30.04.2019

Bæjarráð - 3099

 
 

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3099. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

30. apríl 2019 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Trausti Hjaltason aðalmaður, Elís Jónsson 1. varamaður og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Umræða um samgöngumál - 201212068

 

Bæjarráð fór yfir stöðuna í dýpkunarmálum Landeyjahafnar og það sem gerst hefur síðastliðna viku í þeim efnum. Viðræður standa yfir við Vegagerðina um framhald dýpkunar í höfninni. Vonir standa til að höfnin opni loksins í þessari viku og að hægt verði að sigla fulla áætlun sem eru sjö ferðir á dag.

Bæjarráð hvetur Vegagerðina til þess að klára viðræður við pólsku skipasmíðastöðina sem allra fyrst þannig að hægt sé að sigla nýjum Herjólfi til heimahafnar í Vestmannaeyjum.

     

2.

Tillaga héraðsskjalavarða um sameiningu fjögurra skjalasafna á Suðurlandi - 201903067

 

Bæjaryfirvöldum í Vestmannaeyjum barst bréf fjögurra forstöðumanna héraðsskjalasafna á Suðurlandi um sameiningu héraðsskjalasafna; a) Árnesinga; b)Austur-Skaftfellinga; c) Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga og d) Vestmannaeyja undir eitt öflugt skjalasafn til hagsbóta fyrir viðkomandi sveitarfélög og skjalasöfnin.

Með lögum um opinber skjalasöfn sem samþykkt voru á Alþingi árið 2014 voru ríkar skyldur lagðar á skjalasasöfn í tengslum við eftirlits- og ráðgjafahlutverk safnanna og varðveislu skjala óháð formi. Úrbóta er þörf t.d. vegna tilkynninga á rafrænum kerfum og gagnagrunnum. Með sameiningu skapast sóknarfæri til að takast betur á við lögbundið hlutverk safnanna og gera þau faglegri. Stærri rekstrareining mun auka fagþekkingu á sviði skjalavörslu og skjalahalds, þvert á sveitarfélög. Meiri sérhæfing innan stærri og öflugri stofnunar getur bætt skilvirkni og verklag og eflt þjónustustig. Lagt er til að byggja upp öfluga miðstöð (meginskjalasafn) á einum stað og að til staðar verði þjónustumiðstöðvar þar sem nú eru skjalasöfn þar sem notendur geta afhent skjöl, nálgast skjöl og fengið faglega og góða aðstoð.

Nýlega fór fram fundur með nokkrum kjörnum fulltrúum umræddra sveitarfélaga og ábyrgðarfólki um héraðsskjalasöfnin fjögur, til þess að fjalla um tillögu héraðsskjalavarðanna. Var ákveðið að leita til skjalastjóranna um nánari samantekt og ítarlegri tillögur um sameiningu eða aukna samvinnu. Jafnframt var ákveðið að beina því til sveitarstjórnarmanna að fjalla um málið á fundi Sambands sunnlenskra sveitarfélaga sem haldinn verður í haust.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir að kanna nánar kosti og galla sameiningar og aukinnar samvinnu héraðsskjalasafna á Suðurlandi.

     

3.

Umsagnir frá Alþingi - bæjarráð - 201904142

 

Atvinnuveganefnd Alþingis sendi Vestmannaeyjabæ til umsagnar frumvarp til laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald (stjórnvaldssektir og eftirlit með gististarfsemi) með ósk um að hugsanleg umsögn berist eigi síðar en 2. maí nk.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar kynninguna og telur ekki tilefni til að senda sérstaka umsögn um frumvarpið.

     

4.

Bæjarlistamaður Vestmannaeyja 2019 - 201904050

 

Bæjarráð fjallaði um val á bæjarlistamanni Vestmannaeyja árið 2019.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð lýsir ánægju með þann fjölda og fjölbreytni listamanna sem ýmist sóttu um eða voru tilnefndir sem bæjarlistamaður Vestmannaeyja á þessu ári. Ljóst er heilmikil gróska er í menningu og listum í Eyjum. Bæjarráð tók ákvörðun um bæjarlistamann úr þessum hópi frábærra listamanna, en tilkynnt verður um valið þann 1. maí nk. kl. 11:00 í Einarsstofu.

     

5.

Hjallastefnan - uppgjör vegna breytinga á A deild Brúar lífeyrissjóðs - 201904195

 

Vestmannaeyjabæ barst bréf frá Brú lífeyrissjóði þar sem óskað er eftir uppgjöri á ógreiddu framlagi til jafnvægissjóðs og varúðarsjóðs vegna breytinga á A deild Brúar lífeyrissjóðs. Með lagabreytingum sem tóku gildi 1. janúar 2017, þurftu launagreiðendur sem greitt höfðu til A-deildar sjóðsins að greiða framlag í jafnvægissjóð, lífeyrisaukasjóð og varúðarsjóð. Framlag vegna jafnvægissjóðs og varúðarsjóðs vegna Hjallastefnunnar er enn ógreitt og því hefur lífeyrissjóðurinn óskað eftir uppgjöri á umræddum kröfum að fjárhæð rétt rúmum 6 m.kr. Öðrum sveitarfélögum sem samið hafa við Hjallastefnuna um rekstur leikskóla hefur verið send samskonar krafa og hafa nokkur sveitarfélögin þegar gert upp við lífeyrissjóðinn.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir að gera upp við lífeyrissjóðinn vegna Hjallastefnunnar og felur fjármálastjóra að ganga frá greiðslunni.

     

6.

Umræða um úttekt á framkvæmdum - 201901041

 

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 14. janúar sl., að fela endurskoðendum reikninga bæjarins (KPMG) heildarúttekt á áætluðum kostnaði og heildarkostnaði vegna framkvæmda við Fiskiðjuna á árunum 2015 til 2018. Minnisblað KPMG var sent Vestmannaeyjabæ þann 8. apríl sl.

   
 

Niðurstaða

 

Meginniðurstöður KPMG á framkvæmdunum við Fiskiðjuna eru þær að undirbúningur kostnaðaráætlunar hefði mátt vera markvissari, sem og framkvæmdaáætlun og áætlun um nýtingu hússins, þar sem dreginn hefði verið fram áætlaður kostnaður og áætlaðar tekjur í því skyni að undirbúa fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins á hverjum tíma. Auk þess hefði eftirlit með framvindu verkefnisins mátt vera markvissara þannig að tryggt hefði verið að bæjarstjórn hefði forsendur til að bregðast við frávikum frá fjárheimildum með samþykkt viðauka. Þá liggur fyrir að þó nokkur frávik eru frá samþykktri fjárhagsáætlun ásamt viðaukum, eða allt að 54%. Fram kemur í minnisblaðinu að samtals nema fjárhagsáætlanir með viðaukum um framkvæmdir í Fiskiðjuhúsinu 574 m.kr. á árunum 2015-2018, en raunkostnaður var um 609 m.kr. á sama tímabili.

Bæjarráð vill leggja áherslu á að vandað verði til verks við undirbúning framkvæmda á vegum bæjarins og að bæjaryfirvöld bæti vinnubrögð og áætlanagerð þegar um fjárfrekar framkvæmdir er að ræða. Hægt er að draga lærdóm af athugasemdum KPMG á framkvæmdum við Fiskiðjuna og hafa þær í huga við áætlanagerð í framtíðinni.
Samþykkt með tveimur atkvæðum H- og E-lista gegn einu atkvæði D-lista.

Bókun
Fulltrúi D-lista lagði fram eftirfarandi bókun: Það er miður að það hafi þurft að eyða öllum þessum tíma og orku starfsmanna í að velta sér uppúr hlutum sem eru löngu liðnir. Með umræddri úttekt hefur meirihluti H- og E- lista dregið úr trúverðugleika verkefnisins, embættismenn og verktakar sveitarfélagsins gerðir tortryggilegir, allt vegna fjárhagsáætlunar sem stóðst nánast uppá krónu, eða var 0,2% undir fjárhagsáætlun þegar upp var staðið.
Allar kostnaðartölur og upplýsingar um málið lágu fyrir áður en kalla þurfti til enn einnar fjárfreku úttektarinnar af hálfu H- og E-lista. Betur færi á því að fulltrúar H- og E- lista myndu horfa fram á vegin og eyða kröftum í uppbyggingu og aukna möguleika, líkt og að frjóvga jarðveg til nýsköpunar, stuðla að jákvæðu umtali um Vestmannaeyjar sem barnvænan búsetukost slíkt væri sveitarfélaginu mun fremur til heilla, frekar en þær nornaveiðar sem hér hafa átt sér stað og skaðað sveitarfélagið til lengri tíma.
(Sign. Trausti Hjaltason).

Bókun:
EFtirfarandi bókun var lögð fram af fulltrúum H- og E-lista: Aðal markmið úttektarinnar er að draga lærdóm af þeim athugasemdum sem endurskoðandi bæjarins gerir og tryggja að bæjarstjórn sé vel upplýst um kostnað framkvæmda á vegum bæjarins. Það verður að teljast í besta falli sérstakt að fulltrúi minnihlutans í bæjarráði, ráðs sem ber að hafa eftirlit með fjárútlátum sveitarfélagsins, vilji ekki taka mark á niðurstöðum KPMG um það sem betur hefði mátt fara við áætlunargerð við framkvæmdir í Fiskiðjunni. Þess í stað kýs fulltrúi minnihlutans að kasta rýrð á úttektina.
(Sign. Njáll Ragnarsson og Elís Jónsson)

Bókun
Eftifarandi bókun var lögð fram af fulltrúa D-lista: Úttektin staðfestir yfir allan vafa að fjárhagsáætlunargerð og vinnubrögð við framkvæmdir við Fiskiðjuna stóðust með öllu og voru á engan hátt óeðlileg líkt og bæjarfulltrúar H- og E-lista hafa ýjað að. Niðurstaða minnisblaðsins er að heildarkostnaðurinn sé 35,5 milljónum umfram áætlun eða 6,2% framúrkeyrsla.
Athygli vekur að úttektaraðili lætur hjá liða að taka með í útreikninga sína viðauka sem samþykktur var í bæjarráði þann 21. desember árið 2016 uppá 37 milljónir vegna framkvæmda í Fiskiðjunni. Þar var fært fjármagn milli liða þar sem að framkvæmdir ársins 2016 voru töluvert innan fjárhagsáætlunar það árið. Undirritaður sat þann bæjarráðsfund og hefur gögn sem staðfesta þennan viðauka við fjárhagsáætlun. Sé tekið tillit til þess lögmætt staðfesta viðauka af hálfu bæjarráðs var heildarkostnaður við verkið 1,5 milljón undir fjárhagsáætlun eða rétt rúmum 0,2% undir fjárhagsáætlun.
(Sign. Trausti Hjaltason)

     

7.

Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð - 200708078

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:45

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159