10.10.2017

Bæjarráð - 3058

 
 

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3058. fundur

 

haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,

10. október 2017 og hófst hann kl. 12:00

 

 

Fundinn sátu:

Páll Marvin Jónsson formaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður og Stefán Óskar Jónasson aðalmaður.

 

Fundargerð ritaði:  Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

Dagskrá:

 

1.  

201705130 - Breytingar á A deild Brúar lífeyrissjóðs 1. júní 2017 vegna breytinga á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997

 

Erindi frá BRÚ lífeyrissjóð. Á fundinn mætti Sigurbergur Ármannsson fjármálastjóri og stjórnarmaður lífeyrissjóðsins BRÚ.

 

Fyrir bæjarráði lá erindi frá lífeyrissjóðnum Brú vegna breytinga á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Breytingarnar fela fyrst og fremst í sér uppgjör milli sjóðsins og launagreiðenda um lífeyrisaukasjóð og varúðasjóð og mun uppgjörið sjálft taka mið af stöðu A deildar sjóðsins þann 31. maí 2017.
Í erindinu kemur fram að við vinnslu framangreindra laga var áætlað að lífeyrisaukasjóðurinn fyrir A deild Brúar næmi um 36,5 milljörðum og varúðarsjóðurinn um 2,6 milljörðum. Þar með er skuld íslenskra sveitarfélaga við Brú 39,1 milljarður
Mat bæjarráðs er að líklegt megi telja að hlutur Vestmannaeyjabæjar af þessari skuld liggi nærri 450 til 500 milljónir.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og felur bæjarstjóra að skila minnisblaði þar sem lagðar eru til sviðsmyndir um hvernig hægt sé að mæta skuldbindingu upp á tilgreinda upphæð án þess að skerða þjónustu við bæjarbúa.

 

   

2.  

201710030 - Álagning útsvars og fasteignaskatts fyrir árið 2018.

 

Bæjarráð samþykkir óbreytta álagningu útsvars fyrir árið 2018. Í því fellst að útsvarsprósenta verði 14,46%. Á sama hátt samþykkir bæjarráð óbreytta álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2018 en fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði voru á seinasta ári lækkuð 16,7% eða úr 0,42% niður í 0,35%. Þar með samþykkir bæjarráð að fasteignagjöld íbúðarhúsnæðis verði áfram 0,35% og önnur fasteignagjöld verði sem fyrr 1,65%.

 

   

3.  

201709030 - Fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar 2018.

 

Forsendur og tímarammi fjárhagsáætlunar Vestmannaeyjabæjar 2018.

 

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi forsendur fyrir fjárhagsáætlun 2018.

 

   

4.  

201710040 - Dýpkun Landeyjahafnar haust 2017.

 

Bæjarráð fjallaði um forsendur sem lágu til grundvallar þess að Vestmannaeyjabær leigði dýpkunaskipið Galilei af belgíska fyrirtækinu JDN til að hefja dýpkun í Landeyjahöfn og freista þess að opna hana fyrr en annars hefði orðið. Í umræðunni kom fram að slík ákvörðun hafi verið tekin í kjölfar fundar bæjarráðs með verkefnisstjóra JDN sem kynnti leið sem ekki rúmast innan verksamnings við Vegagerðina sem annars ber ábyrgð á dýpkun Landeyjahafnar. Jafnframt kom fram það mat JDN að allt bendi til þess að þær aðferðir sem notaðar voru hafi skilað góðum árangri og orðið til þess að höfnin opnaðist fyrr en annars hefði orðið.
Í umræðum á fundinum gerði bæjarstjóri ennfremur grein fyrir áframhaldandi samtali hans við JDN. Í því samtali hefur meðal annars komið fram að fyrirtækið hefur nú í smíðum skip sem þeir telja til þess bært að auðvelda allt sem snýr að því að halda fullu dýpi fyrir nýja Vestmannaeyjaferju strax á næsta ári.
Bæjarráð þakkar JDN fyrir samsstarfið og felur bæjarstjóra að færa kostnað vegna þess til bókar.
Bæjarráð felur bæjarstjóra ennfremur að óska eftir fundi með yfirstjórnendum JDN í þeim tilgangi að ræða dýpkun og afla frekari upplýsinga um það með hvaða hætti verði hægt að tryggja dýpi þannig að höfnin haldist opin allt árið.

 

   

5.  

201710035 - Siglingar til Landeyjahafnar með Víking

 

Afrit af erindi KRST lögmenn dags. 3.10.2017 til samgönguráðherra þar sem fram kemur að Víking Tours Vestmannaeyjum ehf. óskar eftir siglingum milli Landeyjahafnar og Eyja fyrir farþegaskipið Víking skráningarnr. 2777.

 

Fyrir bæjarráði lá afrit af bréfi Viking Tours til Samgönguráðuneytisins þar sem óskað er eftir viðræðum um hvernig skipið Víkingur geti betur nýst Vestmannaeyjum til að bæta samgöngur.
Bæjarráð lýsir yfir einlægum vilja til þess að slíkar viðræður fari fram og leitað verði leiða til að nýta umrætt skip til að bæta samgöngur milli lands og Eyja. Sérstaklega bendir bæjarráð á mikilvægi þess að varaskip sé tiltækt þegar upp koma bilanir eða óvæntar frátafir af öðrum sökum.

 

                                                                             

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:00

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159