12.04.2018

Bæjarstjórn - 1532

 
 

Bæjarstjórn Vestmannaeyja - 1532. fundur

Bæjarstjórnar Vestmannaeyja

haldinn í Einarsstofu safnahúsi,

12. apríl 2018 og hófst hann kl. 18:00

 

 

Fundinn sátu:

Hildur Sólveig Sigurðardóttir forseti, Elliði Vignisson 1. varaforseti, Trausti Hjaltason aðalmaður, Birna Vídó Þórsdóttir aðalmaður, Stefán Óskar Jónasson aðalmaður, Auður Ósk Vilhjálmsdóttir aðalmaður og Sigursveinn Þórðarsson varamaður.

 

 

Fundargerð ritaði:  Sigurbergur Ármannsson, fjármálastjóri

 

Leitað var eftir því að taka inn með afbrigðum tvö mál, annars vegar fundargerð bæjarráðs nr. 3072 frá því fyrr í dag og hins vegar umræðu um samgöngumál. Það var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum að taka inn þessi mál.

 

Dagskrá:

 

1.

Umræða um samgöngumál - 201212068

 

Umræða um samgöngumál

   
 

Niðurstaða

 

Sigursveinn Þórðarson vék af fundi við umræður um málið og tók Margrét Rós Ingólfsdóttir sæti hans.

Bæjarstjórn fjallaði um fund með samgönguráðherra sem haldinn var föstudaginn 6. apríl sl. og drög að samningi sem lögð voru fram á fundinum.

Eins og þekkt er hafa staðið yfir viðræður milli Vestmannaeyjabæjar og ríkisins undanfarna mánuði um að bærinn taki yfir rekstur ferjusiglinga milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar/Þorlákshafnar. Þannig var í lok október sl. undirrituð viljayfirlýsing þar sem samgönguráðherra fyrir hönd ríkisins og bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar lýstu yfir sameiginlegum vilja til að gera með sér samning um siglingarnar frá miðju ári 2018 og út rekstrarárið 2020. Í viljayfirlýsingunni kom fram að markmið væntanlegs samnings væri að efla samgöngur við Vestmannaeyjar og að tryggja hagkvæmar og öruggar ferjusiglingar á milli lands og Eyja. Eins kom þar fram að rekstur ferjusiglinganna væri almannaþjónusta og ekki hagnaðardrifin.

Í kjölfar útgáfu viljayfirlýsingarnar unnu aðilar að drögum að samningi en vegna kosninga og myndun nýrrar ríkisstjórnar tafðist sú vinna um hríð. Með skipun nýs samgönguráðherra var þráðurinn tekinn upp á ný og liggja nú fyrir ný samningsdrög frá ríkinu, sbr. þau drög sem lögð voru fram á fundi aðila þann 6. apríl sl.

Í þeim drögum er um að ræða umtalsverða þjónustuaukningu við notendur og munar þar mestu um stóraukið framboð af ferðum milli lands og Eyja. Þannig gera drögin til að mynda ráð fyrir að í vetraráætlun verði 5 til 6 ferðir á dag og í sumaráætlun verði 7 ferðir á dag.

Á umræddum fundi kom fram af hálfu ráðuneytisins að hraða yrði vinnu við undirbúning og framkvæmd nánari frágangs viðræðna. Í samræmi við það lét bæjarstjórn viðeigandi sérfræðinga og ráðgjafa strax hefjast handa við að greina fyrirliggjandi samningsdrög og þær rekstrartölur og forsendur sem lagðar voru fram og ræddar á fundinum. Bærinn sendi strax í framhaldinu erindi til ráðuneytisins og Vegagerðarinnar um nokkur atriði sem óskað var nánari skýringa á og stendur enn yfir vinna við að greina stöðuna sem best til að eyða sem flestum óvissuþáttum. Bærinn hefur skilning á því að svo kunni að vera að aðilar telji að tíminn til að ljúka samningum sé naumur og hefur unnið málið eins hratt og kostur er. Þess er þó óskað að ráðuneytið og stofnanir á vegum ríkisins sem koma að málinu sýni því einnig skilning að bæjarstjórn og Vestmannaeyjabær verður að vanda til verka og gæta vel að því að bærinn fari ekki með ákvörðunum sínum eða samningagerð gegn grundvallarreglum sveitarstjórnarlaga um ábyrgð hans á ráðstöfun fjármuna, sbr. t.d. 65. gr. sveitarstjórnarlaga. Bænum ber lagaleg skylda til að kasta ekki til höndunum í þessu máli, sem er augljóslega stórt og flókið.

Að því sögðu, og með vísan til fyrrgreindrar forsögu þessa máls, er augljóst að fyrir liggur sameiginlegur vilji beggja aðila að Vestmannaeyjabær taki við rekstri siglinganna, sbr. undirrituð viljayfirlýsing og þau samningsdrög sem hafa gengið á milli. Það er ekki síst augljóst í ljósi síðasta fundar aðilanna þann 6. apríl sl. og þeirra samningsdraga sem ríkið lagði þar fram í því skyni að ljúka samningum við bæinn.

Á þessu stigi fær bæjarstjórn ekki annað séð en að þau samningsdrög sem fyrir liggja geti verið grunnurinn að endanlegum samningi milli aðilanna enda getur hún í megindráttum fellt sig við hann. Með vísan til mikilvægi málsins, sbr. og fyrrgreindrar lagalegrar ábyrgðar bæjarstjórnar og Vestmannaeyjabæjar, er bænum hins vegar ekki stætt á því án enn frekari skoðunar, lagfæringa og skýringa að svara af eða á varðandi þau samningsdrög sem fyrir liggja. Það skal þó ítrekað sem fyrr greinir að bærinn telur að ef eitthvað beri á milli samningsaðila þá séu það ekki stórvægileg atriði og að það sem þurfi að skoða frekar og skýra betur muni ekki leiða til þess að fallið verði frá gerð samningsins. Sú vinna við frágang samningsins sé hins vegar nauðsynleg og að það hljóti að teljast forsvaranleg og eðlileg vinnubrögð við þessar aðstæður að bæjarstjórn gangi gaumgæfilega og fyllilega úr skugga um að allar forsendur samningsins séu skýrar báðum aðilum, þannig að samstarfið verði hnökralaust og farsælt í framtíðinni.

Afgreiðsla:
Bæjarstjórn lýsir því hér með yfir að hún hafi fullan hug á að samþykkja fyrirliggjandi samningsdrög sem ríkið lagði fram á fundi þann 6. apríl sl. Með vísan til þess sem að framan greinir varðandi lagalegar skyldur og ábyrgð er bænum þó nauðsynlegt að samþykkja drögin með eðlilegum fyrirvörum um nánari skoðun og skýringar og nokkrum atriðum og forsendum samningsins.

Fyrirvararnir varða einkum eftirfarandi atriði:

1. Að samningurinn taki frekara mið af því að um er að ræða tilflutning á verkefni tengdri grunnsamfélagsþjónustu milli stjórnsýslustiganna tveggja, ríkis og sveitarfélags.
2. Að ríkið, sem leigusali og verkkaupi, tryggi afhendingu á skipi að fullu tilbúnu til notkunar og skip (t.d. gamli Herjolfur) sé ætíð til reiðu og notkunar fyrir Vestmannaeyjabæ sem verksala á samningstíma, án kostnaðar fyrir verksala.
3. Að Vestmannaeyjabæ sem verksala sé heimilt að framselja skuldbindingar sínar til félags (ohf.) í eigu hans.
4. Að óvissuatriðum varðandi forsendur ríkisins á greiðslum á samningstíma, upp á ca. 100 til 150 milljónir verði eytt og þær skýrðar frekar.
5. Að til grundvallar samningi liggi rekstrarmódel lagt fram af Vegagerðinni. Breytingar á forsendum þess leiði til endurskoðunar á samningsfjárhæðum.
6. Að horft verði til þess að samningurinn verði færður nær því sem fram kemur í þarfagreiningu HRA, til að mynda með því að tryggja að skipið gangi fulla áætlun alla daga ársins (5 til 6 ferðir á dag í vetraráætlun og 7 ferðir á dag í sumaráætlun) nema aðfangadag, jóladag og gamlársdag. Þá daga verði 4 ferðir.

Bæjarstjórn óskar eftir því að þessu máli verði ýtt áfram og unnið hratt og örugglega í framhaldinu með hliðsjón af ofangreindum sjónarmiðum og ljúki með farsælum samningum sem allra fyrst.

Að lokum færir bæjarstjórn þakkir til samgönguráðherra fyrir að framfylgja þeim vilja sem fram kom í máli hans í aðdraganda síðustu kosninga um að semja við sveitarfélagið um rekstur ferjusiglinganna. Bendir bærinn jafnframt á og þakkar fyrir að sú frágangsvinna sem nú stendur yfir og fer í hönd sé unnin á grundvelli þess trausts sem skapað var milli aðila og undirstrikað var með viljayfirlýsingu ríkisins og Vestmannaeyjabæjar þann 27. okt. sl.

Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að senda tafarlaust erindi á Samgönguráðherra og Vegerðina þar sem ofangreint kemur fram.

Sign,

Elliði Vignisson (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Trausti Hjaltason (sign)
Birna Þórsdóttir (sign)
Margrét Rós Ingólfsdóttir (sign)
Stefán Óskar Jónasson (sign)
Auður Ósk Vilhjálmsdóttir (sign)

Margrét Rós Ingólfsdóttir vék af fundi og Sigursveinn Þórðarson tók sæti á ný.

     

2.

Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2017. - 201802046

 

-FYRRI UMRÆÐA-

   
 

Niðurstaða

 

Elliði Vignisson bæjarstjóri hafði framsögu um ársreikninga Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2017 og gerði grein fyrir helstu niðurstöðum hans. Við umræðu um ársreikninginn tóku til máls, Stefán Óskar Jónasson, Trausti Hjaltason og Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Forseti bæjarstjórnar Hildur Sólveig Sigurðardóttir las upp niðurstöðutölur úr ársreikningi Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans:

a) Ársreikningur sjóða í A-hluta 2017:


Afkoma fyrir fjármagsliði kr. -21.913.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 265.466.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 10.520.712.000
Eigið fé kr. 5.714.556.000


b) Ársreikningur Hafnarsjóðs Vestmannaeyja 2017:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 89.180.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 104.496.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 1.860.264.000
Eigið fé kr. 1.597.206.000


c) Ársreikningur Félagslegra íbúða 2017:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 17.497.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 4.295.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 187.217.000
Eigið fé ( - neikvætt) kr. -100.188.000


d) Ársreikningur Fráveitu Vestmannaeyja 2017:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 25.983.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 10.536.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 659.078.000
Eigið fé kr. 272.302.000


e) Ársreikningur Dvalarheimilisins Hraunbúða 2017:

Afkoma fyrir fjármagnsliði (neikvæð) kr. -27.523.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 0
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 229.331.000
Eigið fé kr. 29.806.000


g) Ársreikningur Vatnsveitu 2017:
Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 0
Rekstrarafkoma ársins kr. 0
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 416.000.000
Eigið fé kr. 0


Samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum að vísa niðurstöðutölum ársreiknings til síðari umræðu í bæjarstjórn.

     

3.

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja nr. 282 frá 20. mars s.l. - 201803005F

 

Liðir 1-8 liggja fyrir til staðfestingar.

   
 

Niðurstaða

 

Liðir 1-8 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum

     

4.

Fjölskyldu- og tómstundaráð nr. 207 frá 21.mars s.l. - 201803007F

 

Liðir 1-5 liggja fyrir til staðfestingar.

   
 

Niðurstaða

 

Liðir 1-5 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum

     

5.

Fræðsluráð nr.304 frá 26. mars s.l. - 201803012F

 

Liðir 1-4 liggja fyrir til staðfestingar.

   
 

Niðurstaða

 

Liðir 1-4 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

     

6.

Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 3071 frá 27. mars s.l. - 201803013F

 

Liðir 1 og 2 liggja fyrir til staðfestingar.

   
 

Niðurstaða

 

Liðir 1-2 voru staðfestir með sjö samhljóða atkvæðum.

     

7.

Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja nr. 216 frá 4. apríl s.l. - 201803008F

 

Liðir 1-7 liggja fyrir til staðfestingar.

   
 

Niðurstaða

 

Liðir 1-7 voru samþykktir með sjö samhljóða atkævðum.

     

8.

Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 3072 frá 12. apríl. - 201804002F

 

Liðir 1-4 liggja fyrir til umræðu og staðfestingar.

   
 

Niðurstaða

 

Liðir 1-4 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.

     

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:45

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159