19.03.2019

Bæjarráð - 3095

 
 Bæjarráð Vestmannaeyja - 3095. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

19. mars 2019 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir aðalmaður, Trausti Hjaltason aðalmaður og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Almenn umræða um stöðu loðnuveiða 2019 - 201902130

 

Á fundi bæjarstjórnar þann 28.febrúar sl., fól bæjarstjórn fjármálastjóra Vestmannaeyjabæjar að fara yfir fjárhagsleg áhrif yfirvofandi loðnubrests og meta hvort að forsendubrestur sé fyrir tekjuáætlun fjárhagsáætlunar aðalsjóðs og hafnarsjóðs. Fyrir bæjarráði liggur minnisblað um áhrif loðnubrests á fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar.

   
 

Niðurstaða

 

Ljóst er að loðnubresturinn hefur töluverð efnahagsleg áhrif á samfélagið í Eyjum. Fyrir utan tekjuskerðingu fyrirtækja má gera ráð fyrir að starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækjanna tveggja verði af 620-630 m.kr. launatekjum og slíkt hefur að sjálfsögðu mjög mikil efnahagsleg áhrif. Áætla má að útsvarstekjur Vestmannaeyjabæjar skerðist um rúmar 90 m.kr. og þá á eftir að taka tillit til tapaðra útsvarstekna sem tilkomnar eru vegna launatekna í afleiddri starfsemi. Ekki liggja fyrir forsendur til að áætla slíkt tap, en 5-10 ársverk iðnaðarmanna gæti þýtt tapaðar útsvarstekjur að fjárhæð 7-14 m.kr. Auk þess má gera ráð fyrir að Vestmannaeyjahöfn verði af tekjum um 33 til 41 m.kr. Þar sem tekjur eru varlega áætlaðar í fjárhagsáætlun ársins 2019 er niðusrtaða matsins á þá leið að loðnubresturinn einn og sér hafi ekki í för með sér forsendubrest á tekjuhlið fjárhagsáætlunar Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2019. Hins vegar er ekki er svigrúm til mikið fleiri áfalla í tekjuáætlun Vestmannaeyjabæjar. Verði tekjurnar í samræmi við áætlun, í stað línulegrar hækkunar undanfarinna ára, mun það hafa töluverð áhrif á rekstur bæjarins.
Vestmannaeyjabær, Þekkingarsetur Vestmannaeyja og fyrirtæki í sjávarútvegi munu standa fyrir opnum fundi þann 26. mars nk., þar sem farið verður yfir áhrif loðnubrests og stöðuna.
Samþykkt með tveimur atkvæðum H og E lista, gegn einu atkvæði D lista.

Bókun
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði lagði fram eftirfarandi bókun: Nú liggur fyrir að loðnubrestur mun verða í sjávarútvegi með tilheyrandi óvissu, einnig ber að nefna að mikil skerðing er á kvóta í humri á þessu ári. Í þessu samhengi má nefna að um þriðjungur loðnukvótans er í Vestmannaeyjum. Fjöldi kjarasamninga eru lausir, ásamt því að yfirvofandi er skerðing framlaga úr Jöfnunarsjóði upp á tugi milljóna fyrir Vestmannaeyjabæ.

Samkvæmt minnisblaðinu er áætlað að tekjur sveitarfélagsins kunni að skerðast um allt að 145 milljónir vegna loðnubrests. Í minnisblaðinu kemur einnig fram að ekki verði horft fram hjá því að ekki sé svigrúm til frekari áfalla í tekjuáætlun Vestmannaeyjabæjar og verði tekjurnar í samræmi við áætlun í stað línulegrar hækkunar muni það hafa mikil áhrif á rekstur bæjarins.

Þessa samantekt fjármálastjóra ber að taka alvarlega og er full ástæða til að bregðast við sem fyrst af festu og yfirvegun með aðgerðum til hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins.

Afgreiðsla fulltrúa E- og H- lista á minnisblaðinu á þann máta að ekki sé þörf á neinum aðgerðum varðandi fjárhagsáætlun sveitarfélagsins er óábyrg. Sérstaklega í ljósi þess að rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs er nú þegar neikvæð um rúmar 32 milljónir fyrir fjármunatekjur. Sú rekstrarniðurstaða verður því í mínus 177 milljónum fyrir fjármunatekjur gangi áætlun fjármálastjóra um tekjumissi eftir. Slíkt kallar eðli málsins samkvæmt á hagræðingaraðgerðir í rekstri.
(Sign. Trausti Hjaltason).

Bókun
Fulltrúar E og H lista lögðu fram eftirfarandi bókun: Fulltrúar E- og H- lista treysta mati fjármálastjóra bæjarins um að ekki sé ástæða til þess að taka upp fjárhagsáætlun þar sem tekjutap sem hlýst af loðnubresti felur ekki í för með sér forsendubrest fjárhagsáætlunar.
Að sjálfsögðu ber að taka tekjutapi bæjarins alvarlega og verður náið fylgst með gangi mála í sjávarútvegi á næstu misserum 
(Sign. Njáll Ragnarsson)
(Sign. Jóna Sigríður Guðmundsdóttir)

     

2.

Bókun stjórnar sambandsins vegna áforma fjármálaráðherra að skerða tekjur jöfnunarsjóðs og mat á áhrifum á einstök sveitarfélög - 201903109

 

Bæjarráð fjallaði um bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 15. mars sl., vegna áforma fjármálaráðherra og ríkissjórnarinnar um að skerða tekjur jöfnunarsjóðs. Kemur m.a. fram í umræddri bókun að stjórnin mótmæli harðlega fyrirætlun fjármála- og efnahagsráðherra um að skerða framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um 3,3 ma.kr.(innsk. 2,8 ma.kr.) á næstu tveimur árum, ekkert samráð hafi verið að sambandið og þess krafist að boðuð áform gagnvart sveitarfélögum verði dregin til baka. Jafnframt fjallaði bæjarráð um minnisblað sem Sambandið tók saman með skýringum á fyrirhugaðri skerðingu og mati á áhrifum hennar á einstök sveitarfélög. Kemur m.a. fram að tekjutap Vestmannaeyjabæjar fyrir 2020 og 2021 vegna útgjaldajöfnunar og fasteignaskatts nemi um 80 m.kr. og framlög til málefna fatlaðra lækki um 2,5 m.kr.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð Vestmannaeyja mótmælir harðlega þeim áformum fjármálaráðherra og ríkisstjórnar að skerða framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um a.m.k. 2,8 milljarða á árunum 2020 og 2021. Skerðingin kemur harðast niður á útgjaldajöfnunarframlögum, en þau renna einkum til sveitarfélaga á landsbyggðinni sem hafa mörg hver veikan fjárhag. Skerðingin kemur einnig niður á framlögum til þjónustu við fatlað fólk og getur falið í sér að dregið verði úr þeirri þjónustu.
Áætlað tekjutap sveitarfélaga á Suðurlandi af framlögum til útgjaldajöfnunar og vegna fasteignaskatts er tæpar 505 m.kr. og vegna málefna fatlaðra 29 m.kr. Framlög til málefna fatlaðra hafa ekki staðið undir rekstrarkostnaði og bætir þetta ekki stöðu þess málaflokks.
Einhliða ákvörðun ríkisvaldsins af þessu tagi er í andstöðu við það formlega samráðsferli ríkis og sveitarfélaga sem hefur þróast á undanförnum árum og fela áform þessi í sér algeran trúnaðarbrest gagnvart sveitarfélögunum í landinu. Ekki getur með nokkrum hætti talist eðlilegt að áhersla á að bæta afkomu ríkissjóðs skili sér í skerðingum á tekjum sveitarfélaganna, sem standa undir mjög stórum hluta almannaþjónustu í landinu.

     

3.

Sláttuvél á íþróttavelli - 201903012

 

Bæjarráð tók fyrir afgreiðslu framkvæmda- og hafnarráðs frá 5. mars sl., þar sem fram kemur að endurnýja þurfi sláttuvél fyrir knattspyrnuvelli bæjarins. Kostnaður er allt að 8 m.kr., en ekki er gert ráð fyrir þessu í fjárhagsáætlun ársins 2019. Ráðið óskar eftir því við bæjarráð að veitt verði aukafjárveiting að upphæð 8 m.kr. til kaupa á sláttuvél fyrir knattspyrnuvelli bæjarins.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir erindið og felur fjármálastjóra að útbúa viðauka við fjárhagsáætlun 2019 vegna endurnýjunar á sláttuvél fyrir knattspyrnuvelli bæjarins.

     

4.

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, 86. mál. - 201903058

 

Bæjarráð tók fyrir erindi umhverfis- og samgöngunefndar ALþingis um umsögn um tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðareiðslu um hvort flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs skuli áfram vera í Vatnsmýrinni í Reykjavík.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð er sammála flutningsmönnum tillögunnar um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reyljavíkurflugvallar og þjóðin fái tækifæri til þess að segja hug sinn um málið. Ríkir almannnahagsmunir felast í greiðum samgöngum og staðsetning flugvallarins og miðstöðvar innanlandsflugs hefur mikla þýðingu í því sambandi. Því er mikilvægt að þjóðin öll eigi þess kost að hafa áhrif á staðsetningu flugvallarins á höfuðborgarsvæðinu.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma bókun ráðsins á framfæri við Alþingi.

     

5.

Samningur Vestmannaeyjabæjar og Umhverfis- og auðlindarráðuneytisins um rekstur Náttúrustofu Suðurlands - 201802007

 

Lagður var fyrir bæjarráð til upplýsinga, samningur milli Vestmannaeyjabæjar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um rekstur Náttúrustofu Suðurlands. Um er að ræða endurnýjun á samskonar samningi áranna á undan um stofuna. Í samningnum er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til reksturs Náttúrustofunnar fyrir árið 2019 nemi 20,7 m.kr. Jafnframt er í samningnum gert ráð fyrir að Vestmannaeyjabær leggi fram a.m.k. 30% af framlagi ríkisins til reksturs stofunnar eða sem nemur 6,2 m.kr.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar

     

6.

Endurgjald til fyrrum stofnfjáreigenda Sparisjóðs Vestmannaeyja vegna samruna sparisjóðsins og Landsbankans. - 201504034

 

Bæjarstjóri greindi frá símafundi sínum með lögmanni Vestmannaeyjabæjar, Vinnslustöðvarinnar og Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja sem haldinn var 18. mars. sl., um stöðu málareksturs á hendur Landsbankans vegna endurgjalds til fyrrum stofnfjáreiganda Sparisjóðs Vestmannaeyja vegna samruna hans og Landsbankans. Kom m.a. fram á þeim fundi að fyrirtaka í héraðsdómi fari fram mánudaginn 8. apríl nk. Ekki sé von á miklum tíðundum af þeirri fyrirtöku og ekki ólíklegt að málsaðilar óski eftir fresti til frekari gagnaöflunar.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og felur bæjarstjóra að fylgjast grant með málinu.

     

7.

Umræða um samgöngumál - 201212068

 

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. kom á fund bæjarráðs og greindi frá stöðu undirbúnings félagsins á yffirtöku á rekstri Herjólfs og nýrrar Vestmannaeyjaferju. Kom m.a. fram að félagið telur sig undir það búið að taka yfir rekstur Herjólfs þann 30. mars nk. Búið er að ganga frá ráðningarsamningum nær allra áhafna ferjunnar (skipstjóra, vélstjóra, stýrmanna og háseta), en enn er verið að vinna að vaktaplani fyrir afgreiðslufólk félagsins og þegar það liggur fyrir verða ráðningarsamningar kláraðir. Einnig kom fram í máli Guðbjarts Ellerts að búast megi við tæknilegum hnökrum éinhvera daga í tenglsum við yfirfærslu rekstursins til félagsins.

Bæjarstjóri fór yfir stöðuna á nýrri Vestmannaeyjaferju, fund með vegamálastjóra og dýpkun hafnarinnar. Á fundi með vegamálastjóra kom fram að enn er ákveðnum atriðium ólokið varðandi framkvæmdir á skipinu og enn er eftir að ljúka samningum um ákveðin aukaverk. Upplýsingar um afhendingu ferjunnar munu skýrast frekar síðar í þessari viku. Gefið hefur verið út að skipið verði tilbúið 29. mars nk. Dýpkun Landeyjarhafnar gengur hægar en vonir stóðu til. Bæjarstjóri hefur komið á framfæri að afkastageta verktakans við dýpkunina sé óásættanleg. Bæjarstjóri upplýsti um að von er á vegamálastjóra á fund bæjarstjórnar Vestmannaeyja í næstu viku.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð lýsir óánægju með ekki sé enn búið að opna Landeyjarhöfn, þrátt fyrir að margir dagar hafi gefist til dýpkunar á undanförnum vikum. Afkastageta verktakans við dýpkun er með öllu óásættanleg og því miður sannast nú þær áhyggjur sem bæjarstjórn Vestmannaeyja hafði margbent á varðandi afkastagetuna.

     

8.

Beiðni um umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi fyrir Leikfélag Vestmannaeyja - 201903054

 

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn Unnar Guðgeirsdóttur um rekstrarleyfi fyrir Leikfélag Vestmannaeyja vegna reksturs veitingastaðar í flokki II, í Kviku við Heiðarveg 19.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að aðrir umsagnaraðilar, þ.e. Slökkvilið Vestmannaeyja, skipulags- og byggingarfulltrúi og heilbrigðisfulltrúi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, veiti einnig jákvæða umsögn.

Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfið á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

     

9.

Beiðni ÍBV um að bæjarráð flytji fjárheimild vegna bættrar búningsaðstöðu, úr Týsheimili í stúkuna við Hásteinsvöll - 201903093

 

ÍBV íþróttafélag hefur sent bæjarráði erindi þar sem óskað er eftir því að bæjarráð flytji fjármagn vegna framkvæmda sem samþykktar voru í fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2019, úr Týsheimili í stúkuna við Hásteinsvöll. Markmiðið er áfram að endurbæta aðstöðu leikmanna, dómara og starfsfólks í tengslum við knattspyrnuleiki á Hásteinsvelli, en þeirri aðstöðu verði komið fyrir í stúkunni í stað Týheimilisins.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir að flytja fjárveitingu sem áætlað var til framkvæmda í Týsheimilinu, til framkvæmda í stúkunni í staðinn. Ekki er verið að óska eftir viðbótarfjárheimild í fjárhagsáætlun 2019. Samþykktin er með fyrirvara um að ÍBV íþróttafélag og Vestmannaeyjabær geri með sér eignaskiptasamning sem felur í sér eignarhald bæjarins á stúkunni í framtíðinni. Bæjarráð leggur áherslu á að fjölskyldu- og tómstundaráð taki í framhaldi upp framtíðarskipulag og uppbyggingu íþróttamannvirkja í Vestmannaeyjum.
Samþykkt með tveimur atkvæðum H lista og E lista. Fulltúi D lista sat hjá.

Bókun
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram eftirfarandi bókun: Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins fagnar þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað á íþróttasvæðum Vestmannaeyjabæjar undanfarin ár, sú uppbygging hefur kostað mikla fjármuni enda málstaðurinn góður og starfið öflugt. Í núverandi fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir fjármagni í endurbætur á Týsheimilinu sem er húsnæði í eigu Vestmannaeyjabæjar. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins var fylgjandi þeirri stefnu að fara í þær lagfæringar sem til stóð að fara í á búningsklefum og öðru í húsnæðinu nýlega var t.d. skipt um þak á Týsheimilinu.

Í ljósi fyrirspurnar ÍBV um að færa fjármagn á milli liða úr viðhaldi Týsheimilis í eign sem á nú að skrá á Vestmannaeyjabæ, er nauðsynlegt að staldra við og óska eftir afstöðu fagráða á þessari stefnubreytingu.

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er sammála því að mikilvægt er að fyrirhuguð stefnubreyting komi til umræðu í fjölskyldu- og tómstundaráði enda eðlilegt að heildarstefnumótun eigi sér stað um svæðið til framtíðar og að afstaða framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyjabæjar til framkvæmdarinnar liggi fyrir. Í minnisblaði sem fylgir með málinu kemur fram að verði Týsheimilið rifið vegna stækkunar á knattspyrnuhúsinu verði væntanlegar eftirstöðvar af bókfærðu verði hússins afskrifaðar sem er á bókfærðu verði síðasta árs 57,6 milljónir.

Þar sem afstaða fagráða liggur ekki fyrir og umræða hefur enn ekki farið fram þar, er erfitt að taka afstöðu til málsins að svo stöddu. Þar sem spurningum á borð við heildarstefnumótun svæðisins, framtíðarhlutverk Týsheimilisins, heildarkostnað og fjármögnun framkvæmdarinnar er ósvarað. Við framkvæmdina er verið að tvöfalda rekstrarkostnað Vestmannaeyjabæjar við rekstur húsnæðis Týsheimilis og stúku, o.s. frv. Mikilvægt er að huga vel að auknum rekstrarkostnaði þegar ákvörðun um slíkar framkvæmdir er að ræða.
(Sign. Trausti Hjaltason)

     

10.

Þátttaka í íbúasamráðsverkefni með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Akureyrarbæjar - 201903092

 

Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga samþykkti í lok síðasta árs að verða við umleitan Sambands íslensskra sveitarfélaga og Akureyrarkaupstaðar um 5 m.kr. styrk til að fara í íbúasamráðsverkefni með þátttöku nokkurra sveitarfélaga. Verkefnið snýst um að aðstoða þátttökusveitarfélögin við að beita þeim samráðsaðferðum sem kynntar eru í handbók sambandsins frá 2017: "Íbúasamráð í sveitarfélögum og þátttaka íbúa". Sveitarfélögin munu fá stuðning til að undirbúa og framkvæma samráð í raunverulegum aðstæðum innan síns sveitarfélags. Öll sveitarfélög geta sótt um, en gert er ráð yrir að velja þjrú sveitarfélög til þátttöku til viðbótar við Akureyrarkaupstað sem átti frumkvæði að verkefninu.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir að senda inn umsókn um þátttöku í verkefni um íbúasamráð í sveitafélögum sem hluti af umræddu samstarfsverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga og Akurreyrarbæjar. Mikilvægt er að efla íbúalýðræði og verklag í tengslum við það. Er þetta kjörið tækifæri fyrir Vestmannaeyjabæ til þess að þróa verkefni um aukið íbúalýðræði.

     

11.

Endurskoðun samgönguáætlunar Suðurlands 2019-2028 - 201903105

 

Bæjarráð barst bréf samgöngunefndar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga þar sem óskað er eftir forgangsröðun verkefna í samgöngumálum sveitarfélagsins og Suðurlands. Er óskað eftir að bæjaryfirvöld svari sex spurningum samtakanna um forgangsröðun verkefna. Bæjarstjóri lagði fyrir bæjarráð drög að svörum sveitarfélagsins og voru þau rædd á fundinum.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð fjallaði um erindið og fól bæjarstjóra að svara spurningum samtakanna í samræmi við drög að forgangsverkefnum sem kynnt voru á fundinum.

     

 

 

 

 

                                                       

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:45

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159