12.09.2017

Bæjarráð - 3056

 
 Bæjarráð Vestmannaeyja - 3056. fundur

 

haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,

12. september 2017 og hófst hann kl. 12.00

 

 

Fundinn sátu:

Páll Marvin Jónsson formaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður og Stefán Óskar Jónasson aðalmaður.

 

Fundargerð ritaði:  Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs

 

 

 

Dagskrá:

 

1.  

201707016 - Stoppdagar Herjólfs vegna viðgerðar haust 2017

 

Afleysingarskip fyrir Herjólf

 

Bæjarráð mótmælir því að bjóða eigi upp á mjög svo skert samgönguöryggi þegar Herjólfur fer til viðgerða nú síðar í mánuðinum en fyrir liggur að afleysingaskipið „Röst“ hefur ekki fullt haffæri til siglinga á hafsvæðinu í kringum Vestmannaeyjar. Bæjarráð felur bæjarstjóra að kalla eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um það hvernig standa skal að flutningum á fólki, vörum og öðrum aðföngum ef til þess kemur að ölduhæð verði þannig að ekki verði hægt að sigla í Landeyjahöfn þennan tíma.

Bæjarráð telur að mál sem þessi sýni enn og aftur hversu mikilvægt það sé að heimamenn komist úr því að vera áhorfendur að ákvörðunum um samgöngur og taki þess í staða fulla ábyrgð á rekstri þeirra og fái þannig beinan aðgang að þessu stærsta hagsmunamáli samfélagsins í Eyjum.
Til marks um stöðu Vestmannaeyjabæjar þegar að samgöngum kemur þá þurfa fulltrúar Vestmannaeyjabæjar að lesa um það í fjölmiðlum að afleysingarskipið hafi ekki haffæri til siglinga í Þorlákshöfn.

Bæjarráð bendir einnig á að afleysingaskipið hefur minni flutningsgetu bæði hvað varðar bíla og farþega og því er þess krafist að ferðum verði fjölgað umfram það sem annars væri og því eðlilegt að sumaráætlun verði látin gilda a.m.k. þar til Herjólfur kemur úr viðgerð.
Að lokum ítrekar bæjarráð mikilvægi þess að þingmenn kjördæmisins láti til sín taka hvað ofangreint varðar.

 

   

2.  

201504034 - Endurgjald til fyrrum stofnfjáreigenda Sparisjóðs Vestmannaeyja vegna samruna sparisjóðsins og Landsbankans.

 

Svarbréf frá Landsbankanum hf. dags. 30. ágúst s.l. vegna erindis frá Vestmannaeyjabæ og Vinnslustöðinni frá 19. júlí s.l.

 

Bæjarráð hefur yfirfarið svarbréf bankaráðs Landsbankans og telur fátt nýtt þar að finna. Þess í stað endurtekur bankaráðið sama málflutning og starfsmenn bankans hafa hingað til flutt. Þar með beitir bankaráðið sér gegn því að fyrrum eigendur Sparisjóðs Vestmannaeyja fái aðgang að gögnum sem veitt geta yfirlit yfir raunveruleg verðmæti sjóðsins þegar hann var yfirtekinn af Landsbankanum á þvingaðan máta.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að gæta áfram hagsmuna Vestmannaeyjabæjar og er tilbúið til að láta reyna á réttmæti þessarar aðferða Landsbankans fyrir dómstólum ef þurfa þykir.

 

   

3.  

201705039 - Rekstraryfirlit Vestmannaeyjabæjar 2017

 

Rekstraryfirlit bæjarsjóðs og samstæðu janúar-júní.

 

Fyrir bæjarráði lá 6 mánaða uppgjör bæjarsjóðs og samstæðu. Eins og rætt var í aðdraganda fjárhagsáætlunar þá er ljóst að rekstur Vestmannaeyjabæjar hefur verið að þyngjast og vega þar þyngst þróun launagreiðslna. Þá er einnig ljóst að sterk króna hefur veruleg áhrif á undirstöðu atvinnugreina í Vestmannaeyjum og þar með á tekjur sveitarfélagsins af útsvari, hafnargjöldum og fl. Eftir sem áður er rekstrarstaða Vestmannaeyjabæjar sterk og standa vonir því til að ekki þurfi að koma til skerðing á þjónustu.

 

   

4.  

201709007 - Landleigusamningur vegna Ofanleitisvegar, landnúmer 161251

 

Endurnýjun á leigusamningi vegna Ofanleitisvegar 2, landnr. 161251 vegna sölu á eigninni.

 

Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leiti framsal á réttindum venga tilgreinds lands og felur byggingafulltrúa að gera nýjan samning við fyrirhugaðan eiganda í samræmi við nýja skilmála um túnasamninga.

 

   

5.  

201708102 - Sjómannadagsráð óskar eftir styrk

 

Erindi frá Sjómannadagsráði Vestmannaeyja dags. 25. ágúst s.l. þar sem sjómannadagsráð vill þakka veittan stuðning við síðasta sjómannadag og benda á að Vestmannaeyjabær hafi fullan aðgang að hoppukastala og fótboltavelli sem er í þeirra eigu. Í framhaldinu er óskað er eftir 250.000 kr. styrk til að standa straum af kostnaði og uppihaldi á fólki frá fyrirtækjum úr nágrannabyggðarlögum sem vilja koma til Eyja um sjómannadagshelgi og kynna vörur sem þau eru að framleiða.

 

Bæjarráð getur ekki stutt tilgreint verkefni enda greiða fyrirtæki að öllu jöfnu sjálf kostnað við kynningu á sínum vörum og sinni þjónustu. Bæjarráð er eftir sem áður opið fyrir stuðningi við Sjómannadagsráð enda á sjómannadagurinn sinn sterka sess í bæjarlífinu í Vestmannaeyjum og heldur á lofti mikilvægi sjávarútvegs og sjómennsku fyrir byggð í Eyjum.

 

   

6.  

201709004 - Til umsagnar umsókn um skólaball FÍV

 

Erindi frá Sýslumanninum dags. 1. september s.l. þar sem óskað er eftir umsögn vegna skólaballs FÍV í Höllinni þann 14. september n.k. frá kl. 22.00 til kl. 01.00 aðfaranótt 15. september.

 

Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti. Samþykki þetta er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi samkomustaðarins á kostnað skemmtanahalda ef þörf krefur.
Bæjarráð veitir jákvæða umsögn að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um.

 

   

7.  

201708098 - Til umsagnar umsókn um rekstrarleyfi fyrir Café Kró

 

Erindi frá Sýslumanninum dags. 29. ágúst s.l. þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar Sigurmundar E. Gíslasonar vegna rekstrarleyfis fyrir veitingastaðinn Café Kró.

 

Bæjarráð veitir jákvæða umsögn að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um.

Bæjarráð staðfestir jákvæða umsögn frá skipulags- og byggingarfulltrúa að starfssemin sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála og að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu.
Staðfestir jákvæða umsögn heilbrigðisfulltrúa heilbrigðiseftirlits suðurlands að starfsemin sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, laga um matvæli og mat heilbrigðisnefndar á grenndaráhrifum starfseminnar, þ.m.t. hljóðvistar ef við á.
Staðfestir jákvæða umsögn slökkviliðsstjóra að kröfum um brunavarnir sé fullnægt samkvæmt mati slökkviliðs miðað við 50 manns.

Umsögn þessi er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi samkomustaðarins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.

 

   

 

 

 

 

                                                                                           

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12.57

Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159