04.09.2017

Fræðsluráð - 298

 

 

Fræðsluráð - 298. fundur

haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,

4. september 2017 og hófst hann kl. 16:30

 

Fundinn sátu:

Hildur Sólveig Sigurðardóttir formaður, Sindri Haraldsson aðalmaður, Silja Rós Guðjónsdóttir aðalmaður, Birna Þórsdóttir aðalmaður, Sonja Andrésdóttir aðalmaður, Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Erna Jóhannesdóttir starfsmaður sviðs, Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir áheyrnarfulltrúi, Kolbrún Matthíasdóttir áheyrnarfulltrúi og Helga Sigrún Þórsdóttir áheyrnarfulltrúi.

 

Fundargerð ritaði:  Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi

 

Erlingur Richardsson skólastjóri GRV, Thelma Sigurðardóttir skólastjóri Kirkjugerðis og Auðbjörg Halla Jóhannsdóttir áheyrnarfulltrúar sátu fundinn

 

Dagskrá:

 

1.  

201708045 - Bóka og ritfangakostnaður grunnskólabarna

 

Sonja Andrésdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu frá E-listanum. "Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa nokkur sveitarfélög ákveðið að borga allan bóka- og ritfangakostnað grunnskólabarna í sínu sveitarfélagi. Við hjá Eyjalistanum viljum koma með þá tillögu að Vestmannaeyjabær fylgi þessu fordæmi. Þá myndi Vestmannaeyjabær taka á sig þann kostnað sem fallið hefur að hluta eða öllu leyti á foreldra grunnskólabarna. Við mælumst til þess að frá og með haustinu 2018 verði þetta að veruleika".

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í fræðsluráði styðja tillögu E-listans hvað bóka- og ritfangakostnað nemenda varðar. Vestmannaeyjabær hefur, á undanförnum árum, lagt áherslu á stórbætta þjónustu við barnafjölskyldur með hagsmuni barna og fjölskyldna þeirra að leiðarljósi. Aukin þjónusta frístundavers, upptaka frístundastyrkja, auknar fjárveitingar til GRV vegna gæðaeflingar og þjónustu, heimagreiðslur til foreldra og fjölgun leikskólaplássa eru dæmi um þjónustuauka sem sveitarfélagið hefur ráðist í á undanförnum misserum. Tekin voru skref í átt að bættri þjónustu og lækkuðum kostnaði vegna námsgagna barna við sameiginleg innkaup skólagagna fyrir árganga og mældist slíkt fyrirkomulag einstaklega vel fyrir hjá foreldrum skólabarna. Nú telur fræðsluráð tímabært að ganga skrefinu lengra og tryggja að námsgögn verði grunnskólabörnum að kostnaðarlausu og þar með verði grunnskólaganga þeirra gjaldfrjáls.
Fræðsluráð vill ítreka að með þeirri ákvörðun um að greiða ritfangakostnað grunnskólanemenda eru ritföng ekki ókeypis heldur er tekin sú ákvörðun að íbúar sveitarfélagsins taki sameiginlega þátt í að greiða þann kostnað sem til fellur vegna þessa. Ástæða er til að geta þess að kostnaður við námsgögn er almennt ekki hár eða um 2500 kr á ári að undanskyldu fyrsta árinu. Í þeim tilvikum þar sem foreldrar og börn búa við skert kjör hafa sértæk úrræði ávallt verið í boði. Sú leið að greiða öll námsgögn er því fyrst og fremst til þægindarauka, einföldunar og þjónustueflingar.
Fræðsluráð beinir því til framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs við vinnu vegna fjárhagsáætlunargerðar ársins 2018 að tekið verði mið af því að greiddur verði ritfangakostnaður allra nemenda GRV við næstu haustönn.

 

   

2.  

201706026 - Sumarúrræði Vestmannaeyjabæjar sumarið 2017.

 

Samantekt um sumarúrræði sem Vestmannaeyjabær starfrækti sumarið 2017 lögð fram til kynningar.

 

Sumarúrræði frístundar var opnið frá 7. - 30. júní kl. 8 - 13. Umsjónarmaður var Heba Rún Þórðardóttir og fór starfsemin fram í húsnæði Féló í Rauðagerði. Foreldrar þrettán barna nýttu sér þjónustuna. Einn starfsmaður vann við frístundaverið auk umsjónarmanns. Í starfsemi sumarfrístundar var lögð áhersla á útivist. Börn sem þurftu fylgd í íþróttir fengu hana.


Gæsluvöllurinn Strönd við Miðstræti var opinn frá kl. 13-16 17. júlí til og með 11. ágúst. Heba Rún Þórðardóttir var umsjónarmaður með rekstrinum. Starfsmenn auk umsjónarmanns voru 3. Auk þess komu fjórir nemendur vinnuskólans til aðstoðar. Alls voru 403 skráningar á gæsluvöllinn og fjöldi barna frá 3 og upp í 40 á dag. Meðalfjöldi barna á dag var 22 börn.

 

   

3.  

201708108 - Lesfimi. Niðurstöður skólaársins 2016-2017

 

Skólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja gerir grein fyrir niðurstöðum lesfimiprófa síðasta skólaárs.

 

Haustið 2015 var hafist handa hjá Menntamálastofnun við að búa til mælitæki til að meta lestrarkunnáttu og framvindu nemenda í lesfimi, lesskilningi, orðaforða, stafsetningu og ritun. Yfirheiti yfir öll þessi próf er „Lesferill“. Fyrsta útgáfa af lesfimiprófunum var lögð fyrir haustið 2016 en þau mæla leshraða og lestrarnákvæmni. Nýlega voru niðurstöður lesfimiprófa vorið 2017 kynntar hjá Menntamálastofun.
Í Grunnskóla Vestmannaeyja var prófþátttaka í árgöngum frá 88- 100%. Almenn þátttaka á Íslandi var talsvert minni en það. Niðurstöðurnar sýndu að nemendur í 1. til 3. bekk eru almennt að standa sig vel þar sem yfirleitt náðist betri árangur en á landsvísu. Sömu sögu er að segja um nemendur 8. og 9. bekkja en þar náðu fleiri nemendur viðmiðunum en almennt gerðist á landsvísu. Lesfimiprófin sýna mynd af stöðu hvers og eins nemanda, hvers bekkjar, eða árgangs. Prófin draga því fram það sem vel er gert og gefa kennurum möguleika á að efla þá þætti sem betur mega fara svo að lesfimi nemenda megi aukast jafnt og þétt.
Mikilvægi marktækra mælinga á námsgetu og námsframvindu grunnskólabarna er ótvírætt, m.a. við mat á stöðu einstakra nemenda og gæðum skólastarfs. Fræðsluráð lýsir yfir mikilli ánægju með niðurstöður og gott þátttökuhlutfall og óskar GRV innilega til hamingju með þennan góða árangur sem mælist og er til vitnis um það öfluga fræðslustarf sem fram fer innan veggja grunnskólans í Vestmannaeyjum.

 

   

4.  

201611104 - Skólalóðir GRV.

 

Kynning á stöðu mála

 

Skólalóðir GRV hafa verið í óviðunandi ástandi í undanfarin ár og þörf á úrbótum. Í fyrra vetur og í sumar hefur verið unnið að drögum um uppbyggingu skólalóða út frá hugmyndum og tillögum sem koma frá skólastjórnendum, starfsmönnum skólans, nemendum og forráðamönnum. Fjölmargar hugmyndir um útfærslur komu fram sem nýttust vel við þessa vinnu. Hafa verður í huga að skólalóðir eru hluti af sameiginlegu leiksvæði barna fyrir nálæg íbúðarsvæði. Framkvæmdastjóri kynnti ráðinu þau drög sem liggja fyrir, en eru ekki fullmótuð. Unnið verður að kostnaðarútreikningum og framkvæmdaáætlun í framhaldinu. Framkvæmdastjóri mun fylgja málinu eftir m.a. við gerð fjárhagsáætlunar 2018.

 

                                                                                             

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:50

 

 

 

 
Vestmannaeyjabær | Ráðhúsinu | Bárustíg 15 | 900 Vestmannaeyjum | Sími: 488 2000 | postur@vestmannaeyjar.is | Kt.: 690269-0159