26.03.2018

Fræðsluráð - 304

 
 

 

Fræðsluráð - 304. fundur

Fræðsluráðs

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

26. mars 2018 og hófst hann kl. 16:30

 

Fundinn sátu:

Hildur Sólveig Sigurðardóttir formaður, Birna Vídó Þórsdóttir aðalmaður, Sonja Andrésdóttir aðalmaður, Gígja Óskarsdóttir 1. varamaður, Bjarni Ólafur Guðmundsson 3. varamaður, Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Drífa Gunnarsdóttir varamaður, Erlingur Birgir Richardsson áheyrnarfulltrúi, Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir áheyrnarfulltrúi og Kolbrún Matthíasdóttir áheyrnarfulltrúi.

  

Fundargerð ritaði:  Drífa Gunnarsdóttir, fræðslufulltrúi

 

Einnig mætt:

Lilja Björg Arngrímsdóttir

 

Dagskrá:

 

1.

Ósk um flutning á 5. bekk yfir í BV - 201803109

 

Fyrir ráðinu liggur beiðni frá skólastjóra GRV um að skoða þann möguleika að færa 5. bekk úr Hamarsskólanum (HS) yfir í Barnaskóla Vestmannaeyja (BS).

   
 

Niðurstaða

 

Fram kemur í bréfi skólastjóra að m.a. á fagfundum kennara og á kennarafundum hafi orðið mikil umræða um nauðsyn þess að færa 5. bekk úr HS yfir í BS, rætt var við starfsmenn í starfsmannaviðtölum í febrúar um þennan möguleika og þetta einnig rætt mikið innan kennarahópsins almennt.
Kennarar telja m.a. að faglegt starf á miðstigi verði markvissara og með því náist betri yfirsýn yfir nám og kennslu á miðstigi ef allir aldurshópar á miðstigi verði í sömu byggingu, þ.e. 5.,6. og 7. bekkur. Stjórnendur sjá einnig tækifæri í tilfærslunni sem leið til að efla faglegt starf á miðstigi og leggja áherslu á að á hverju stigi verði starfandi deildarstjóri. Skólastjóri óskar eftir því að þetta verði skoðað hvort tilfærslan geti átt sér stað á næsta eða þá þarnæsta skólaári. Mikilvægt er að athuga hvort tilfærslan sé fjárhagslega raunhæf og hvort húsnæði BS geti tekið á móti viðbótinni. Það þyrfti að ráðast í breytingar á efstu hæð í gamla skólanum með því að bæta við kennslustofum. Skólastjórnendur leggja áherslu á að einungis verði ráðist í verkefnið ef hægt er að ljúka því fyrir miðjan ágúst 2018 en annars þurfi að bíða með verkefnið þar til haustið 2019. Einnig er vert að hafa í huga að í haust mun stór árgangur koma inn í 5 ára deildina sem kallar á auka rými innan Hamarsskóla.

Fræðsluráð þakkar skólastjóra erindið en við störf starfshóps um endurskoðun á skipuriti GRV kom þessi punktur sterklega fram sem framtíðarskref sem gæti verið til hagsbóta fyrir GRV. Fræðsluráð tekur vel í erindið og felur fræðsluskrifstofu að taka saman minnisblað fyrir næsta fund fræðsluráðs þar sem gerð verði úttekt á framkvæmdaþörf og kostnaði við flutninginn, helstu þáttum sem þarf að huga að og hvernig hægt verði að bregðast við og koma til móts við áhyggjur starfsfólks af flutningnum á borð við fjölda nemenda í matsal o.fl. Ráðið óskar jafnframt eftir afstöðu skólaráðs hvað mögulegan flutning 5. bekkjar varðar. Í sama minnisblaði felur fræðsluráð fræðsluskrifstofu að gera kostnaðargreiningu á því að sérstakur deildarstjóri yrði skipaður við miðstig. Ráðið leggur áherslu á að minnisblaðið verði unnið eins fljótt og verða má þar sem skammur tími er til stefnu fyrir næsta skólaár og hægt verði að taka málið fyrir á næsta fundi ráðsins.

     

2.

Skóladagatal. Samræmd dagatöl skóla og Frístundavers. - 201304035

 

Framhald af þriðja máli 303. fundar í fræðsluráði 21. febrúar 2018.

   
 

Niðurstaða

 

Áætlað er að sumarlokun leikskólanna sumarið 2019 verði 15. júlí til og með 14 ágúst. Stefnt er að því að gæsluvöllurinn Strönd verði opinn meðan sumarlokun leikskólanna stendur yfir. Þá verða leikskólarnir lokaðir vegna starfsdaga 5. október, 27.-28. desember, 26. og 29. apríl.
Kennarar GRV hefja störf 15. ágúst. Skólasetning verður 23. ágúst. Starfsdagur og vetrarleyfisdagar verða 22. - 26. október. Jólaleyfi hefst 21. desember, starfsdagar eru 3.-4. janúar og mæta nemendur í skólann 7. janúar. Páskaleyfi er frá 13.-22. apríl og starfsdagur 26. apríl. Þá er starfsdagur 6. júní og síðan skólaslit 7. júní.
Frístundaver verður opið virka daga skólaársins kl. 12:30-16:30. Boðið verður upp á heilsdagsvistun dagana 16.-22. ágúst, 22.-26. október, 21.-22. desember, 3.-4. janúar, 23. janúar, 13. apríl og 6. júní. Lokað er á starfsdögum Frístundavers sem eru 27.-28. desember og 26. apríl.

     

3.

Frístundaver - 2018031718

 

Fræðslufulltrúi kynnti drög að dagskrá fyrir sumarúrræði barna í 1.-4. bekk.

   
 

Niðurstaða

 

Hugmyndin er að sumarúrræði fyrir nemendur í 1.-4. bekk verði frá 11. júní - 20. júlí og skiptist upp í tvö þriggja vikna tímabil, þ.e. 11.-29. júní og 2.-20. júlí. Boðið verður upp á hálfsdags- og heilsdagsvistun. Gerð hafa verið drög að metnaðarfullri og fjölbreyttri dagskrá þar sem áherslan er á útivist, leiki, tómstundir, fræðslu og íþróttir.
Ráðið þakkar kynninguna og lýsir yfir ánægju með þessa þjónustuaukningu Frístundavers sem á án efa eftir að koma fjölskyldufólki vel.

     

4.

Samræmd próf 2017-2018 - 201711028

 

Umræður um þá stöðu sem komin er upp vegna annmarka á framkvæmd og fyrirlögn samræmdra prófa í 9. bekk.

   
 

Niðurstaða

 

Samkvæmt 39. gr. grunnskólalaga hvílir sú skylda á stjórnvöldum að leggja samræmd könnunarpróf fyrir nemendur í 4. og 7. bekk í grunnskóla og nemendur á unglingastigi.
Tilgangur prófanna í 9. bekk er fyrst og fremst að veita nemendum endurgjöf á stöðu sína þannig að þeir hafi tækifæri til að bæta hæfni sína fyrir lok grunnskóla en auk þess er gert ráð fyrir að skólasamfélagið og menntayfirvöld fái ákveðnar upplýsingar um stöðu nemenda, skóla og menntakerfisins í heild.
Framkvæmd samræmdra könnunarprófa í íslensku þann 7. mars og ensku þann 9. mars síðastliðinn mistókst en fjölmargir nemendur tóku prófin við ófullnægjandi aðstæður. Framkvæmd prófanna var haldin verulegum annmörkum þar sem aðeins hluti nemenda náði að ljúka prófi og hafa stjórnvöld því ekki getað uppfyllt skyldu sína við að veita nemendum endurgjöf. Þjónustuaðili prófakerfisins sem er bandarískt fyrirtæki hefur viðurkennt að villa sem kom upp í gagnagrunni stofnunarinnar í Evrópu hafi valdið því að rof varð á þjónustu við þá 4.000 nemendur sem þreyttu prófin á Íslandi. Það varð til þess að margir nemendur komust ekki inn í prófin, urðu frá að hverfa eða svöruðu prófinu við óviðunandi kringumstæður.

Fræðsluráð lýsir yfir gífurlegum vonbrigðum með þau vandamál sem upp komu í tvígang við fyrirlögn samræmdra prófa 9. bekkjar. Menntamálastofnun á að vera leiðandi afl og í fararbroddi hvað varðar menntamál landsins. Menntamálastofnun er, samkvæmt opinberri skilgreiningu, stjórnsýslustofnun á sviði menntamála sem stuðla skal að auknum gæðum skólastarfs og framförum í þágu menntunar í samræmi við lög og stefnu stjórnvalda, bestu þekkingu og alþjóðleg viðmið. Því er það þyngra en tárum taki þegar sú stofnun sem á að ryðja brautina, setja viðmiðin og leiða faglegt menntastarf bregðist nemendum, kennurum og sveitarfélögum ítrekað. Samræmd könnunarpróf hafa þurft að þola sinn skerf af óvæginni gagnrýni og efasemdum undanfarin ár og í Vestmannaeyjum hefur t.a.m. verið ráðist markvisst í að byggja upp tiltrú kennara, foreldra og ekki síst nemenda á mikilvægi samræmdra prófa og nú síðustu ár hafa loksins verið að sjást merki um breytt hugarfar gagnvart prófunum. Sú vinna hefur nú þegar beðið skaða.

Undirbúningur, fyrirlögn og eftirvinnsla samræmdra prófa er tímafrek og krefjandi vinna fyrir skólastjórnendur, kennara og nemendur. Nauðsynlegt er að Menntamálastofnun beri virðingu fyrir þeim mikla tíma og fjármunum sem sveitarfélög leggja í fyrirlagnir samræmdra prófa. Mælanleg viðmið eru skólasamfélaginu nauðsynleg til þess að mæla framfarir nemenda, styrkleika kennslunnar og stöðu skóla, t.d. eftir landshlutum en nauðsynlegt er að slík viðmið og próf séu marktæk, áreiðanleg og réttmæt. Nú hefur Menntamálastofnun gefið út að það sé nemendum og/eða forráðamönnum þeirra í sjálfsvald sett hvort þeir endurtaki samræmd próf í apríl eða á næsta hausti. Slík stjórnvaldsákvörðun Menntamálastofnunar leiðir vissulega af sér aukin útgjöld grunnskóla sem þurfa að leggja prófin fyrir í annað sinn vegna mistaka Menntamálastofnunar. Ekkert fjármagn fylgir slíkri ákvörðun Menntamálastofnunar og munu grunnskólar og sveitarfélög landsins því vissulega bera bæði fjárhagslegan og faglegan skaða af þessum mistökum. Fræðsluráð harmar að Menntamálastofnun hafi með þessum hætti brugðist stjórnendum, kennurum og nemendum GRV en á sama tíma vill ráðið þakka starfsfólki og nemendum GRV umburðarlyndið, þolinmæðina og snarræðið sem þeir vissulega sýndu við þessar erfiðu aðstæður. Fræðsluráð óskar eftir því að Menntamálastofnun skýri eftirfarandi:

1) Með hvaða hætti á að koma til móts við GRV hvað varðar kostnað skólans við seinni fyrirlagnir prófanna?
2) Hvernig verður endurgjöf á nám nemenda tryggt sem ekki kjósa að taka samræmdu prófin aftur?
3) Hvernig sér Menntamálastofnun fyrir sér að byggja eigi upp trúverðugleika samræmdra prófa í framtíðinni?
4) Hvernig mun Menntamálastofnun tryggja að álíka vandamál komi ekki upp aftur í framtíðinni?

Ráðið hvetur Menntamálastofnun til að nýta þetta tækifæri og bæta skipulagningu og framkvæmd samræmdra prófa þannig að þau komi til með að nýtast íslensku skólafélagi sem best.

     
                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:20

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159