04.12.2018

Bæjarráð - 3088

 
  

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3088. fundur

Bæjarráðs Vestmannaeyja

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

4. desember 2018 og hófst hann kl. 14.00

 

 

Fundinn sátu:

Njáll Ragnarsson formaður, Trausti Hjaltason aðalmaður, Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri og Elís Jónsson 1. varamaður.

 

 

Fundargerð ritaði:  Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.

Fjárhagsáætlun ársins 2019 - 201810026

 

Bæjarstjóri lagði fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 til kynningar fyrir seinni umræðu í bæjarstjórn

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð þakkar kynninguna

     

2.

Viðauki við fjárhagsáætlun ársins 2018. - 201802087

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2018 sem er tilkominn vegna breytinga á fjárfestingaliðum. Ekki er um að ræða aukningu heildarútgjalda bæjarstjóðs.

     

3.

Niðurfelling fasteignaskatts - 201804106

 

Framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs fór yfir framvindu endurskoðunar reglna um afslátt af fasteignagjöldum til handa elli- og örorkulífeyrisþega.

   
 

Niðurstaða

 

Töluverður tími hefur farið í að greina upphæðir álagningar og afsláttar af tekjum sem mynda fasteignagjöld (fasteignaskatti, sorpeyðingargjaldi, lóðaleigu og holræsagjaldi) sem og mismunandi lög og reglur sem gilda um gjöldin, til þess að móta tillögur um breytt fyrirkomulag sem rúmast innan ramma laga. Við endurskoðun á gildandi reglum og ákvörðun Vestmannaeyjabæjar hefur verið haft samband við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og lögfræðing KPMG sem annast stjórnsýsluúttekt í tengslum við endurskoðun bæjarins. Tillaga að breyttu fyrirkomulagi verður lögð fyrir bæjarráð síðar í mánuðinum.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins harmar að ekki hafið verið staðið í lappirnar og haldið áfram að fella niður fasteignaskatt hjá 70 ára og eldri líkt og tíðkast hefur undanfarin ár. Það er sú leið sem gengur lengst og gagnast öllum 70 ára og eldri. Hér er verið að ræða framvindu endurskoðunar á reglum sem gagnast ekki öllum 70 ára og eldri að fullu líkt og áður.
(sign. Trausti Hjaltason)

Meirihluti bæjarráðs ítrekar fyrri bókanir sínar úr bæjarráði og bæjarstjórn og vill að sveitarfélagið fari ávallt að lögum um afslátt af skattheimtu. Leitað verði leiða til að veita aflslátt sem nýtast öllum eldri borgurum 67 ára og eldri.
(sign. Elís Jónsson og Njáll Ragnarsson)

Bæjarráð þakkar framkvæmdastjóra fyrir kynninguna.

     

4.

Erindi til bæjarráðs frá stjórn Vestmannaeyjaferjunnar herjólfs ohf. - 201812003

 

Elís Jónsson yfirgaf fund meðan á þessum dagskrárlið stóð.

Bæjarráð fór yfir bréf frá stjórn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. dags. 26. nóvember sl., vegna eigendastefnu félagsins sem samþykkt var í bæjarráði þann 20. nóvember 2018.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð ræddi drög að svarbréfi til stjórnar Herjólfs ohf. og felur formanni bæjarráðs að svara stjórninni fyrir hönd ráðsins. Áður en málið er afgreitt í bæjarstjórn er formanni bæjarráðs falið að gera tillögur að orðalagsbreytingum á áður samþykktri eigendastefnu Herjólfs ohf.
Samþykkt með tveimur atkvæðum E- og H-lista gegn einu atkvæði D-lista)

Bókun
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur afar mikilvægt að tekið sé tillit til þeirra sjónarmiða sem koma fram í erindi frá stjórn Herjólfs ohf. þar sem óskað er eftir fundi milli fulltrúa stjórnar Herjólfs ohf. og fulltrúa bæjarráðs.

Í erindi stjórnar Herjólfs ohf. koma fram ýmsar athugasemdir og jafnvel efasemdir um að kaflar eigendastefnunnar eigi sér stoð í lögum. Það liggur í hlutarins eðli að með öllu verður að telja ótækt að bæjarráð stefni stærsta hagsmunamáli sveitarfélagsins í fullkomna lagalega óvissu með því að virða að vettugi málefnalegar athugasemdir stjórnar Herjólfs ohf. um eigendastefnuna og leggur því fulltrúi Sjálfstæðisflokksins til að leitað verði eftir áliti hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu á lögmæti eigendastefnunnar. Að öðrum kosti áskilja fulltrúar Sjálfstæðiflokksins sé allan rétt til að leita eftir slíkri umsögn.

Því óskar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins eftir því að eigendastefnan verði endurskoðuð með tilliti til ábendinga fulltrúa stjórnar Herjólfs ohf. og á grundvelli svara bæjarráðs, nauðsynlegt virðist að skýra þurfi betur ákvæði eigendastefnunnar til að taka af allan vafa um merkingu og eðli hennar. Auk þess hefur stjórn Herjólfs ohf. óskað eftir fundi með bæjarráði með góðum fyrirvara áður en eigendastefnan er samþykkt í bæjarstjórn og telur fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sjálfsagt að verða við slíkri beiðni áður en málið kemur til fullnaðarafgreiðslu bæjarstjórnar.
Þá vill fulltrúi Sjálfstæðisflokksins enn og aftur leggja þunga áherslu á að stjórn Herjólfs ohf. hafi óskorðað traust bæjarstjórnar og vinnufrið til að sinna sínum störfum í þágu bættra samgangna samfélagsins.
(Sign Trausti Hjaltason)

Ferli við gerð eigendastefnu Herjólfs hófst í september. Fyrstu drög voru lögð fyrir bæjarráð og rædd 1. nóvember og síðan voru lokadrög lögð fyrir og rædd á fundi bæjarráðs þann 20. nóvember. Var hún rædd og full unnin í góðu samkomulagi allra fulltrúa bæjarráðs og samþykkt.
Við vinnslu eigendastefnunnar var haft samráð við Vegargerðina og litið var til annarra sambærilegra stefna sveitarfélaga og ríkis. Stefnan sem liggur fyrir til samþykktar hjá bæjarstjórn hefur líka verið lögð fyrir til kynningar í samráðshópi á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Aldrei hefur annað staðið til en að leitast til þess að tryggja framgang verkefnisins og að skerpa á samráði og samstarfi milli eiganda og stjórnar félagsins.
(Sign. Njáll Ragnarsson),
(sign. Íris Róbertsdóttir)

     

5.

Umræða um samgöngumál - 201212068

 

Bæjarstjóri greindi frá heimsókn sinni til umhverfis-og samgöngunefndar Alþingis, þar sem verið var að fylgja eftir umsögn um samgönguáætlun 2019-2022. Bæjarstjóri fór jafnframt yfir stöðuna í dýpkunarmálum Landeyjahafnar og samskiptin við Vegagerðina.

Bæjarráð fór á fund Vegagerðarinnar þann 21. nóvember sl. þar sem farið var yfir stöðuna á þjónustusamingnum milli Vegagerðarinnar og Vestmannaeyjabæjar um rekstur Herjólfs. Einnig fór Vegagerðin yfir fosendur samningsins og hvernig stjórn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. gengi að uppfylla þær.

     

6.

Umræða um heilbrigðismál - 201810114

 

Fulltrúar úr bæjarráði ásamt bæjarstjóra funduðu með heilbrigðisráðherra og þingmönnum kjördæmisins þann 21. nóvember sl. Farið var yfir stöðuna í heilbrigðismálum í Vestmannaeyjum, m.a. skort á bráðaþjónustu, lokun skurðstofu, sjúkraflug, fæðingarþjónustu o.fl.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð ítrekar fyrri bókanir um nauðsyn þess að efla starfsemi HSU í Vestmannaeyjum þar sem staðan í dag er óviðunandi. Brýn nauðsyn er á því að leita allra leiða til þess að tryggja öryggi sjúklinga í Vestmannaeyjum. Bæjarráð hefur lýst vilja til þess að fara í þá vinnu með ráðuneytinu að skilgreina hlutverk sjúkrahússins í Vestmannaeyjum til framtíðar. Bæjarráð mun á næstu dögum funda með forstjóra HSU um sama mál.

     

7.

Til umsagnar umsókn um leyfi til að halda þrettándabrennu - 201811111

 

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn ÍBV um að halda þrettándabrennu ÍBV og Íslandsbanka þann 4. janúar 2019.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að farið sé að ákvæðum reglugerðar og skilyrðum um slíkan viðburð og með fyrirvara um samþykki hlutaðeigandi eftirlitsaðila.

Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi brennunar á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

     

8.

Til umsagnar umsókn ÍBV íþróttafélags um leyfi til að halda skoteldasýningu í tengslum við þrettándagleði félagsins - 201811138

 

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn ÍBV til að halda flugeldasýningu í tengslum við þrettándagleðina þann 4. janúar 2019.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að farið sé að skilmálum embættis lögreglustjóra um slíkan viðburð.
Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi brennunar á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

     

9.

Til umsagnar umsókn um tímabundið áfengisleyfi á Lundanum þann 1. janúar - 201811145

 

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn Jóns Inga Guðjónssonar um tímabundið áfengisleyfi fyrir Lundann þann 1. janúar 2019 frá kl. 04:00 til 07:30.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn um tímabundið áfengisleyfi frá 04:00 til 06:00, að því gefnu að farið sé að skilyrðum sýslumanns um slíkt áfengisleyfi og með fyrirvara um jákvæða umsögn hlutaðeigandi eftirlitsaðila.

Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi brennunar á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

     

10.

Til umsagnar umsókn um tímabundið áfengisleyfi á Lundanum - 201811144

 

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn Jóns Inga Guðjónssonar um tímabundið áfengisleyfi fyrir Lundann þann 27. desember 2019 frá kl. 02:00 til 04:00.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að farið sé að skilyrðum sýslumanns um slíkt áfengisleyfi og með fyrirvara um jákvæða umsögn hlutaðeigandi eftirlitsaðila.

Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi brennunar á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

     

11.

Til umsagnar umsókn um rekstrarleyfi fyrir Alþýðuhúsið - 201811146

 

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn Páls Eyjólfssonar um rekstrarleyfi fyrir Alþýðuhúsið vegna reksturs veitingastaðar í flokki II.

   
 

Niðurstaða

 

Bæjarráð staðfestir jákvæða umsögn Slökkviliðs Vestmannaeyjabæjar. Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að farið sé að ákvæðum laga og skilyrðum sýslumanns um slíkt rekstrarleyfi og með fyrirvara um jákvæða umsögn byggingafulltrúa og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.

Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi brennunar á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17.55

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159