20.12.2018

Bæjarráð - 3089

 
 Bæjarráð Vestmannaeyja - 3089. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

17. desember 2018 og hófst hann kl. 12.00

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir aðalmaður, Trausti Hjaltason aðalmaður og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Niðurfelling fasteignaskatts - 201804106

 

Lagt var fram minnisblað um breytt fyrirkomulag afsláttar til handa elli- og örorkulífeyrisþegum á fasteignaskatti og öðrum fasteignagjöldum. Bæjarráð ákvað á fundi sínum þann 17. október sl., að fela framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að móta tillögu um breytingu á reglum um afslátt af fasteignaskatti hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum hjá Vestmannaeyjabæ, þannig að þær komi til móts við örorku- og ellilífeyrisþega eins og unnt er (m.a. í gegnum viðmiðunartekjur) innan þeirra heimilda sem kveðið er á um í lögum um tekjustofna sveitarfélaga (m.a. að slíkur afsláttur nái til 67 ára og eldri, en ekki eingöngu 70 ára og eldri). Ákvörðun bæjarráðs þessa efnis er komin til af áliti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sem barst Vestmannaeyjabæ þann 15. október sl., þar sem bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa, að mati ráðuneytisins allt frá árinu 2012, tekið tvær samhliða en ósamrýmanlegar ákvarðanir um afslátt og niðurfellingu fasteignaskatts. Annars vegar samþykkt reglur um lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða sem samræmst hafa 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Hins vegar almenna niðurfellingu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði í eigu íbúa sveitarfélagsins 70 ára og eldri sem ekki rúmast innan lagaheimildanna. Ráðuneytið beindi því til bæjarstjórnar að breyta fyrirkomulaginu með þeim hætti að afslátturinn rúmist innan lagaheimilda.

Minnisblaðið sem lagt var fram á bæjarráðsfundinum í dag inniheldur tillögu um breytt fyrirkomulag á afslætti til handa elli- og örorkulífeyrisþega til samræmis við fyrrgreinda ákvörðun bæjarráðs. Tillagan felur í sér að bæjarráð samþykki þrjár sjálfstæðar ákvarðanir um breytt fyrirkomulag. Í fyrsta lagi að viðmiðunartekjur einstaklinga hækki úr tæpum 4,4 m.kr. í 5,5 m.kr. fyrir fullan afslátt og afsláttur lækki í þrepum eftir hækkun tekna upp í 6,0 m.kr. Fyrir hjón hækki viðmiðunartekjur úr tæpum 5,7 m.kr. í 7,5 m.kr. fyrir fullan afslátt sem lækkar í þrepum eftir hækkun tekna upp í 8,5 m.kr. Með þessu móti gefst fleiri elli- og örorkulífeyrisþegum kostur á afslætti en verið hefur. Í öðru lagi er lagt til að sérstök ákvörðun um afslátt íbúðareigenda 70 ára og eldri af niðurfellingu fasteignaskatts verði ekki endurnýjuð fyrir árið 2019. Með þessu eru virt ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, sem nær einungis til afsláttar af fasteignaskatti tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega. Í þriðja lagi er lagt til að samþykkt verði ný ákvörðun um flatan 85% afslátt af sorpeyðingargjöldum og lóðaleigugjaldi til handa öllum þeim sem náð hafa ellilífeyrisaldri 67 ára og eldri. Ekki er gert ráð fyrir að fráveitugjald verði lækkað með þessum hætti þar sem í lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 er að finna ákvæði að einungis sé heimilt að veita tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum afslátt af fráveitugjaldi, sambærilegt við ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga um fasteignaskatt.

Jafnframt var lögð fram tillaga að breytingum á "Reglum um afslátt af fasteignagjöldum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum með lögheimili í Vestmannaeyjum", sem m.a. inniheldur hækkun viðmiðunartekna sbr. fyrrgreinda tillögu.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir eftirfarandi þrjár ákvarðanir:
1. Viðmiðunartekjur einstaklinga verði 5,5 m.kr. fyrir fullan afslátt og afsláttur lækki í þrepum eftir hækkun tekna upp í 6,0 m.kr. Fyrir hjón nemi viðmiðunartekjur 7,5 m.kr. fyrir fullan afslátt sem lækkar í þrepum eftir hækkun tekna upp í 8,5 m.kr.
2. Ákvörðun um afslátt íbúðareigenda 70 ára og eldri af niðurfellingu fasteignaskatts verði ekki endurnýjuð fyrir árið 2019.
3. Veittur verði flatur 85% afsláttur af sorpeyðingargjöldum og lóðaleigugjaldi til handa öllum þeim sem náð hafa ellilífeyrisaldri 67 ára og eldri.

Jafnframt samþykkir bæjarráð framlagða tillögu að breytingum á Reglum um afslátt af fasteignagjöldum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum með lögheimili í Vestmannaeyjum, sem m.a. inniheldur viðmiðunarfjárhæðir sbr. 1. tl. hér að ofan.

Samþykkt með tveimur atkvæðum H- og E-lista gegn einu atkvæði D-lista.

Bókun
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks harmar að verið sé að falla frá fyrri ákvörðun D og E lista að fella niður fasteignaskatt á alla 70 ára og eldri. Til að setja þetta í samhengi þá þýðir þetta að hjón sem eru bæði með tekjur uppá 355.000 kr. fyrir skatt ca. 277.700 kr. eftir skatt, fá enga niðurfellingu á fasteignaskatti í stað þess að hafa fengið fulla niðurfellingu áður. Þetta getur verið fjárhæð uppá um ein mánaðarlaun á ári sem viðkomandi hjón þurfa nú að greiða vegna þessara aðgerða H og E lista. 70 ára einstaklingur sem býr einn og er með um 370.000 kr. eftir skatt í tekjur greiðir nú fullan fasteignaskatt í stað fullrar niðurfellingar áður. Þetta eru fjárhæðir sem geta skipt sköpum á efri árum. Samkvæmt minnisblaðinum sem lagt er fram eru nú 109 aðilar sem fá ekki fulla niðurfellingu fasteignaskatts líkt og áður. Hér er verið að beygja sig undir hótanir ráðuneytis í staðin fyrir að láta reyna á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga fyrir dómstólum. Ráðuneytið er ekki dómstóll.

Að veita afslátt af sorpeyðingargjaldi og öðrum gjaldskrám í staðinn bitnar á öðrum íbúum til framtíðar. Samkvæmt lögum á sorpeyðingargjaldið að nægja fyrir öllum kostnaði við förgun úrgangs. Að fella gjaldið niður á hluta hópsins bitnar því eðlilega á öðrum sem greiða gjaldið að fullu. Þetta átti ekki við um fasteignaskattinn sem var ekki gjald heldur skattur.
(Sign. Trausti Hjaltason)

Bókun
Fulltrúar E- og H- lista fagna því að hægt sé að koma á móts við eldri borgara 67 ára og eldri með því að veita afslátt af fasteignagjöldum með löglegum hætti. Afslátturinn nýtist nú 384 aðilum en hefði með því fyrirkomulagi sem var í gildi nýst 308 aðilum. Það hljóta allir kjörnir fulltrúar að fagna því að hægt sé að koma til móts við fleiri eldri borgara og létta undir með þeim.
(Sign. Njáll Ragnarsson, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir)

Bókun
Þessi gjörningur virðist vera settur fram eingöngu til að koma til móts við andstöðu Sjálfstæðisflokksins við þá aðgerð E- og H-lista að hætta að fella niður fasteignaskatt á 70 ára og eldri.
(Sign. Trausti Hjaltason)

     

2.

Gjaldskrár Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2019 - 201812059

 

Almennt er kveðið á um breytingar á fjárhæðum í gjaldskrám Vestmannaeyjabæjar. Þar sem ekki er kveðið á um slíkar breytingar þarf bæjarráð að taka fyrir allar þær breytingar sem gerðar eru á gjaldskrám. Ekki er kveðið á um viðmið hækkana í gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs og því er hún tekin fyrir í bæjarráði árlega. Breytingar á gjaldskránni fyrir árið 2019 gera ráð fyrir að sorphirða hækki sem nemur vísitölu neysluverðs og launavísitölu, en sorpeyðing tekur mið af sömu vísitölum og sorpmagni. Hækkunin er til komin vegna vísitölubreytinga og auknu sorpi.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir breytingar á gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs fyrir árið 2019.

     

3.

Grunngjald fyrirtækja vegna meðhöndlunar úrgangs - 201810123

 

Grunngjald fyrirtækja vegna meðhöndlunar úrgangs hefur verið lagt á lögaðila og einstaklinga í rekstri tvisvar sinnum á ári. Síðastliðin tvö ár hefur gjaldið verið 29.256 kr. á ársgrundvelli á aðila óháð veltu.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir að afnema álagningu grunngjalds vegna meðhöndlunar úrgangs. Gjaldið er ógegnsætt og kemur hlutfallslega verst niður á litlum fyrirækjum og einstaklingum í rekstri með litla veltu. Gjaldið verður ekki lagt á vegna síðar hluta árs 2018 og ekki var gert ráð fyrir gjaldinu í fjárhagsáætlun fyrir árið 2019.

     

4.

Samkomulag um kjarasamningsumboð - 201812022

 

Lögð voru fram drög að samkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga um að veita sambandinu umboð til að annast allar kjaraviðræður við viðkomandi stéttarfélög, ganga frá kjarasamningum og annast útgáfu þeirra í samráði við viðkomandi stéttarfélög. Jafnframt að vinna að framkvæmd einstakra þátta samninganna á samningstímanum eins og við á og túlka og aðstoða Vestmannaeyjabæ við framkvæmd þeirra. Umboð þetta er fullnaðarumboð og eftir að það hefur verið gefið er Vestmannaeyjabæ ekki heimilt að hafa afskipti af kjarasamningagerð. Sambæirlegt umboð var veitt við síðustu kjarasamningagerð.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð ákvað að fela bæjarstjóra að ljúka við gerð samkomulagsins eins og það var lagt fram fyrir bæjarráð.

     

5.

Skrá yfir störf hjá Vestmannaeyjabæ sem eru undanþegin verkfallsheimild. - 201812025

 

Lögð voru fram drög að aúglýsingu um skrá yfir störf hjá Vestmannaeyjabæ sem undanþegin eru verkfallsheimild skv. 19 gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir auglýsinguna eins og hún var lögð fram.

     

6.

Umræða um heilbrigðismál - 201810114

 

Fulltrúar bæjarráðs funduðu á dögunum með fulltrúum HSU um stöðu sjúkrahússins í Vestmannaeyjum. Ákveðið var í framhaldinu að hittast aftur eftir áramótin þar sem starfsemi HSU og framtíðarsýn stofnunarinnar verður rædd.

Bæjarráð leggur mikla áherslu á að stefna fyrir sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum verði skilgreind til framtíðar.

     

7.

Til umsagnar umsókn Björgunarfélags Vestmannaeyja til að halda skoteldasýningu 31. des - 201812054

 

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn Björgunarfélags Vestmannaeyja til að halda flugeldasýningu þann 31. desember 2018, í tengslum við áramótabrennu við Hásteinsvöll.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að farið sé að skilmálum embættis lögreglustjóra um slíkan viðburð.
Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi brennunar á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

     

8.

Áfangastaðaáætlun 2018-2021 - 201812031

 

Áætlunin var kynnt af Markaðsstofu Suðurlands í Þekkingarsetrinu 5. desember sl. Áfangastaðaáætlunin var unnin frá apríl 2017 til maí 2018 í samstarfi við helstu hagsmunaaðila á Suðurlandi

   
 

Niðurstaða

 

Áfangastaðaáætlun Suðurlands 2018-2021 er heildstæð áætlunargerð sem hefur ferðaþjónustu að útgangspunkti. Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma á samtali við fulltrúa ferðaþjónustuaðila um hvernig hægt er að nýta áætlunina til uppbyggingar og stuðnings við ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum.

     

9.

Endurgjald til fyrrum stofnfjáreigenda Sparisjóðs Vestmannaeyja vegna samruna sparisjóðsins og Landsbankans. - 201504034

 

Lögmannsstofan Rökstólar ehf. hefur, fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar, Vinnslustöðvarinnar og Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja, höfðað mál á hendur Landsbankanum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Stefnan var lögð fram þann 14. desember sl., og þingfest í Héraðsdómi þann 18. desember sl. Landsbankinn fékk frest til 5. febrúar nk. til þess að leggja fram greinargerð.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og mun áfram fylgjast með framvindu málsins.

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14.00

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159