04.01.2018

Fræðsluráð - 301

 
 Fræðsluráð - 301. fundur

 

haldinn í fundarsal Ráðhúss,

4. janúar 2018 og hófst hann kl. 16:30

 

Fundinn sátu:

Hildur Sólveig Sigurðardóttir formaður, Sindri Haraldsson aðalmaður, Silja Rós Guðjónsdóttir aðalmaður, Birna Þórsdóttir aðalmaður, Sonja Andrésdóttir aðalmaður, Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Drífa Gunnarsdóttir starfsmaður sviðs, Thelma Sigurðardóttir áheyrnarfulltrúi, Helga Björk Ólafsdóttir áheyrnarfulltrúi, Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir áheyrnarfulltrúi, Kolbrún Matthíasdóttir áheyrnarfulltrúi og Kristín Hartmannsdóttir áheyrnarfulltrúi.

 

Fundargerð ritaði:  Drífa Gunnarsdóttir, fræðslufulltrúi

Einnig mættir:

Sigríður Ása Friðriksdóttir

Lilja Björg Arngrímsdóttir

Ingibjörg Jónsdóttir

Elliði Vignisson mætti í 1. mál.

 

Dagskrá:

 

1.  

201801019 - Þjónustukönnun Gallup

 

Kynning á niðurstöðum þjónustukönnunar Gallup á þjónustu er varðar málaflokka fræðsluráðs.

 

Bæjarstjóri kynnti þann hluta árlegarar þjónustukönnunar Gallup sem snýr að ráðinu. Könnun þessi er gerð til að kanna ánægju með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum og fór hún fram frá 3. nóvember til 17. desember.
Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar voru með þjónustu grunnskóla sveitarfélagsins kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (88%) voru 91% ánægð en einungis 9% óánægð og eykst ánægjan mikið á milli ára og er yfir landsmeðaltali.
Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu leikskóla sveitarfélagsins kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (87%) sögðust 88% ánægð og 12% óánægð og eykst ánægjan nokkuð á milli ára og er yfir landsmeðaltali.
Þá vekur það sérstaka ánægju að þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (85%) sögðust 83% ánægð en 17% óánægð og eykst ánægjan milli ára og er yfir landsmeðaltali.
Fræðsluráð fagnar þessum niðurstöðum. Eftir sem áður telur ráðið enn hægt að gera gott betra og minnir í því samhengi á að þegar hefur til að mynda verið samþykkt að byggja nýja deild við leikskólann Kirkjugerði auk þess sem byggja á nýjan samkomusal við leikskólann, stækka starfmannaaðstöðu, bæta eldhúsaðstöðu og ýmislegt fl. sem vafalaust mun bæta þjónustuna. Þá hefur einnig verið samþykkt að byggja við Barnaskólann, stórbæta skólalóðir bæði Hamars- og Barnaskóla og ýmislegt fleira.
Fræðsluráð óskar starfsmönnum til hamingju með þennan árangur og telur hann vitnisburð um þann metnað sem ríkir meðal starfsamanna sveitarfélagsins, kennurum og öðrum sem þjónustuna veita.

 

   

2.  

201801005 - Grunnskóli Vestmannaeyja

 

Tillaga um breytt skipurit og stjórnun Grunnskóla Vestmannaeyja

 

Fyrir liggur að skipurit stjórnunar GRV er þannig háttað í dag að yfir GRV er fimm manna stjórnendateymi sem samanstendur af skólastjóra, tveimur aðstoðarskólastjórum, hvor yfir sinni starfsstöðinni og tveim deildarstjórum, einum í hvorri starfstöð en það fyrirkomulag varð til við síðustu breytingu á skipuriti Grunnskóla Vestmannaeyja árið 2006 með sameiningu Hamarsskóla og Barnaskóla Vestmannaeyja í einn skóla, Grunnskóla Vestmannaeyja (GRV). Þá var skólunum aldursskipt þannig að í Hamarsskóla voru nemendur í 1.-5. bekk en í Barnaskóla Vestmannaeyja í 6.-10. bekk.
Breytingar verða á stjórnunarteymi GRV á næstu mánuðum. Aðstoðarskólastjóri Hamarsskóla hefur látið af störfum og sá aðili sem leyst hefur hann af mun hætta í næsta mánuði. Auglýsa þarf starf aðstoðarskólastjóra auk stöðu deildarstjóra við Hamarsskóla. Í þessu tilfelli er eðlilegt að endurskoða stöðu stjórnunarteymisins með það að markmiði að halda áfram að tryggja markvissa og faglega stjórnun sem nýtist fræðslustofnuninni sem allra best.
Bent hefur verið á ákveðið óhagræði af því að skólastjóri þurfi að deila sér niður á tvær starfsstöðvar. Þó kostirnir við að hafa einn skólastjóra yfir GRV geti verið á borð við að skólastarfið virki betur sem ein heild, stjórnunin sé á einni hendi og ákvörðunartaka ætti að vera markvissari þá eru vankantarnir þó þeir að starfsemin gæti talist of umfangsmikil vegna fjölda nemenda, bekkja og starfsfólks og fjarlægðar milli starfsstöðva. Þannig geti því skapast álag á stjórnendur sem hafa þá takmarkaða getu til að sinna væntingum allra innan skólans. Í skýrslu Ráðrík frá 2016 var bent á að slíkt geti leitt af sér of flata stjórnun sem leiði til þess að verkaskipting verði óskýr og starfsfólk viti ekki alltaf hver hafi úrslitavald um hvert mál. Skólastjóri þurfi að dreifa sér of víða og því komi oft í hlut annarra að taka ákvarðanir og leysa málin þegar hann er fjarverandi. Einnig kom í ljós við vinnu starfshóps um starfsumhverfi kennara við GRV að álag á kennara sé mikið og gjarnan óskuðu kennarar eftir meiri stuðningi og nærveru stjórnenda.
Með ofangreint að leiðarljósi samþykkir ráðið að kanna forsendur þess að hafa tvo skólastjóra við GRV auk tveggja aðstoðarskólastjóra og starfi hvort par fyrir sig í hvorri starfsstöðinni. Skólinn verði þó áfram undir nafni GRV og áfram aldursskiptur. Ráðið felur framkvæmdastjóra fræðslusviðs að undirbúa minnisblað fyrir næsta fund ráðsins um mögulegar útfærslur á breyttu skipuriti sem gerir ráð fyrir þessum breytingum ásamt því að óskað verði eftir umsögnum skólaráðs GRV og Kennarafélags Vestmannaeyja um þann möguleika að skipta stjórnun GRV alfarið upp eftir starfsstöðvum.

 

   

3.  

201310060 - Starfsáætlanir leikskóla

 

Starfsáætlanir Kirkjugerðis og Sóla fyrir skólaárið 2017-2018 lagðar fram.

 

Stjórnendur Kirkjugerðis og Sóla lögðu fram starfsáætlanir skólaársins og kynntu helstu áherslur starfsins.
Ráðið þakkar kynninguna.

 

   

4.  

201104071 - Daggæslumál

 

Kynning á stöðu daggæslumála.

 

Fram kom að samtals 9 leikskólaplássum var úthlutað í desember og janúar á Kirkjugerði, Sóla og Víkina. Staðan er þá þannig að fullt er á Kirkjugerði og Sóla. 5 börn eru á biðlista sem orðin eru 18 mánaða en eitt þeirra er í daggæslu hjá dagforeldri. Öll 5 ára börn hafa fengið vistun á Víkinni. Fullt er hjá þrem dagmæðrum af fjórum.

 

   

5.  

201711001 - Karellen, rekstarar- og vefkerfi leikskóla

 

Fræðslufulltrúi kynnti fyrir ráðinu Karellen, rekstrarkerfi fyrir leikskóla, sem tekið verður í notkun í byrjun febrúar. Kerfið inniheldur öflugt skráningarkerfi fyrir leikskólana ásamt innskráningar- og gjaldakerfi. Þá fylgir vefkerfi með og hafa nýjar heimasíður Kirkjugerðis og Víkurinnar verið opnaðar.
Ráðið þakkar kynninguna.

 

                                                                     

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:27

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159