styður vöxt hennar að því marki sem það er þjóðhagslega hagkvæmt og eykur atvinnusköpun.

Starfshópurinn hefur skilað af sér drögum að grænbók. Er þar annars vegar um að ræða greiningu á stöðunni í málaflokknum í dag og einnig tillögur að áherslum til framtíðar. Er almenningi og hagsmunaaðilum boðið að gefa umsögn um drög að grænbókinni og leggja fram sín sjónarmið um áherslur í flugmálum til framtíðar.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarstjóri hefur óskað eftir því við samgöngu-og sveitarstjórnaráðuneytið að framlengja frest til umsagnar við grænbókina, þannig að ráðrúm gefist til umræðu og ályktana um hana og þær tillögur sem þar koma fram. Er þar með tekið undir með öðrum sveitarfélögum sem gagnrýnt hafa tímasetningu og stuttan frest til að skila inn umsögnum. Vestmannaeyjabær hefur fengið frest til að senda umsögn til 31. ágúst nk. Framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs falið að senda öllum bæjarfulltrúum grænbókina og gefa þeim tækifæri að senda athugasemdir.

     

4.

Umræða um heilbrigðismál - 201810114

 

Díana Óskarsdóttir hefur verið skipuð nýr forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarstjóra er falið að óska eftir fundi, fyrir hönd bæjarráðs, með nýjum forstjóra sem fyrst til að fara yfir málefni og stöðu Helbrigðistofnunar Suðurlands í Vestmannaeyjum.

     

5.

Beiðni um umsögn vegna rekstrarleyfis fyrir Herjólf IV - 201907064

 

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn Guðbjarts Ellerts Jónssonar f.h. Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. um rekstrarleyfi Herjólfs IV (nýju ferjuna) vegna reksturs veitingastaðar í flokki II í M/S Herjólfi.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að aðrir umsagnaraðilar veiti umsókninni einnig jákvæða umsögn.

     

6.

Ársskýrsla stjórnar Stafkirkjunnar - 201908018

 

Lögð var fram til upplýsinga árskýrsla og ársreikningur Stafkirkjunnar fyrir árið 2018

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar

     

7.

Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð - 200708078

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:00

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159