19.02.2019

Bæjarráð - 3093

 
  

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3093. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

19. febrúar 2019 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir aðalmaður, Trausti Hjaltason aðalmaður og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Umræða um samgöngumál - 201212068

 

Bæjarstjóri fór yfir stöðu mála við undirbúning dýpkunar í Landeyjarhöfn. Formaður bæjarráðs fór yfir fund hans og bæjarstjóra með tveimur stjórnarmönnum Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf.

     

2.

Samræmdur réttur starfsmanna vegna andláts nákomins ættingja - 201902076

 

Í flestum kjarasamningum opinberra starfsmanna er að finna samskonar ákvæði um rétt starfsmanna til leyfis vegna andláts nákomins ættingja. Hins vegar er ekki að finna slíkt ákvæði í kjarasamningum tveggja stéttarfélaga kennara og skólastjórnenda. Vestmannaeyjabær hefur ákveðið að leggja til að samræma rétt starfsfólks hvað þetta varðar.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir að samræma rétt starfsmanna Vestmannaeyjabæjar til leyfis vegna andláts nákomins ættingja með eftirfarandi hætti:
"Allir starfsmenn Vestmannaeyjabæjar skulu, við andlát nákomins ættingja/aðstandanda, ef nauðsyn krefur, eiga rétt á allt að hálfs mánaðar fríi á reglubundnum launum skv. fyrirfram ákveðnum vinnutíma. Með því er átt við mánaðarlaun auk fastra greiðslna, svo sem fyrir yfirvinnu, vakta- og gæsluvakta- og óþægindalálag. Samskonar réttindi eru í mörgum kjarasamningum opinberra starfsmanna, en samþykktin eykur réttindi starfsmanna í stéttarfélögum þar sem ekki er að finna slík ákvæði í þeim tilgangi að jafna rétt starfsmanna Vestmannaeyjabæjar. Komi til aukinna réttinda umfram þessa samþykkt í einstaka kjarasamningum gildir slíkt ákvæði einungis fyrir þá starfsmenn sem taka laun eftir viðkomandi kjarasamningi.

Ætli starfsmaður að vera viðstaddur útför nákomins ættingja/aðstandanda reiknast fjarvera innan þessarar samþykktar."     

3.

Staða samgönguáætlunar - 201902007

 

Bæjarráð fjallaði um þær breytingar sem umhverfis- og samgöngunefnd hefur lagt til að taka inn í samgönguáætlun Alþingis.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð fagnar því að hin svokallaða "skoska leið" sé komin inn í samgönguáætlun. Það er stórt skref í að gera innanlandsflug að almenningssamgögnum. Jafnframt lýsir bæjarráð ánægju með að inn í texta samgönguáætlunar sé gert ráð fyrir óháðri úttekt á Landeyjarhöfn.

Bæjarráð beinir þeim óskum til fulltrúa umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis að fastar verði að orði kveðið um að flýta viðhaldsframkvæmdum við flugvöllinn í Vestmannaeyjum. Jafnframt ítrekar bæjarráð mikilvægi Landeyjarhafnar fyrir fólk og fyrirtæki í Vestmannaeyjum og að vel sé staðið að framkvæmdum, viðhaldi og rekstri hafnarinnar.

     

4.

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna (kosningaaldur), 356. mál. - 201902032

 

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna þess efnis að kosningaaldur verði lækkaður niður í 16 ár.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð telur mikilvægt að samræma réttindi ákveðnum aldri og eðlilegast sé að kosningaaldur og kjörgengi fylgi sjálfræðisaldri. Samband íslenskra sveitarfélaga leggur áherslu á að sveitarstjórnarmenn taki afstöðu til málsins og beinir bæjarráð því til bæjarfulltrúa í Vestmannaeyjum að koma afstöðu sinni áleiðis við Sambandið.
Samþykkt með tveimur atkvæðum H-lista og E-lista, gegn einu atkvæði D-lista

Tillaga að afgreiðslu:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum leggur fram eftirfarandi tillögu: Bæjarráð Vestmannaeyja veitir jákvæða umsögn við frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna mál nr. 356. Þar sem lagt er til að færa kosningaaldur úr 18 árum niður í 16 ára aldur.
Oftar en ekki er það yngra fólkið sem leiðir eldri kynslóðir áfram til framtíðarinnar með hugmyndum sínum um jafnrétti og lýðræði. Með því að veita ungu fólki á aldrinum 16-18 ára kosningarrétt yrði stigið stórt skref í þá átt að efla rödd ungs fólks í samfélaginu, samfélaginu sjálfu til heilla, auk þess sem yngra fólk fengi þar tækifæri til að móta líf sitt og framtíð á sama hátt og aðrir borgarar sem greiða skatta. Jafnframt hvetur bæjarráð Vestmannaeyja löggjafann til að færa kosningaaldur einnig niður í 16 ára aldur þegar kosið er til alþingis.
Samþykkt með einu atkvæði D-lista. Fulltrúar H-lista og E-lista sátu hjá.

     

5.

Endurgjald til fyrrum stofnfjáreigenda Sparisjóðs Vestmannaeyja vegna samruna sparisjóðsins og Landsbankans. - 201504034

 

Eins og fram hefur komið sendi bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar bankastjóra Landsbankans hf. bréf, þar sem óskað var eftir afstöðu Landsbankans til þess hvort bankinn muni greiða öðrum fyrrum stofnfjáreigendum, sem ekki eru aðilar að dómsmáli Vestmannaeyjabæjar, Vinnslustöðvarinnar og Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja gegn Landsbankanum, í samræmi við niðurstöður dómstóla fari svo að niðurstaðan verði sú að bankanum beri að greiða hærra verð fyrir stofnfjárhlutina

Í svarbréfi sem Landsbankinn sendi Vestmannaeyjabæ þann 5. febrúar sl., kemur m.a. fram að fari svo að endanleg niðurstaða dómstóla verði á þá leið að bankanum beri að greiða þeim þremur stofnfjáreigendum sem ákváðu að höfða mál gegn bankanum, mun bankinn meta fordæmisgildi slíks dóms gagnvart öðrum fyrrum stofnfjáreigendum, en vegna óvissu um endanlega niðurstöðu geti bankinn ekki gefið út frekari yfirlýsingu eða viðbrögð við slíkum dómi.
Þetta gæti haft þá þýðingu að þegar dómur liggur fyrir gætu hugsanlegar kröfur annarra fyrrum stofnfjáreigenda verið fyrndar og því þurfa þeir stofnfjáreigendur að meta hvort þeir hefji nú þegar mál gegn Landsbankanum.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð lýsir vonbrigðum með að Landsbankinn geti ekki gefið skýr svör um hvort aðrir fyrrum stofnfjáreigendur fái viðbótargreiðslu, fari dómsmál á þann veg, að bankanum beri að greiða þeim stofnfjáreigendum sem höfðuðu mál á hendur bankans viðbótargreiðslu. Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma þessum upplýsingum á framfæri við þá stofnfjáreigendur sem ekki eru partur af dómsmáli Vestmannaeyjabæjar, Vinnslustöðvarinnar og Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja gegn Landsbankanum.

     

6.

Málefni Sæheima - 201902075

 

Bæjarstjóri fór yfir fund sem hann átti með forstöðumanni Sæheima og forstöðumanni Þekkingarseturs Vestmannaeyja þann 14. febrúar sl.
Í tengslum við breytingar sem eru að verða á rekstri Sæheima, þarf að fara yfir safnmuni safnsins og ákveða hvernig þeir verða varðveittir þegar rekstri Sæheima verður breytt og Sea Life Trust opnar safn í Eyjum með hluta af safngripunum. Aðra safnmuni, sem ekki fara til sýninga á nýja safnið, þarf að ástandsskoða og meta hvort eigi að vera til sýnis í einhverjum húsakynnum Vestmannaeyjabæjar, t.d. skólum, söfnum bæjarins eða ráðhúsi.

Bæjarstjóri mun fylgja málinu eftir gagnvart þeim ráðuneytum og stofnunum sem málið varðar.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar

     

7.

Erindi frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu - 201902084

 

Bæjarstjóri kynnti bréf frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, þar sem óskað er umsagnar vegna beiðni um úrskurð sem ráðuneytinu barst frá Helgu Kristínu Kolbeins bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Óskað er eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar svo ráðuneytið geti metið hvort taka eigi til skoðunar, sem frumkvæðismál sbr. 112. gr. sveitarstjórnarlaga, hvort hefja hefði mátt vinnu við þá ákvörðun bæjarráðs að fela endurskoðendum Vestmannaeyjabæjar að framkvæma heildarúttekt á kostnaði við framkvæmdir við Fiskiðjuna á árunum 2015-2018.

     

8.

Umræður um málefni Landsbankans - 201902074

 

Rætt var um starfskjarastefnu Landsbankans og launakjör bankastjóra á sama tíma og viðkvæmar viðræður eiga sér stað milli aðila vinnumarkaðarins vegna gerð kjarasamninga.

   
 

Niðurstaða

 

Vestmannaeyjabær sem hluthafi Landsbankans hvetur stjórnendur Landsbankans og hluthafa til að beita sér fyrir því að starfskjarastefna Landsbankans verði endurskoðuð á næsta aðalfundi Landsbankans þann 20. mars næstkomandi. Ríkissjóður Íslands er stærsti hluthafi Landsbankans og er því eðlilegt að skattborgurum sé sýndur sá sómi að launakjör og hækkanir séu með skynsamlegum hætti og taki mið af gildum um ábyrga meðhöndlun opinberra fjármuna og heilbrigðu launaumhverfi opinberra stofnanna og fyrirtækja.

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:10

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159