27.02.2018

Bæjarráð - 3069

 
 

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3069. fundur

 

haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,

27. febrúar 2018 og hófst hann kl. 12:00

 

Fundinn sátu:

Páll Marvin Jónsson formaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður og Stefán Óskar Jónasson aðalmaður.

 

Fundargerð ritaði:  Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

Dagskrá:

 

1.  

201212068 - Umræða um samgöngur á sjó

 

Bæjarráð fjallaði um borgarafund um samgöngur á sjó milli lands og Eyja, sem haldinn var miðvikudaginn 21. febrúar:.
Um leið og bæjarráð fagnar því að ráðherra skuli eiga bein og milliliðalaus samskipti við bæjarbúa um samgöngur á sjó undirstrikar ráðið þann sterka vilja sem ríkir, bæði meðal bæjarfulltrúa og bæjarbúa, um að Vestmannaeyjabær taki yfir rekstur Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs. Samgöngur á sjó milli lands og Eyja er lífæð Vestmannaeyinga og ráða miklu um þróun samfélagsins til framtíðar. Það er því afstaða ráðsins að samfélagsleg sjónarmið eigi að ráða för þegar ákvarðanir eru teknar um stjórn og skipulag reksturs Herjólfs. Í því samhengi minnir bæjarráð á þann einhug sem þingmenn Suðurlands hafa sýnt hvað þetta mál varðar og dugar þar að vísa til blaðagreinar núverandi Samgönguráðherra í Eyjafréttum þann 18. október sl., þar sem segir: „Ég er sammála að skynsamlegt er að taka hugmyndum fagnandi um að Vestmannaeyjabær sjái um rekstur ferjunnar. Enginn er betri til að meta þörfina en heimamenn sjálfir.“ Undir þessi orð ráðherra tekur bæjarráð heilshugar og telur skynsamlegt að ráðast í nauðsynlegar breytingar á skipulagi reksturs Herjólfs nú þegar ný ferja leysir eldra skip af hólmi á haustdögum 2018.
Með þennan skýra og einbeitta vilja ráðherra að leiðarljósi óskar bæjarráð eftir því að samgönguráðherra eigi fund með bæjarstjórn Vestmannaeyja um þessi mál svo skjótt sem verða má. Óskað er eftir því að fundurinn fari fram eigi síðar en í annarri viku marsmánuðar 2018. Er miðað við að allir bæjarfulltrúar bæjarstjórnar muni mæta til fundarins.“

 

   

2.  

201802017 - Rekstrarstaða Náttúrustofu Suðurlands

 

Tekin var fyrir fundargerð stjórnar Náttúrustofu Suðurlands frá 26. febrúar s.l. Bæjarráð styður stjórn í þeim hagræðingaraðgerðum sem fram koma í fundargerðinni.

 

   

3.  

201802018 - Lífeyrisskuldbindingar starfsmanna SASS

 

Skipting á lífeyrisskuldbindingum við Brú lífeyrissjóð milli sveitarfélaga á Suðurlandi

 

Fyrir bæjarráði lágu útreikningar um hlut Vestmannaeyjabæjar í lífeyrisskuldbindingum vegna A deildar Brúar lífeyrissjóðs vegna HES, SASS og tengdra stofnana. Þar kom fram að hlutur Vestmannaeyjabæjar er samtals 11.245.817 kr.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá greiðslum í samræmi við fyrrgreinda útreikninga.

 

   

4.  

201801096 - Leikskólagjöld

 

Vísitöluhækkun leikskólagjalda.

 

Bæjarráð fjallaði um tillögu fulltrúa E-lista í fræðsluráði þess efnis að vísitölubreyting á leikskólagjöldum verði ekki reiknuð fyrir árið 2018.

Bæjarráð tekur vel í erindið og samþykkir að vísitölutenging við gjaldskrá leikskóla verði einungis reiknuð einu sinni það sem eftir er ársins 2018 (júní) og hvetur ráðið áfram til að halda gjaldskránni samanburðarhæfri við önnur sveitarfélög. Að öðru leyti er tillögunni vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

 

   

5.  

201602064 - Framlenging á tímabundnum stöðugildi umhverfis- og framkvæmdasviði.

 

Erindi frá framkvæmdastjóra á umhverfis-og framkvæmdasviði.

 

Fyrir bæjarráði lá erindi frá framkvæmdastjóra á umhverfis-og framkvæmdasviði. Í erindinu kemur fram að miklar framkvæmdir séu nú hjá sviðinu og eru þær helstu listaðar upp. Með vísan til verkefnastöðu óskar framkvæmdastjóri eftir því að fá að framlengja viðkomandi stöðugildi sem bæjarráð veitti fyrst samþykki 16. feb. 2016.

Í samræmi við það sem þegar hefur verið samþykkt í fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 samþykkir bæjarráð að halda viðkomandi stöðu út árið 2018.

 

   

6.  

201801087 - Beiðni um umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi fyrir Hótel Eyjar

 

Erindi frá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 23. janúar s.l.

 

Bæjarráð veitir jákvæða umsögn að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um.

Bæjarráð staðfestir jákvæða umsögn frá skipulags- og byggingarfulltrúa að starfssemin sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála og að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu.
Staðfestir jákvæða umsögn heilbrigðisfulltrúa heilbrigðiseftirlits suðurlands að starfsemin sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, laga um matvæli og mat heilbrigðisnefndar á grenndaráhrifum starfseminnar, þ.m.t. hljóðvistar ef við á.
Staðfestir jákvæða umsögn slökkviliðsstjóra að kröfum um brunavarnir sé fullnægt samkvæmt mati slökkviliðs miðað við 38 manns.

Umsögn þessi er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi rekstrarstaðarins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

 

   

7.  

200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð

 

Afgreiðsla trúnaðarmála var færð í sérstaka trúnaðarmálafundargerð.

 

   
                                                                                    

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13.15

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159