30.04.2018

Fræðsluráð - 305

 
 Fræðsluráð - 305. fundur

Fræðsluráðs

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

30. apríl 2018 og hófst hann kl. 16:30

 

Fundinn sátu:

Hildur Sólveig Sigurðardóttir formaður, Sindri Haraldsson aðalmaður, Silja Rós Guðjónsdóttir aðalmaður, Birna Vídó Þórsdóttir aðalmaður, Sonja Andrésdóttir aðalmaður, Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Drífa Gunnarsdóttir starfsmaður sviðs, Erlingur Birgir Richardsson áheyrnarfulltrúi, Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir áheyrnarfulltrúi, Kolbrún Matthíasdóttir áheyrnarfulltrúi og Lilja Björg Arngrímsdóttir áheyrnarfulltrúi.

  

Fundargerð ritaði:  Drífa Gunnarsdóttir, fræðslufulltrúi

 

Fræðsluráð vill í upphafi fundar minnast Sigurlásar Þorleifssonar, skólastjóra Grunnskóla Vestmannaeyja, sem varð bráðkvaddur 24. apríl sl. Fráfall þessa góða samstarfsaðila er mikill missir fyrir Vestmannaeyjar. Ráðið sendir eiginkonu, börnum og öðrum aðstandendum innilegustu samúðarkveðjur.

 

Dagskrá:

 

1.

Ósk um flutning á 5. bekk yfir í Barnaskóla Vestmannaeyja - 201803109

 

Framhald af 1.máli 304. fundar fræðsluráðs frá 26. mars 2018.

   
 

Niðurstaða

 

Fyrir ráðinu lá minnisblað framkvæmdastjóra fræðslusviðs vegna framkvæmdaþarfa, kostnaðargreiningu og helstu þáttum sem huga þarf að vegna mögulegs flutnings 5. bekkjar GRV úr húsnæði Hamarsskóla yfir í húsnæði Barnaskóla Vestmannaeyja. Í minnisblaðinu kemur fram að eftir fundi með framkvæmdasviði Vestmannaeyjabæjar og stjórnendum GRV sé framkvæmdin vel gerleg, hægt sé að hefja framkvæmdir um leið og skóla lýkur og verkið verði tilbúið fyrir haustönn 2018. Áður samþykktum og fyrirhuguðum framkvæmdum innan húsnæði Barnaskólans verði breytt og lagfærðar með tilliti til þarfa skólans fyrir bekkjarými, breytinga á matsal, bætta starfsmannaaðstöðu og vinnurými. Hægt er að fara strax í framkvæmdir við salerni og kennarastofu. Varðandi stöðu sérstaks deildarstjóra við miðstig er kostnaður um 9 milljónir króna, en breytingar á kennslufyrirkomulagi, kjarasamningar m.v. fjölda nemenda og aukin kennsluskylda mun vega upp á móti kostnaði og því ekki þörf á sérstakri viðbótarfjárveitingu innan fræðslukerfisins.

Óskað var eftir áliti skólaráðs GRV vegna þessara breytinga en í fundargerð þess kom fram að skólaráð væri samþykkt flutningi 5. bekkjar yfir í húsnæði Barnaskólans og teldi það breytingu til batnaðar fyrir skólastarfið og að krafa um sérstakan deildarstjóra yfir miðstigi væri skiljanleg. Í séráliti KV frá 303. fundi fræðsluráðs kom fram að þörf væri að þeirra mati á að efla stöðu deildarstjóra innan GRV.

Skólastjórnendur, starfsmenn GRV, skólaráð og starfsmenn skólaskrifstofu telja að mikið hagræði sé fólgið í því að flytja 5. bekk GRV úr húsnæði Hamarsskóla yfir í húsnæði Barnaskólans. Þannig er hægt að efla faglegt starf miðstigs sem verður markvissara þegar allar bekkjardeildir þess (5.-7. bekkir) eru innan sama húsnæðis ásamt því að meira rými skapast innan veggja Hamarsskóla. Ráðið samþykkir fyrir sitt leyti ósk skólastjóra GRV um flutning 5. bekkjar úr húsnæði Hamarsskóla yfir í húsnæði Barnaskóla og þær framkvæmdir sem slík breyting felur í sér en bæjarráð hefur nú þegar samþykkt 9 milljón kr. viðbótarfjárveitingu vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Ráðið leggur áherslu á að framkvæmdum vegna flutnings 5. bekkjar GRV verði lokið eigi síðar en fyrir miðjan ágúst 2018. Ráðið samþykkir ennfremur að staða deildarstjóra miðstigs verði tekin upp og auglýst til umsóknar fyrir haustönn 2018 og þannig verði deildarstjóri við hvert grunnskólastig.

Fræðsluráð þakkar stjórnendum GRV, skólaráði, KV og starfsfólki skólaskrifstofu og framkvæmdasviðs fyrir þeirra aðkomu að málinu og samstarf. Fræðsluráð bindur miklar vonir við að þessar aðgerðir komi til með að bæta samfellu í skólastarfi nemenda GRV, efla faglegt starf kennara, draga úr álagi við kennslu og gera hana markvissari ásamt því að bæta námsárangur og líðan nemenda.

     

2.

Skólalóðir GRV. - 201611104

 

Fyrir liggja drög að skipulagi skólalóða GRV.

   
 

Niðurstaða

 

Fyrir ráðinu lágu drög að breytingum á skólalóðum Hamarsskóla og Barnaskóla Vestmannaeyja.
Skólastjórnendur og framkvæmdastjóri fræðslusviðs hafa fundað vegna fyrirhugaðra framkvæmda við skólalóðir GRV. Landslagsarkitektar voru fengnir til að leggja upp drög að lagfæringum og framkvæmdum við skólalóðir sem unnið verður eftir. Ráðið samþykkir drögin fyrir sitt leyti og leggur áherslu á að heildarframkvæmdum á grunnskólalóðum verði lokið á næstu 3 - 4 árum. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir á Barnaskólalóðinni í sumar og setja þar upp m.a. körfuboltavelli og dæmi um aðrar framkvæmdir sem lagðar eru til við skólalóðirnar eru að endurnýja yfirborð skólalóðanna a.m.k. að hluta, setja upp fjölbreytt leiktæki og leiksvæði, lýsing bætt, bætt við hjólastæðum, gert ráð fyrir aðstöðu til útikennslu svo eitthvað sé nefnt. Skólalóðir sveitarfélagsins þjóna ekki síður hlutverki opinna leiksvæða sem börn og fjölskyldufólk sækja þegar grunnskólinn er lokaður og því mikilvægt að vel sé vandað til verka og lóðirnar þannig úr garði gerðar að sómi sé að enda skólalóðir mikilvægur hluti af ímynd grunnskólans og liður í að auka ánægju nemenda í skólanum.

     

3.

Grunnskóli Vestmannaeyja. Úthlutun kennslustunda til skólastarfs - 200805104

 

Endurskoðun á úthlutun kennslustunda til skólastarfs skólaárið 2018-2019.

   
 

Niðurstaða

 

Ósk frá stjórnendum GRV um fjölgun úthlutaðra kennslutíma vegna bekkjafyrirkomulags í 1. bekk. Við upphaflega kennsluúthlutun var gengið út frá tveimur bekkjum í fyrsta bekk vegna lítils árgangs. Nú hefur fjölgað í umræddum árgangi og upplýsingar um að fleiri börn séu væntanleg. Við gerð áætlunar var miðað við 41 nemenda og 2 bekkjardeildir, þeir eru 44 í dag og á skólastjóri von á enn fleiri nemendum og telur líkur á að þeir verði a.m.k. um 47 og því þurfi að fjölga um eina bekkjardeild. Því óska stjórnendur eftir því að skipta hópnum upp í þrjár bekkjardeildir í stað tveggja eins og til stóð. Til að það megi ganga eftir þarf 17 kennslustundir til viðbótar í heildarúthlutun. Kostnaður vegna þessa er um 3,5 - 4 milljónir frá ágúst til ársloka. Samþykkt úthlutun kennslustunda fyrir skólaárið 2018-2019 er samtals 1200 og þar af eru 1021 til almennra kennslustunda. Ráðir samþykkir að bæta 17 kennslustundum við áður samþykkta úthlutn þannig að hún verður 1217 kennslustundir í stað 1200. Ráðið felur framkvæmdastjóra sviðs að gera ráðstafanir til að mæta þessari viðbótarúthlutun.

     

4.

Ósk um styrk til Skólalúðrasveitar Vestmannaeyja - 201804136

 

Óskað er eftir styrk til skólalúðrasveitarinnar vegna heimsóknar Skólalúðrasveitar vestur- og miðbæjar í tilefni 40 ára afmælis Skólalúðrasveitar Vestmannaeyja. Um er að ræða styrk vegna gistingar í GRV.

   
 

Niðurstaða

 

Fræðsluráð vill byrja á því að óska Skólalúðrasveit Vestmannaeyja til hamingju með 40 ára afmælið og þakkar allt það merka starf sem sveitin hefur innt að hendi í öll þessi ár. Lúðrasveitarhefðin er merk menningaraarfleið sem hefur fylgt Vestmannaeyjum í áratugi og á eftir að gera það í fjölda ára. Ráðið samþykkir að veita 90.000 kr styrk í tilefni af 40 ára afmæli Skólalúðrasveitar Vestmannaeyja.

                                                                                       

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:55

 

 

 

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159